Í haust kom út bókin Hugrekki til að hafa áhrif eftir Höllu Tómasdóttur. Bókin hefur notið þónokkurra vinsælda en þegar uppsafnaði metsölulisti ársins birtist fyrst í lok nóvember kom í ljós að bókin var sú fjórða mest selda á árinu.
Höllu þekkja flestir fyrir það að hafa boðið sig fram sem forseta árið 2016 og hafnað í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni. Margir könnuðust þó við hana áður þar sem hún hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi á ferlinum, má þar nefna sem stofnanda Auðar Capital, sem framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, og sem lykilmanneskju í MBA-náminu á fyrstu starfsárum Háskólans í Reykjavík.
Starfar með leiðtogum stærstu fyrirtækja heims
Halla Tómasdóttir er í dag forstjóri B Team í New York borg þar sem hún starfar með leiðtogum, þar á meðal forstjórum stærstu fyrirtækja heims, með það markmið að leiða umbreytingu í viðskipta- og stjórnunarháttum í átt til betra samfélags eins og hún sagði sjálf frá í viðtali á Vísi. Það var mikil þolraun að fá þetta starf, en ráðningarferlið innihélt fjórtán atvinnuviðtöl. Hún hefur því persónulega reynslu af því að stökkva út fyrir þægindarammann og tileinka sér hugrekki til að ná sínum markmiðum í lífi og starfi. Þessu hugrekki vill hún miðla og hefur því gefið út bókina Hugrekki til að hafa áhrif sem Salka bókaúgáfa gefur út.
„Markmið mitt er fyrst og fremst að löngun þín til að leggja þitt af mörkum vaxi og finni sér farveg“
Þetta segir Halla í bókinni og vill að lesendur finni hugrekki til að hafa áhrif á það sem skiptir þá mestu máli.
Æfingarnar flottasta tólið
Bókin hefst á því að Halla fer yfir það hvað leiddi hana til að taka þeirri áskorun fólksins í kringum hana að fara í forsetaframboð. Hún fer svo í stuttu máli yfir feril sinn og hvernig hún hafi endað í sínu krefjandi og spennandi starfi í dag. Eftir það segir hún reynslusögur fólks sem hún hefur unnið með sem hefur margt hvert hugsað út fyrir boxið og farið óþekktar slóðir í fyrirtækjarekstri. Má þar nefna stofnanda Patagoniu sem hvetur til sjálfbærni í fataframleiðslu og vill að jörðin erfi fyrirtækið. Inn á milli kaflanna eru æfingar sem mér þóttu hreint út sagt mjög flottar og hlakka til að gera. Þær snúast meðal annars um það að íhuga hverjar fyrirmyndir manns eru í lífinu og setja sér skýr gildi og markmið. Í lok bókar má svo finna lista yfir áhugaverðar bækur, hlaðvörp og TED fyrirlestra sem geta nýst í hugrekkisvegferðinni.
Íslenska Brené Brown?
Bækur á borð við þessa eru sjaldgjæfar hér á landi og ég fagna því að verið sé að gefa út bók sem getur hjálpað íslensku fólki sérstaklega að ná sínum markmiðum með sögum af árangri bæði hérlendis (þar sem atvinnumarkaðurinn getur verið ansi sérstakur í ljósi einsleitni og fámennis) og erlendis. Hugrekki til að hafa áhrif minnti mig kannski einna helst á bækur Brené Brown en hún hefur talað mikið um að berskjalda sig (e. vulnerability), ég var því ekki hissa þegar bók eftir hana reyndist vera á meðmælalista Höllu.
Mér þótti áhugavert að kynnast Höllu betur sem persónu og að fá sýn á fólkið sem hún starfar með. Ég tel þó að bókin hefði getað verið enn betri með meiri fókus á æfingarnar sem ég held að muni hjálpa mjög mörgum sem vilja taka skrefið í átt að háleitum draumum. Einna helst langar mig bara að sitja námskeið hjá Höllu Tómasdóttur, enda afar margt sem hún getur miðlað frá sínu viðburðarríka lífi.