Lestur ljóðabóka er einstaklega notalegur yfir hátíðarnar. Það fer auðvitað eftir ljóðabókinni sem er valin en yfirleitt er hægt að treysta því að þær vekji upp margskonar tilfinningar, næri sálina og veiti innblástur. Ég hef lesið þónokkrar ljóðabækur á aðventunni og leyfi mér að mæla með nokkrum þeirra, ég dregst að ljóðabókum sem snerta við mér, kafa á dýptina og fylgja mér lengi eftir. Einnig eru nokkrar ljóðabækur sem ég er full eftirvæntingar að lesa og ætla að telja upp þrjár sem ég get vonandi fengið að glugga í á milli jóla og nýárs.
Ekki láta verðmiðann fæla ykkur frá ljóðunum þessi jól, þau geta nefnilega stundum vakið miklu sterkari tilfinningar en skáldsagan.
Ljóð undir jólatréð
Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur og Hlíf Unu Bárudóttur var ný upplifun. Áhrifamikil ljóð Melkorku eru pöruð saman við tegundir sveppa sem eru svo myndlýstir af Hlíf Unu. Myndirnar eru töfrandi fallegar og ljóðin meitluð og tilfinningarík. Yndislestur.
Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur inniheldur fjölbreytt ljóð þar sem ljóðmælandi kafar ofan í mannlega tilveru. Bæði hversdagslega og stundum yfirnáttúrulega. Launfyndin en einnig sár, spilar á allan tilfinningaskalann.
Þessa las ég að kvöldi til með nýfæddu dóttur mína sofandi í fanginu og hafði lesturinn því einstaklega mikil áhrif á mig. Sonja yrkir hér um gífurlega sáran dótturmissi. Dóttir hennar var aðeins 19 ára þegar hún lést í bílslysi. Átakanlegur en fagur lestur.
Örverpi er fyrsta ljóðabók Birnu Stefánsdóttur sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar nú á dögunum. Örverpi er knöpp en áhrifamikil ljóðabók, orðin eru fá en reynsluheimur heillar fjölskyldu stór. Hér má sjá hversu margt má lesa á milli línanna þegar orðin eru valin af mikilli kostgæfni.
Gyrðir upp á sitt besta hafa margir sagt! Einstaklega notaleg og falleg ljóð úr smiðju Gyrðis. Í Dulstirni er náttúran og einmanaleikinn í fyrirrúmi þar sem honum tekst að mála upp einstaklega næmar og áhrifamiklar myndir sem snerta við manni. Meðan glerið sefur fannst mér á léttara nótunum, heimspekilegri og húmorísk.
Stjörnufallseyjur eftir Jakub Stachowiak inniheldur prósa en ég leyfi henni þó að fylgja hér með vegna ljóðræns eðlis textans. Jakub er einstaklega frjór og skapandi höfundur sem er með gott lag á því að framandgera tilveruna. Bókin er draumkennt ævintýri sem er myndlýst fallega af Mörtu Maríu Jónsdóttur.
Ljóðabækur á leslistanum
Ég hef áður lesið bókina Sjálfsát eftir Helen Cova og var mjög hrifin af örsögunum hennar. Hún hefur einstaka rödd og er ég því mjög spennt að rýna í Ljóð fyrir klofið hjarta. Í Bókatíðundum stendur: „Þessi ljóð blanda fallega saman Íslandi og Venesúela og skapa einstakan samruna sem fagnar bakgrunni skáldsins á sama tíma og skáldið kannar andstæðurnar milli hennar fyrsta og núverandi heimilis.“
Sigrún Björnsdóttir er einstaklega fært ljóðskáld og nýt ég þess ávallt að lesa ljóð hennar.
Um Veltigrjót segir í Bókatíðindum: „Frumleg og margræð ljóðabók eftir Sigrúnu Björnsdóttur með særingum og hugleiðingum um steina, lífsháskann, ást og gleymsku.“
Hér er ein ljóðabók sem ég veit nánast ekkert um, hef aðeins séð kápuna og heyrt lof lesenda. Aðalheiður er dansari, danshöfundur, leikkona og nú ljóðskáld. Ég er spennt að sjá dans hennar á blaðsíðum bókarinnar.