Sjálfsát – Að éta sjálfan sig er mjög athyglisverð lítil bók sem kom út hjá Ós pressunni fyrir jól. Hún smellpassar í vasa en þrátt fyrir að prentverkið sé lítið er innihaldið gífurlega stórt. Bókin inniheldur þrettán örsögur sem einkennast af grótesku töfraraunsæi. Höfundurinn er hin venesúelska-íslenska Helen Cova sem áður hefur gefið út barnabókina Snúlla finnst gott að vera einn árið 2019. Bókin er þýdd af Helgu Soffíu Einarsdóttur og myndhöfundur er Rubén Chumillas.

Inngangur bókarinnar kveikti strax í mér, þar segir Helen örlítið frá sköpun bókarinnar en hún dregur innblástur frá höfundum á borð við Samöntu Schweblin sem einmitt hefur hrifið mig með myrkum smásögum og óhugnanlegu nóvellunni Bjargfæri

Óhugnanlegar örsögur

Fyrsta saga bókarinnar, „Sveðja“, setur tóninn: „Þegar ég hjó af mér höndina með sveðju sauð mamma súpu handa þeim fátæku upp úr hendinni.“ (15) Sagan er ekki nema tæp blaðsíða en er þrátt fyrir það áhrifamikil eins og lesendur geta séð út frá þessari upphafslínu sögunnar. Sagan „Hár“ vakti upp gífurlegan óhug en þar eignast móðir barn sem hafnar móðurmjólkinni frá fyrstu stundu og nærist aðeins á hári móður sinnar þar til það hlýtur skelfileg örlög: „Hún lá út um allt gólf eins og einhverskonar barn í vökvaformi, úthellt yfir teppið með sprunginn kvið, þakin hárum sem aldrei höfðu náð að meltast.“ (26) Lýsingarnar eru gróteskar og ögra lesandanum. Myrkur, dauði og kaldhæðni örlaganna einkenna sögurnar þrettán, en fjöldi sagnanna virðist ekki hafa verið tilviljun.

Barn í málmkassa

Sagan sem olli mér mestum óhug var „Nýr guð“ sem er frekar aftarlega í bókinni. Hún er lengri en flestar sögurnar, níu blaðsíður, og fjallar um par sem eignast fyrirbura á ferðalagi á heilagri grundu glataðs heimsveldis. Um leið og barnið fæðist er því komið fyrir í svörtum málmkassa þar sem það á að dúsa í sjö daga til að dæma um heilagleika þess. Fólkinu vantaði nýjan guð til að tigna. Ég segi ekki meir en þið getið rétt ímyndað ykkur hrylling foreldranna sem þurfa að bíða þessa sjö daga og ekki kemur það sem þau búast við upp úr kassanum að lokum.

Myndir Rubén Chumillas má sjá við hverja einustu sögu og jafnvel inn í textanum sjálfum. Mér finnst þær passa einstaklega vel við, þær eru allar svarthvítar og endurspegla drungalegan tón sagnanna. Sem heild er bókin lítið listaverk.

Sjálfsát – Að éta sjálfan sig er einstök bók sem sker sig svo sannarlega út úr því sem vanalega má búast við úr jólabókaflóðinu. Suður-amerískt töfraraunsæi í bland við svartasta skammdegi Íslands skapar snarpar uggvænlegar og hráar, örsögur sem þrýsta á mörk lesandans.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...