Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna verkið Óskaland eftir bandaríska leikskáldið Bess Wohl. Þetta er samtímaverk, fyrst flutt á sviði árið 2019 en það hlaut tilnefningu til Tony verðlaunanna árið 2020. Hilmir Snær Guðnason leikstýrir uppsetningunni í Borgarleikhúsinu og Ingunn Snædal hefur þýtt verkið lipurlega yfir á íslensku.

Dapur og drapplitaður heimur

Tjaldið rís upp og áhorfendur eru flugur á vegg á heimili sem er illa haldið af sad beige innanhússhönnun. Eldri hjón eru að undirbúa kvöldmat, þau stíga þaulvön spor í kringum borðstofuborðið, hvert um sig augljóslega vant því að fylgja þessari rútínu kvöld eftir kvöld. Þau eru samdauna heimilinu, jafn litlaus og heimilið í klæðnaði og svipbrigðin gefa ekkert uppi. Þögnin ríkir, en hún, eins og áhorfendur fá að læra þegar líður á verkið, er í raun þriðji aðilinn í þessu hjónabandi sem hefur enst í hálfa öld. Það er konan, Nanna (Sigrún Edda Björnsdóttir) sem rífur loks þögnina þeirra á milli og tilkynnir eiginmanninum Villa (Eggert Þorleifsson) að hún vilji skilja við hann. Hann samþykkir það án bollalenginga. 

Þrátt fyrir þessa stóísku ró í kringum ákvörðunina koma synir þeirra Benni (Jörundur Ragnarsson) og Baldur (Vilhelm Neto)  eins og stormsveipir í heimsókn, ásamt einni tengdadóttur (Esther Thalía Casey) , til að reyna telja þeim hughvarf. Hugmyndin er að þeirra mati galin, hvað eigi svosem annað að bíða þeirra á þessum aldri spyrja þeir.

Yfirþyrmandi þögn ríkir

Smátt og smátt kemur í ljós að þögnin hefur fengið að stjórna lífinu hjá öllum meðlimum fjölskyldunnar. Enginn tjáir sig almennilega og enginn hlustar. Það má til dæmis einnig sjá í samskiptum Benna við unnustu sína og svo hvernig Baldur reynir að finna trúnaðarmann á djamminu til að hella öllum sínum draumum, hugsunum, áhyggjum og afrekum yfir með dræmum en skondnum árangri.

Það var þó ekki einungis þögnin sem var vel flækt inn í hjónaband þeirra Nönnu og Villa því áhorfendur fá að læra af ýmsum flækjum í formi annarra aðila í bæði fortíð og nútíð.

Persónur og samræður skoplegar

Verkið er gamanleikrit og Bess Wohl hefur tekist að skapa skemmtilegar og mjög lifandi persónur þrátt fyrir að þær séu nokkuð stereótýpískar. Villi er þögull en veit meira en hann lætur uppi, Nanna er orðin langþreytt á rútínu heimilislífsins, Benni er stressaður lögfræðingur með barn á leiðinni og Baldur er viðkvæm listatýpa en samt í raun áhugaverðasta persónan af þeim öllum að mínu mati. Hann segist vera sá sem vinni alla tilfinningavinnuna fyrir fjölskylduna en í raun er það hann sem þarf mestan stuðning og áhlustun sem hann fær þó aldrei. Hann virðist fastur.

Allir þættir tala til hvors annars

Þögn og bæling kjarnafjölskyldunnar er römmuð snilldarlega vel inn með fatavali en í upphafi verks eru þau öll klædd í mjög daufa liti. Þá eru hjónin í hinni döpru drapplituðu tísku, eins og ég talaði um áður, á meðan synir þeirra eru gráir. Allar utanaðkomandi persónur eins og unnusta Benna, ástmaður Baldurs af djamminu og fleiri óvæntir gestir eru æpandi litríkir í mótsögn við þau. Búningar eru í höndum Urðar Hákonardóttur. Eftir því sem líður á framvinduna fer Nanna síðan að brjótast undan þessum daufleika, eins og glöggir áhorfendur geta vafalaust séð. Þannig tala leikmynd og búningar mjög vel saman og segja ákveðna sögu. Börkur Jónsson sér um leikmyndina.

óskaland

Leikarar vel að hlutverkunum komnir 

Eggert Þorleifsson var fullkominn í hlutverki hins hljóða og fýlda Villa og Sigrún var sterk, ákveðin og yndislega prakkaraleg í hlutverki Nönnu. Katla Margrét Þorgeirsdóttir kom þarna inn með sína sterku húmortöfra í hlutverki hinnar konunnar og ég fann að ég var farin að sakna þess að sjá Jörund Ragnarsson öskra hressilega og fara á taugum.Vilhelm Neto var frábær sem hinn viðkvæmni Baldur, óöruggur með festu, og Esther Thalía sem Júlía fékk kannski ekki úr miklu að moða en fékk líklega samúð allra kvenna sem hafa verið svona kasóléttar að þurfa að vera föst inn í þessu hvítu-millistéttar-drama. Hægt er að pæla dýpra í verkinu ef þörfin grípur; er Bess Wohl til dæmis mögulega að gagnrýna heterónormatíva kassann sem samfélagið skapaði? En samt er Baldur, sem fellur ekki undir þann kassa, einnig óhamingjusamur. Er Óskalandið þá grasið sem við höldum alltaf að sé grænna hinu megin, en er það ekki í raun? 

Auðveld speglun 

Orkan og fyndnin missti aðeins dampinn eftir hlé en þá þurfti auðvitað að binda verkið og boðskapinn saman, og þar mátti finna enn betur bandarískar rætur þess. Sáttin í lokin var hálf þvinguð en kannski má segja að lokaatriðið sé opið til túlkunar. Margir geta þó speglað sig í þessari fjölskyldudýnamík hér á landi og eflaust einhverjir sem hlæja einmitt af því að þeir tengja svo vel. Kannski er verkið að reyna of mikið að vera tvennt í einu. Húmorinn náði vel í gegn en boðskapurinn kannski ekki jafn sterkt. En það getur verið vandasamt fyrir leikara að ná bæði gamanleiknum í bland við dramaleik og þessi hópur náði verulega góðu jafnvægi þar á milli.

 Á heildina litið er Óskaland mjög létt og auðmeltanleg sýning sem öruggt er að gefi öllum mjög góða kvöldstund. Salurinn fylltist af hlátri. Handritið er snarpt, og oft og tíðum alveg sprenghlægilegt.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....