Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á streymisveitum en ég kæri mig um að opinbera hér. Himinhvolfið og geimurinn hefur heillað mig frá því ég var barn og það gladdi mig því mjög að sjá bókina Skoðum Alheiminn í jólabókaflóðinu í ár.

Bókin kom fyrst út á spænsku en höfundur hennar er Jorge Montoro. Jorge hefur skrifað margar vísindabækur fyrir bæði börn og fullorðna sem hafa notið vinsælda í heimalandinu. Skoðum Alheiminn kemur út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal. Ingunn hefur gefið út ljóðabækur og þýtt fjöldann allan af bókum, meðal annars bækur eftir metsöluhöfundinn Jenny Colgan. Ég er ánægð með þýðinguna á þessari bók, málfar er vandað og textinn aðgengilegur og flæðir vel.

Mismunandi áhugasvið mæðgina

Skoðum Alheiminn fer yfir atriði frá Miklahvelli, yfir í nútíma geimför og allt þar á milli. Ég las bókina fyrir sjálfa mig en drengurinn minn, sem er þriggja og hálfs árs, fékk að glugga í hana með mér. Hann hefur ekki úthald í langar bækur en við skoðuðum myndirnar og ræddum um ýmsa hluti sem gripu athygli hans. Vinsælasta opnan hjá honum var auðvitað blaðsíðan með geimklósettinu og manninum með fjórar beljur á öxlunum. Mér fannst hins vegar skemmtilegast að lesa um reikistjörnurnar og allar áhugaverðu staðreyndirnar um hverja þeirra. Ég sakna samt Plútó, sem telst ekki lengur vera reikistjarna, en ég ætla ekki að röfla (meira) um það hér!

Hægt að aðlaga að aldri barna

Uppbygging bókarinnar er svolítið skemmtileg. Fyrir hvert atriði sem er tekið fyrir er stuttur almennur texti efst, oftast bara nokkrar línur. Síðan er lengri feitletraður texti sem fer dýpra í umfjöllunina og loks eru skýringarkassar á víð og dreif. Það góða við þetta er að þá er hægt að aðlaga bókina að yngri lesendum og lesa bara það sem er þol fyrir. Minn gutti hafði gaman af því að glugga í hana með mér og bað aftur um að lesa geimbókina kvöldið eftir.

Teikningar glæða lífi

Bókin er ríkulega myndlýst en í bland við skreytingar eru líka skýringarmyndir, meðal annars frá NASA og Geimvísindastofnun Evrópu. Myndhöfundurinn er Silvina Socolovsky sem hefur gefið úr fleiri en fimmtíu bækur á sínum ferli. Hún býr í Madrid þar sem hún kennir bæði börnum og fullorðnum myndlist. Teikningar hennar glæða bókina bæði lífi og húmor. Það gerir heilmikið fyrir bókina að hafa teiknaðar myndir inni á milli.

Óvænt viðbót

Aftarlega í bókinni er orðalisti sem mér þótti mjög sniðugur. En það er ekki óvænta viðbótin sem ég vildi nefna. Alveg aftast er metnaðarfullur sambrjótanlegur bæklingur sem heitir Stór opnuauki um sólkerfið og geimför. Bæklingurinn kom skemmtilega á óvart en þar eru stjörnurnar í sólkerfinu sýndar í röð ásamt fylgitunglum og myndum af nútíma geimflaugum.

Aðalatriðið

Mér fannst bókin frábær. Í henni heppnast vel að útskýra flókin fyrirbæri á aðgengilegan hátt. Þótt drengurinn minn sé of ungur til að skilja öll þessi hugtök skipti það í raun ekki máli, við skemmtum okkur konunglega að skoða myndirnar og ræða um heima og geima. Það er aðalatriðið.

Skoðum Alheiminn er vönduð og vel uppsett fræðibók. Ég mæli innilega með henni fyrir krakka sem hafa gaman að því að fræðast um stjörnurnar, sólkerfið og geimför. Svo er geimurinn líka kúl! Það má ekki gleyma því.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...