Netflix áhrif í ljúfri jólaástarsögu

ljósbrot

Hittu mig í Hellisgerði er nýjasta bók Ásu Marinar sem hefur undanfarin ár gefið út hugljúfar ferðasögur. Við höfum áður fjallað um bækur hennar sem hafa farið með lesendur í ferðalög, meðal annars til Andalúsíu og alla leið til Víetnam.

Á íslenskum bókamarkaði hefur verið gat á markaði hvað varðar skvísubækur, en alltaf selst nóg af slíkum erlendum bókum. Því er gaman að hafa fengið í flóruna Ásu Marin sem skrifar léttari bækur sem má njóta þess að lesa í amstri dagsins. 

Að þessu sinni er Ása Marin með jólaívaf í bók sinni. Hittu mig í Hellisgerði segir frá Snjólaugu sem er að nálgast fertugt og er einhleyp móðir ungrar stelpu. Hún á í góðu sambandi við barnsföður sinn Nökkva en í ár hefur hann eyðilagt jólin með því að skipuleggja ferð til Tenerife með dóttur þeirra og stendur Snjólaug frammi fyrir því að vera ein á aðfangadagskvöld. Þessi ógnvekjandi staðreynd verður til þess að Snjólaug tekur loks af skarið í eigin ástarlífi og ákveður að vera búin að finna sér kærasta þegar klukkurnar hringja inn jólin. Hvernig henni mun takast til er svo umfjöllunarefni bókarinnar sem gerist frá lok nóvember og fram yfir hátíðarnar.

 

 

Norsk áhrif

Ef söguþráðurinn í bókinni, að kona á fertugsaldri ákveði að næla sér í jólakæró korter í jól, hljómar kunnuglega er það ef til vill því hann minnir óneitanlega á hina frábæru norsku Netflix-seríu Hjem til jul. Ása Marin er ekkert að fela Netflix áhrifin en hún vísar meðal annars í aðra norska jólaseríu á streymisveitunni, A Storm for Christmas, og ver söguhetjan Snjólaug ófáum kvöldum í að horfa á jólamyndir á veitunni. Snjólaug er sjálfstæð kona sem á sitt eigið brauðtertu-fyrirtæki,  eins og gjarnan er í Netflix jólamyndum, og þrátt fyrir að vera mörgum mannkostum gædd hefur lítið gerst í ástarlífi hennar – sé samband þeirra Nökkva, sem skildu þegar dóttir þeirra var pínu lítil, undanskilið. Þrátt fyrir þessi Netflix áhrif er sagan að öðru leyti íslensk.

Þegar Snjólaug ákveður að taka af skarið og skrá sig á stefnumótaöppin mæta henni þar misslæmir menn, Kristín besta vinkona hennar reynir að stappa í hana stálinu en er sjálf harðgift og því ekki mjög gagnleg í stefnumótaheiminum. Ég var farin að hugsa með mér eftir nokkra kafla um daglegt líf Snjólaugar og raunir hennar, hvort kæmi ekki að einhverju ferðalagi (ég hafði greinilega gleymt að lesa aftan á kápuna) en þá einmitt hvetur Kristín hana til að skrá sig í rómantíska stefnumótaferð á landsbyggðinni. Snjólaug er valin til þátttöku og fer af stað í vikulanga óvissuferð með níu öðrum einhleypum einstaklingum. Því er hér einnig á ferðinni ferðasaga með viðkomu á  helstu náttúruundur Suðurlands.

 

Eins og í raunveruleikasjónvarpi

Hittu mig í Hellisgerði greip mig alveg í snjókomu með heitt súkkulaði við hönd. Framvinda sögunnar er góð, í byrjun er hægt að hlæja af týpískum hrakförum nýgræðings á stefnumótaöppum, frábær kostur sem ghostar, maðurinn sem villl bara þriðja aðilann, og svo framvegis. Síðan hefst kjarni sögunnar sem er vikulöng ferð. Tíu þátttakendur, fimm einhleypir karlar og fimm einhleypar konur, eru sérvalin til að prufukeyra dagskrá fyrir þýskar stefnumótaferðir sem á að setja í loftið mánuðinn á eftir. Allar konurnar fá tækifæri til að kynnast körlunum og er markmiðið að einhver pör geti orðið til í slíkri ferð (á vissan hátt eins og í raunveruleikasjónvarpi). Snjólaug tekur stökk út fyrir þægindarammann með því að prófa þetta og í ferðinni fær hún ekki aðeins tækifæri til þess að kynnast nýjum karlmönnum heldur líka sjálfri sér og hvaða veggi hún hefur byggt upp gagnvart hinu kyninu sem kannski er kominn tími til að brjóta niður. Hún tekst einnig á við fortíðina og hvernig samband foreldra hennar hefur mótað hana, sem minnir á vissan hátt á þemað í Elsku sólum eftir sama höfund.

 

Kemur lesandanum í jólaskapið

Heilt yfir er Hittu mig í Hellisgerði bók sem kemur lesandanum í jólaskapið,  þetta er ljúf og falleg saga sem er kímin á köflum. Snjólaug er vel þróuð persóna en hinir leikendurnir eru meira í skugganum (hinn þýski Bastian hefði kannski mátt fá aðeins betri fínpússun). Bókin fer með lesandann á kunnuglegar slóðir rómantískra sagna, án þess þó að vera með öllu fyrirsjáanleg. Ég er mikil talskona þess að leyfa sér að lesa jafn fjölbreyttar bækur og man horfir á fjölbreytt efni á streymisveitum og mæli því heilshugar með því að fá sér heitt súkkulaði og jafnvel eina eða tvær piparkökur og gleyma sér í ástarraunum Snjólaugar.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...