Spánn, sangría og Sólir í leit að mömmu

Það er vor í lofti, lóan mætt og með henni bækur sem gaman er að lesa með hækkandi sól. Á dögunum kom út ný bók eftir Ásu Marin Elsku Sólir. Á síðasta ári sendi hún frá sér hina stórskemmtilegu Yfir hálfan hnöttinn sem við á Lestrarklefanum töldum fullkominn sumarsmell. Sú bók var ferðasaga um Víetnam sem fjallaði um ástarsorg og var sprenghlægileg á köflum en þó með þyngri undirtóni. Að þessu sinni einblínir höfundurinn ekki á rómantíska ást, heldur sambönd mæðgna og vinkvenna og fer með lesandann um Andalúsíu. Ása Marin lýsir þessu spænska héraði á ljóslifandi hátt og er snillingur í að fara með lesendur í áhugavert ferðalag.

Ratleikur um Andalúsíuhérað

Elsku Sólir fjallar um „sólirnar“ Sunnu og Ársól sem fá óvænt bréf frá móður sinni sem segist vera við dauðans dyr og vill fá þær út til sín. Hún er búsett á Spáni og hefur verið í litlu sem engu sambandi við dætur sínar í mörg ár. Ársól, sem er rétt rúmlega tvítug, vill strax fara, en Sunna sem er að nálgast fertugt og ráðsett með mann og barn er treg til að fara í fyrstu. Það verður þó úr að þær skella sér út og Barbara, gömul vinkona móður þeirra, slæst einnig með í för. Þegar út er komið er ljóst að þetta verða ekki einfaldir endurfundir heldur hefur móðir þeirra sett upp ratleik fyrir þær, eins og hún gerði á afmælum þeirra í æsku, sem mun varpa ljósi á fegurð Andalúsíu og fela í sér þrautir sem þær þurfa að leysa.

Trúverðugar systur

Bókin er skemmtilega uppbyggð, lesandinn er spenntur fyrir hverju bréfi í ratleiknum og að fylgja systrunum og Barböru eftir á ferðalagi þeirra um Andalúsíu.

Lýsingarnar á héraðinu og matnum þar eru af þeirri gerð að það kæmi undirritaðri ekki á óvart ef yrði stóraukning á sölu í ferðum á svæðið í kjölfar útgáfu bókarinnar!

Ása Marin fjallar mikið um matarmenninguna og í lok bókar eru uppskriftir rétt eins og hjá starfssystrum hennar Jenny Colgan og Noru Ephron, þær koma sér afar vel fyrir þá sem vilja útfæra spænskar veisluar hér á klakanum.

Persónusköpunin er góð, aðal persónurnar þrjár eru mjög trúverðugar. Systrasambandið einkennist af mikilli spennu en augljósri væntumþykju sömuleiðis. Eftir æsku þar sem ýmislegt gekk á hafa systurnar leitað hvor í sína áttina: Sunna hefur náð árangri í starfi hjá tryggingafyrirtæki, þarf alltaf að vera við stjórn og hefur eignast nýja fjölskyldu sem er henni haldreipi, en Ársól er enn mjög leitandi og lifir fyrir áhuga fylgjenda sinna á Instagram á lífi hennar. Þær hafa ekki verið í miklu sambandi og dýpkar samband þeirra mikið í gegnum ferðalagið. Barbara er gott mótvægi við systurnar, þó að lesandi kynnist henni ekki eins vel og þeim. Ég hefði þó viljað kynnast persónu Haddýar, móður systranna, betur. Hún er sveipuð dulúð fram eftir sögu en sumar lífsákvarðanir hennar hefði ég viljað fá betri skýringar á við lok bókarinnar.

Elsku Sólir er bók sem tilvalin er að taka með í fríið – hvort sem það er páskafrí eða sumarfrí. Nú eða fara í frí í huganum, og jafnvel þá með sangríuglas í hönd, enda fer lesanda að þyrsta í drykkinn við lesturinn!

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...