„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að nefna að ég væri á því.” Með þessum fleygu orðum hefst nýjasta skáldsaga Bennýjar Sifjar Ísleifsdóttur, Speglahúsið. En þessi upphafsorð voru á lista RÚV yfir bestu upphafssetningar í skáldsögum jólabókaflóðsins.
Benný Sif hefur öðlast sess sem ástkær höfundur þjóðarinnar frá því að fyrsta skáldsaga hennar, sögulega skáldsagan Gríma, kom út árið 2018. Hún hefur haldið áfram sinni vegferð í sögulegum skáldsögum og þar fær ljós hennar að skína sem menntaður þjóðfræðingur. Bækur hennar um Gratíönu hafa þá sérstaklega slegið í gegn, en auk þeirra gaf hún út bókina Djúpið árið 2021. Benný Sif fetar á vissan hátt á nýjar slóðir með Speglahúsinu þar sem bókin gerist að mestu í nútímanum, en sagan skiptist þó og flakkar milli tveggja sögusviða, annars vegar í nútíðinni og hins vegar á miðri síðustu öld.
Sérstök ferðaþjónusta í Mjóafirði
Speglahúsið segir sögu hinnar rauðhærðu Rósu, hárgreiðslukonu sem komin er á eftirlaun. Rósa er loksins farin að hugsa um sjálfa sig en ekki bara börnin sín sem hún ól upp sem einstæð móðir eða börn þeirra sem foreldrarnir virðast hafa lítinn tíma fyrir. Rósa kynnist föður sínum seint á lífsleiðinni og þau ná ekki löngum tíma saman áður en hann fellur frá. Hún ákveður eftir að hafa farið á frumkvöðlanámskeið að koma á fót óvenjulegri ferðaþjónustu og kaupa hús á Mjóafirði fyrir austan, hús sem að faðir hennar ólst upp í. Þar býður hún ferðamönnum að setja sig í spor Lísu, sem lá lömuð þar um miðja síðustu öld, og sá heiminn i gegnum spegla sem voru alltumlykjandi í húsinu. Ferðamennirnir fá algjöra kyrrð við það að liggja og fylgjast með firðinum út frá sjónarhorni Lísu og mörg verða fyrir sterkum hughrifum. Á meðan ferðamennirnir liggja og spegla heiminn, bakar Rósa fyrir kaffihúsið og hugsar til ömmu sinnar sem sá um Lísu og heimilið. Annað sögusviðið er því saga Rósu en hitt er saga heimilisfólksins um miðja síðustu öld en það eru meðal annars Lísa og Katrín, sem er amma Rósu. Rósa er næm og tengir því við bæði tímabilin og virðist barnabarn hennar einnig hafa þessa náðargáfu sem komið er aðeins inn á. En að mínu mati hefði mátt fara dýpra í.
Hughrif í Lísuhúsi
Að venju býður Benný Sif lesanda upp á fallegan ritstíl og ljóslifandi lýsingar af sögusviðunum. Ég efast ekki um að Mjóifjörður kalli á flesta lesendur bókarinnar og mörg muni hafa í huga að gera sér ferð þangað næsta sumar. Benný Sif notar fyrstu persónu rödd Rósu til að koma með alls kyns athuganir um nútímann og oft og tíðum eru það mjög fyndnar athuganir, meðal annars varðandi áhrifavalda og skjánotkun.
Margt ósvarað
Eins hrifin og ég hef verið af bókum Bennýjar Sifjar þá höfðaði Speglahúsið ekki jafn sterkt til mín og fyrri bækur. Sem yngri lesandi upplifði ég það sama og Ingibjörg Iða Auðunardóttir, yngri gagnrýnandi Kiljunnar, að eiga erfitt með að tengjast Rósu og finnast hún frekar neikvæð aðalpersóna. Þá fannst mér einnig margt ósagt í sögusviðinu frá síðustu öld, atburðarásin þar er mjög hæg framan af en svo þegar hlutirnir fara á flug fannst mér vanta tengingar eða eitthvað upp á til að sagan yrði heildstæð. Lesandi var skilinn eftir með svolítið margt ósvarað. Aðdáendur Bennýjar Sifjar munu þó eflaust njóta þess að lesa þessa vel skrifuðu bók og að kynnast Mjóafirði og ef til vill mun hún tala meira til eldri lesenda.