Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu skáldsögu sinnar Grímu árið 2018 og hefur verið afar afkastamikil síðan þá, sent árlega frá sér ritverk, bæði skáldsögur og barnabækur. Benný Sif nýtur bakgrunn sinn sem þjóðfræðing á skemmtilegan hátt til að segja sögulegar skáldsögur þar sem ekkert er til sparað við sögusviðið. 

Árið 2020 sendi Benný Sif frá sér bókina Hansdætur sem fram að þessu hefur verið talin að margra mati hennar sterkasta verk. Bókin er söguleg skáldsaga sem gerist um aldamótin 1900 og segir frá hinni ungu Gratíönu sem elst upp í vestfirsku sjávarplássi hjá móður sinni, Evlalíu, sem á þrjú börn með þremur mönnum. Gratíana er róttæk, vill skrifa í blöðin og óskar þess að systir sín Sella fái að stunda söngnám en Rannveig vinkona hennar fái að ganga í skóla.

Kærkomin framhaldsbók

Hansdætur var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins og ég gekk svo langt í dómi mínum að biðla til höfundar að senda okkur frekari frásagnir af Gratíönu. Þetta hefur Benný Sif til allrar hamingju gert með útgáfu Gratíönu fyrr í haust!

Gratíana gerist þremur árum eftir að Hansdætrum lýkur og er beint framhald. Mikið er vísað til þess sem gerðist í fyrri bók og því myndi ég segja að það væri krafa að hafa lesið hana áður. Undir lok Hansdætra stóð lesandinn í þeirri trú að draumar Gratíönu væru að rætast, hún komst alla leið til Kaupmannahafnar og fékk að stunda nám. En góði tíminn entist stutt og endar Gratíana aftur á sama stað og í byrjun sögu, í Arnarfirði (skálduðum bæ á Vestfjörðum). 

Það gildir það sama um þetta og annað. Þær hafa sín sjónarmið og hafa þau stundum í flimtingum sín á milli en flíka þeim ekki framan í Sigurlaugu. Stundum er lítið gagn í góðum manneskjum. bls. 109

Úgáfudraumarnir í pásu

Ólíkt því í Hansdætrum sem fór dálítið rólega af stað fer atburðarásin strax í gang í Gratíönu. Gratíana sem er barn í fyrstu bók er nú orðin ung kona. Hún hefur dvalið hjá móður sinni í Arnarfirði ásamt Ásdísi, lausaleiksbarni Sellu sem Gratíana tók á sig sem sína, síðan að hún sneri til baka frá Kaupmannahöfn með hana þremur árum áður. Lítið hefur orðið af útgáfudraumum Gratíönu sem vinnur í fiski ásamt móður sinni en Evlalía tekur þá ákvörðun að nú sé nóg komið af þessu og Gratíana skuli halda til frændfólks í Reykjavík og freista gæfunnar að fá vinnu á hóteli sem Ástríður Andersen, kona Björns Ebenesars frænda hennar rekur. Ásdís verður eftir hjá ömmu sinni fyrir vestan. Í bátsferðinni á leið suður breytast þó fyriráætlanir Gratíönu þegar henni býðst að fara að kenna dönsku í kvennaskóla norður á landi. Þangað er henni þó ekki ætlað að ílengjast og fer hún þaðan á Fiskifjörð á Austfjörðum og upplifir þar ýmislegt sem þroskar hana.

Persóna Gratíönu dýpkar

Það er gaman að fylgjast með skáldi taka sín fyrstu skref og vaxa svo og dafna með hverri bók. Benný Sif bætir um betur frá Hansdætrum sem þó var feykigóð með útgáfu Gratíönu. Uppbygging bókarinnar er sterkari, lesandinn er ekki fyrr farinn að festast í farinu fyrr en að ný atburðarrás skellur á. Höfundi tekst vel að halda á spöðunum og koma lesandanum á óvart með ýmsum vendingum. Tilfinningarnar flæða við lestur og var ekki stutt í tárin á nokkrum köflum bókarinnar.

Gratíana er eftirtektarverður karakter og dýpkar Benný Sif hana með þessari sögu. Í Hansdætrum var Gratíana ung og þar af leiðandi óreynd, sá heiminn í svörtu og hvítu og stóð með sínum prinsippum. Í framhaldsbókinni hefur hún mætt ýmsu mótlæti og orðið víðsýnni, en auk þess er um unga konu að ræða sem er að stíga sín fyrstu skref í ástarlífinu og stýrist hún því ekki lengur af rökréttum hugsunum heldur af hjarta sínu. Evlalía er einnig margslungin og fer Gratíana að skilja móður sína betur eftir því sem hún þarf að takast á við afleiðingar sinna lífsákvarðana.

Kamrarnir snúa aftur

Þjóðfræðingurinn Benný Sif skín sem fyrr segir í gegn og er höfundur óhræddur við að segja frá lífinu um 1910 með miklum realismi, meira að segja kömrunum og meiriháttar veseni við að létta af sér (eins og í fyrri bók!). Það sem mér þótti þó takast svo einstaklega vel var að segja sögu í fortíðinni sem lesendur nútímans tengja við en þó aldrei leyfa lesandanum að gleyma hvað var hart í ári á þessum tíma og minna þannig á berkla, barnadauða, áhættuna við fæðingu o.s.frv. 

Saga Gratíönu mætti alveg ljúka við útgáfu þessarar bókar, en Benný Sif, ég myndi nú ekkert mótmæla því ef þú héldir ævintýrinu áfram!

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...