Hinsegin hugarheimur

15. júlí 2025

Sjálfsævisögulegi söngleikurinn Góðan daginn faggi kom fyrst á svið árið 2021 og hlaut mikið og verðskuldað lof. Hann hefur verið sýndur yfir 140 sinnum í þremur löndum og er nú á ný kominn á fjalirnar og í þetta sinn í Háskólabíó undir merkjum sviðslistahússins Afturámóti.

Verkið er samið af Bjarna Snæbjörnssyni sem flytur það með stuðningi frá tónskáldi verksins, Axel Inga Árnasyni, sem spilar  einnig á píanó, syngur bakraddir og leikur á móti Bjarna við og við. Leikstjóri verksins og meðhöfundur er Gréta Kristín Ómarsdóttir.

Stórt svið og stórar tilfinnginar

Ég hef séð verkið áður, þá í Þjóðleikhúskjallaranum og var óviss hvernig verkinu færi að vera á jafn stóru sviði og í Háskólabíó, þar sem kjallarinn hentaði óskaplega vel fyrir nándina og kósýheitin. Í ljós kom að það voru óþarfa áhyggjur því verkið var enn betra ef eitthvað er á stóru sviði. Tónlistin naut sín vel og Bjarni hafði salinn með sér í liði frá fyrstu mínútu. Eitt af því mikilvægasta við sýningu sem er svona persónuleg og fer fram sem einræða og upplestur leikara er hvort leikaranum tekst að hrífa salinn með sér, og Bjarni gerði það svo sannarlega. Það var hlegið ótrúlega mikið, enda verkið mjög fyndið, og svo var grátið enn meira þegar tilfinningaleg þungamiðja verksins var dregin fram.

Saga Bjarna er ósköp merkileg, og þá sérstaklega í því ljósi að hann býr við mestu forréttindi sem hinsegin manneskja getur ímyndað sér, en er samt sem áður aðraður, niðraður og fylltur af tilfinningunni um að hann sé rangur og öðruvísi og að það að vera hommi sé það versta sem hægt er að vera. Þessar tilfinningar fær hann í gegnum skilaboð sem flæða bæði beint og óbeint inn í hann frá unga aldri og gera enn.

Gaslýsing og öðrun

Samfélagið okkar sem hefur lengi merkt sig sem paradís hinseginfólks er nefninlega ekki jafn fullkomið og margir vilja vera láta. Hinsegin fólk þekkir margt hvert af eigin reynslu þessa öðrun sem fylgir því að vera hinsegin, að vera á skjön við það sem samfélagið telur hina réttu og einu braut – heterónormatívuna. Ég er 13 árum yngri en Bjarni og alin upp í Kópavogi, ekki úti á landi eins og hann. Það er þó ótrúlegt hversu margt við Bjarni eigum sameiginlegt í uppvextinum sem hinsegin börn sem urðum svo hinsegin fullorðið fólk. Alls kyns komment og skilaboð flæddu inn í mig frá unga aldri um að það sé neikvætt að vera hinsegin og að það skuli forðast, en á sama tíma var því haldið fram að á Íslandi væru ekki fordómar gegn hinsegin fólki. Þessi tvískinnungur hefur gaslýsandi áhrif því að á meðan manni líður eins og maður verði fyrir öðrun og aðkasti (því maður verður það), og reynir að ræða það, eru skilaboðin að maður hljóti nú að hafa misskilið eitthvað. Að manneskjan/stofnunin/skólakerfið sem aðraði mann hafi ekki meinað neitt slæmt og að maður sé að lesa um of í skilaboðin. Þetta á við um einföld skilaboð eins og að gera ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir og sískynja, sem gerir það að verkum að hinsegin aðili þarf stöðugt að koma út úr skápnum eða lifa í lygi. Og þó mörgum finnst ekki stórmál að alltaf sé gert ráð fyrir að aðili eigi maka af gagnstæðu kyni þá er það dæmi um þessa hversdagslegu og stöðugu öðrun, það að þurfa alltaf að leiðrétta og benda á eigin hinseginleika.

 

Tíminn líður

Með verkinu hefur Bjarni náð að skapa djúpa innsýn inn í hinsegin hugarheim, inn í uppvöxt og hvað það er að vaxa úr grasi, að blómstra í því að hata sjálfan sig, að elska sjálfan sig, að læra inn á sjálfan sig. Hann veitir innsýn ekki aðeins í sinn heim heldur sammannlega reynslu hinsegin fólks, tengir okkur saman og veitir okkur styrk án þess að mála yfir erfiðleikana, að fela allt mótlætið í glimmersprengju en halda þó í húmorinn, frelsið og mennskuna.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...