Þorskasaga
eftir HAFstein Níelsson og Ólíver Þors(k)teinsson
Nú er loksins komið að því! Ég hef gagnrýnt leikverk á Íslandi með hléum síðastliðin fimm ár, og loksins, loksins, hafa allar óskir mínar ræst. Góðan daginn faggi, Vitfús Blú og nú Þorskasaga. Íslenska söngleikjasenan er komin í bullandi uppsveiflu, móðurmálinu hefur verið bjargað úr heljum enskunnar með hverjum slagaranum á eftir öðrum, og það besta? Margir þessa umræddu slagarar fjalla um Þorskastríðin þrjú.
Hvað er undir skegginu?
Þorskasaga er nýr söngleikur runninn úr ranni þeirra Hafsteins og Ólívers, en Hafsteinn semur tónlistina og þeir svo verkið saman sem útskriftarverkefni sitt úr LHÍ. Upprunalega var Þorskasaga sýnd fyrr á árinu en hefur nú aftur verið skellt á fjalirnar í sumarleikhúsinu Afturámóti, sem er ein besta viðbót við íslenska leikhússenu sem hugsast getur.
Söngleikurinn minnir örlítið á hinn bandaríska Hamilton, þar sem hrútleiðinleg stjórnmálasaga Bandaríkjanna er glædd lífi með hressilegri tónlist og orðsnilli, dansi, búningum og ljósum. Leikarar Þorskasögu eru þær Gúa Margrét Bjarnadóttir, Hildur Kaldalóns Björnsdóttir, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Salka Gústafsdóttir og Sólbjört Sigurðardóttir en þær bregða sér í hlutverk fimm Gella (hehe). Standa leikararnir sig hver öðrum betur og heilla salinn gjörsamlega með húmor, frábærum söng, flottum dansi og geislandi sviðsframkomu. Þvílík veisla.
Hafsteinn leikstýrir verkinu sjálfur, en aðstoðarleikstjóri verksins og dramatúrg er Kristinn Óli Haraldsson, tónlistarstjóri er Kolbrún Óskarsdóttir og Hrannar Máni sér um tónlistarupptökur og hljóðvinnslu. Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sér um kórstjórn og er í bakröddum ásamt Sigri Huldari Ellerup Geirs.
Þjóðremba, lýðskrum og langrækni
En hvernig í fjáranum gerir einhver skemmtilegan söngleik um Þorskastríðin? Jú, það tekst einmitt hér. Þorskarnir fimm, eða gellurnar, sem segja áhorfendum söguna gera það út frá eigin sjónarhorni, eða svo segja þær. Þær eru Íslendingum hliðhollar og passa að gera þjóðinni hátt undir höfði og níða Bretana. Persónur eru dregnar fram og þeim gefin lög sem þær syngja á svo sannarlega eftirminnilegan hátt. Þá er lag Dick Taylor í flutningi Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur sérlega eftirminnilegur eyrnaormur sem syngur enn í hausnum á mér. Á milli þess sem gellurnar bregða sér í mismunandi búninga minna þær óneitanlega á grísku músurnar í Herkúles sem segja áhorfendum frá með gullfallegum söng, persónuleika og galsa.
Skipting á milli stríðanna þriggja er skemmtileg og sagan er einfölduð nógu mikið svo að hún skiljist vel. Bandaríkin koma inn með sinn kántríslagara og biðja alla um að vera vinir, Sovétmenn syngja sig inn á völlinn og svo mætti lengi telja í persónugalleríinu ríkulega.
Það er einnig mjög gaman að sjá hvernig höfundar vinna með mýtur um samheldna þjóð og einn vilja Íslendinga. Eða með öðrum orðum ákveðna sögulega frásögn sem er oft á tíðum birt sem einfölduð mynd. Þarna líta þeir einnig til breskra þegna sem eingöngu voru að vinna sína vinnu vegna lélegra kjara, og sýna þannig marglögunina og sammannlegar hliðar stríðandi aðila.
Sýning eða Show
Þorskasaga er veisla fyrir skilningarvitin, en þar eru ljós, skjáir, dans og fleira sem grípa og fanga. Sviðshreyfingar eru afar vel heppnaðar, en þær, sem og dansinn, eru í höndum Leu Alexöndru Gunnarsdóttur. Egle Sipaviciute sér um leikmyndina sem er einföld en þó virkilega vel nýtt, augað er dregið að miðju sviðsins á fallegan og einfaldan hátt, og passað er upp á jafnvægi og pláss. Búningar Huldu Kristínar Hauksdóttur eru fallegir og skemmtilegir, og ég kann virkilega að meta húmorinn og leikgleðina í appelsínugulum pollabuxum á móti netasokkabuxum, glimmeri og pallíettum.
Áfram íslenskir söngleikir
Ég hef sjaldan verið jafn heilluð í leikhúsi. Ekki síðan ég sá Vitfús Blú og Góðan daginn faggi, sem ég nefndi hér að ofan. Að sjá þennan sköpunarkraft og orku er alveg mögnuð upplifun og minnir mig á hvers vegna ég elska leikhús. Þegar listamönnum er gefinn laus taumur að skapa af ást og elju verða til ótrúlegir galdrar og ég hvet alla sem geta til þess að tríta sig í leikhúsgaldra hjá Afturámóti í sumar, en ég vona að sumarleikhúshefðin sé komin til að vera.
Leiðinlegi kaflinn
Það eina sem má setja út á Þorskasögu er þrennt og ég raða þeim hlutum hér upp eftir stigvaxandi mikilvægis:
Það væri geggjað að fá hressandi lag í endann til að peppa áhorfanda út, en þó er allt í lagi að enda rólega, margir góðir söngleikir gera það líka, eins og Rocky Horror Picture Show, en þannig skilar boðskapur verksins sér auðvitað vel til áhorfenda. Mikilvægi: 1/5
Seinna atriðið er að hljóðkerfið í Háskólabíói er ekki það besta fyrir svona sýningu og maður heyrði aðeins bresta í því í byrjun verks, en það gleymdist ósköp fljótt. Hægt er að leysa þetta með að vippa verkinu upp í stórt leikhús og þá er ég sátt og mæti aftur. Mikilvægi: 2/5: auðleysanlegt.
Og eitt í viðbót: Plís erum við að fara verða búin að segja stórasta land í heimi brandara? Þetta er svo þreytt. Mikilvægi: 4/5
Að endingu er vert að nefna að við ættum öll að vera mjög spennt að sjá Ormstungu sem verður sýnd í Þjóðleikhúsinu í haust en það er einmitt eftir sömu höfunda. Og ég verð að segja að allar leikkonur Þorskasögu eru stórstjörnur sem skara fram úr. Áfram þið.






