Ætli það sé til fullkominn dagur? Dagur þar sem akkúrat ekkert slæmt gerist? Hvergi? Þetta er því miður barnaleg spurning og ég veit svarið við henni. Það er talið að einhver falli fyrir eigin hendi á fjörtíu sekúnda fresti, einhvers staðar í heiminum. Þetta er sláandi og hræðileg staðreynd. Staðreynd engu að síður. Að minnsta kosti leit þessi tölfræði svona út árið 2015, eitt líf á fjörtíu sekúnda fresti þegar Jennifer Niven settist niður og skrifaði eftirmála í bók sína Violet og Finch.
Þetta er vandmeðfarið efni en algjörlega þarft að fjalla um það engu að síður. Violet er í sama skóla og Finch en þau þekkjast þó ekki og eru eins og svart og hvítt. Þetta er klassísk saga um prinsessuna og froskinn, hann er nörd, óútreiknanlegur, frík, hún er vinsæl og glæsileg, fyrrum kærasta sætasta stráksins í skólanum. Sagan er sögð til skiptis af þeim báðum og við sjáum í huga þeirra beggja. Bæði telja þau dagana. Hún telur þá daga sem líða, í von um að þeir líði sem fyrst. Einn dagur í viðbót með sársauka og óbærilegum kvíða og söknuði. Hún telur dagana sem líða frá því að þær systur lentu í bílslysi og sú eldri Eleanor dó og skyldi Violet eftir. Theodor Finch telur dagana sem hann vakir og bíður þess að myrkrið hvolfist yfir hann og ræni hann bæði tíma og rúmi.
Þau hittast af tilviljun efst í klukkuturni skólans í upphafi bókarinnar, bæði með sama tilgang í huga en saman taka þau u-beygju og reyna að krafla sig tilbaka, fyrst niður úr klukkuturninum, og á lífi, en svo í lífinu sjálfu. En það er ekki auðvelt. Violet er föst í sjálfsásökunum og hvorki hún né foreldrar hennar hafa unnið úr þeim atburði sem breytti öllu til hins verra. Finch neyðir hana til að horfast í augu við sjálfa sig, sjá hlutina eins og þeir eru og sjá sjálfa sig í öðru og jákvæðara ljósi. Hann hinsvegar á erfitt með að tileinka sér þann sannleik sem hann færir henni. Hann kemur úr brotinni fjölskyldu, foreldrar hans eru skilin og faðir hans kominn með nýja fjölskyldu. Hann er þó í góðum tengslum við systur sínar og mömmu að einhverju leyti en sinnuleysi einkennir samskipti þeirra á báða bóga og Finch er látinn afskiptalaus með slælega skólagöngu, vanlíðan og brotna sjálfsmynd sem sýnir sig í því að hann veit í raun ekki hver hann er. Hann er ávallt leitandi og alltaf með sáran sting í brjóstinu. Hann er beittur líkamlegu ofbeldi af föðurnum sem beitir einnig andlegu ofbeldi gegn þeim öllum.
Þetta er hjartnæm saga og maður fær það snemma á tilfinninguna að hún eigi ekki eftir að enda vel. Finch er með þráhyggju fyrir að enda líf sitt, hann leitar uppi endalausa tölfræði um sjálfsvíg á netinu á meðan hann er staðráðinn í því að hjálpa Violet og sjá til þess að hún losni úr þessu svartnætti sem hefur umlukið hana síðan bílslysið varð. Hann slær sínum málum á frest til að hjálpa henni.
„Hvað ef lífið gæti verið svona? Bara góðu hlutarnir, ekkert af þessum hræðilegu, ekki einu sinni þessum sem eru örlítið óþægilegir. Hvað ef við gætum bara klippt þetta vonda út og haldið því góða? Þetta er það sem mig langar að gera með Violet – gefa henni bara það góða, bægja því vonda frá svo það góða verði það eina sem við höfum í kringum okkur.“ (bls 158).
Á einhverjum tímapunkti hættir hún að telja dagana og svo kemur að því að hann hættir líka að telja og þau eru saman í núinu. Þar til að foreldrar hennar taka í taumana og meina þeim að hittast, þar til að sálfræðingurinn í skólanum imprar á raunverulegu ástæðunni fyrir geðsveiflum og niðurtúrum Finch, þá fer allt til fjandans og ekkert verður sem fyrr.
Í bókinni er lýst hvernig foreldrar Finch neita að sjá ástandið eins og það er, neita að horfast í augu við öll merkin sem hreinlega æpa á þau að ekkert sé í lagi og að sonur þeirra sé í mikilli hættu. Og þegar ég segi að þau neiti að sjá, þá meina ég að þau innst inni skammast sín fyrir að eiga son sem sé í sjálfsvígshættu og horfast ekki í augu við sannleikann þess vegna. Ég á mjög erfitt að skilja að slíkt geti verið. Að foreldri neiti að horfast í augu við slíkan sannleika vegna skömm.
En miðað við eftirmála bókarinnar, þá reynslu sem höfundur sjálfur hefur af þessum málum og miðað við þá rannsóknarvinnu hann hefur lagt á sig við gerð þessarar sögu þá verð ég að horfast í augu við þann sannleik að það er víst algengara en hitt að aðstandendur hunsi vísvitandi hættumerki þar sem skömmin sem fylgir því að viðurkenna að náinn ástvinur vilji ekki lifa lengur sé svo yfirþyrmandi.
Þessi bók er svo þörf, svo mikilvæg í umræðunni um líðan og andlega heilsu. Fordómar Finch gagnvart því að fá þá sjúkdómsgreiningu , að vera með geðhvörf, þessir fordómar eru alltumlykjandi í samfélaginu og ekki bara gagnvart andlegum sjúkdómum heldur líka gagnvart þeim sem fremja sjálfsvíg og ekki síður þeim aðstandendum sem eftir sitja. Í eftirmála höfundar kemur fram að geðrænir sjúkdómar séu oftar en ekki ógreindir þar sem viðkomandi vilji ekki þann stimpil og merkimiða sem í greiningunni felst og fólk skammast sín of mikið til að geta rætt sína líðan og sína andlegu heilsu. Ég vil því gera orð höfundar í eftirmálanum að mínum:
„Ef þú heldur að eitthvað sé að – láttu þá vita.
Þú ert ekki ein/n.
Þetta er ekki þér að kenna.
Það er hægt að fá aðstoð.“