Ég vildi að ég hefði fæðst strákur er fyrsta útgefna skáldsaga Önnu Elísabetar Ólafsdóttur, sem er doktor í lýðheilsu að mennt, auk þess sem hún er með með meistaragráður í næringarfræði. Anna Elísabet bjó í Norður-Tansaníu í fjórtán ár, rak þar fyrirtæki og ræktarstöð, og stofnaði þar félagasamtök með það að markmiði að efla konur í efnalitlum byggðum.

Ég vildi að ég hefði fæðst strákur segir frá lífi Zöru, frá fimmtán ára aldri og fram á fullorðinsár. Zara er, að sögn höfundar, byggð á þremur raunverulegum Tansanískum konum sem hún hefur kynnst í lífinu. Zara býr með kjarnafjölskyldu sinni í litlum bæ, hún á foreldra og sjö systkini, þar af tvo bræður. Pabbi hennar vinnur úti og aflar fjölskyldunni tekna, svo þau eru vel stæð miðað við marga í þorpinu sínu. Zara er elst af systkinahópnum og axlar mikla ábyrgð, hjálpar móður sinni með heimilisstörf eins og matseld, vatnsburð, barnagæslu og þrif. Þess utan gengur hún í skóla og á sér þann draum heitastan að læra fatasaum og stofna sitt eigið fyrirtæki. Hún veit þó að sá draumur er ekki sjálfgefinn, því mjög fáar stúlkur komast í saumanám eða annað iðnnám, flestar giftast þær og sinna fjölskyldu og húsi.

 

Næm og falleg frásögn

Rödd Zöru er sterk og falleg og lesanda þykir vænt um þessa ungu stúlku, sem vex úr grasi fyrir augum hans. Vinasamböndum hennar eru gerð góð skil, sem og flóknu sambandi hennar við fjölskylduna sína, guð og kirkjuna og samfélagið í heild, þar sem hallar mikið á konur. Höfundur dettur ekki í að fara að velta sér upp úr hrylling heldur leggur fram beina og sterka frásögn sem er bæði mjög raunsönn en um leið falleg, djúp og tragísk. Zara er þrívíð persóna með sínar langanir og þrár, sinn húmor og sína djöfla að draga, og ég hvet alla til að kynnast henni með því að lesa bókina. Höfundarrödd bókar er beinskeytt en falleg, einfaldleikinn afhjúpar alls kyns dulda fegurð í heimi Zöru. Lýsingar á landslagi og staðháttum eru virkilega góðar og leiða lesandann inn í heim Zöru og fólksins hennar. 

 

Femínismi

Eitt af því sem er Zöru hvað mestur fjötur um fót er að vera kona vegna bágrar samfélagsstöðu þeirra. Ég vil ekki láta of mikið uppi um lífshlaup hennar, en ljóst er að væri hún drengur hefði allt farið á annan veg. Höfundur lætur hana eiga vin sem er drengur sem elst upp í fátækari fjölskyldu en hennar, og það er áhugavert fyrir lesandann að sjá möguleikana sem honum bjóðast en Zöru ekki. Þá er fróðleik um Tansaníu vel laumað inn í textann án þess að lesanda líði eins og verið sé að mata sig, en lærir samt sem áður heilmikið um samfélagsgerðina í þorpi Zöru og í nágrenni hennar. Lesandinn lærir meðal annars um húsbyggingar, matseld og þrif, dagleg störf og margt fleira fróðlegt.

 

Til hamingju Anna Elísabet

Eitt af því allra markverðasta við þessa bók er að þarna er íslenskur höfundur að skrifa um afríska konu og gerir það á fallegan, næman og glæsilegan hátt. Höfundur leggst ekki í staðalímyndir, dýrgervingu eða exótisma á neinn hátt, og hún setur ekki inn neinar hvítar persónur í bókina til að bjarga deginum, eins og hefur verið ósköp algengt í sögum um Afríku sem skrifaðar eru af Evrópubúum. Vel sést að höfundur hefur búið í landinu sem hann skrifar um og kynnst fólkinu þar, siðum þeirra og menningu, og að hún leggur allt sitt í sölurnar til að ljá rödd þeim sem sjaldan fá að láta sína heyrast. Til hamingju Anna Elísabet með yndislega bók sem ég vona að rati í sem flesta jólapakka þetta árið.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...