Allt sem við hefðum getað orðið

Stjörnurnar yfir Eyjafirði er ný bók eftir Ásu Marin sem hefur undanfarin ár haslað sér völl sem einn helsti ástarsögurithöfundur landsins. Á síðasta ári sendi hún frá sér ljúfu jólasöguna Hittu mig í Hellisgerði og fetar svipaða slóð í ár með bók sem ætti að ylja lesendum yfir aðventuna.

Bókin fjallar um Valeríu sem er týnd í lífinu. Hún er 27 ára, býr enn í foreldrahúsum, flosnaði upp úr viðskitpafræðinámi, er einhleyp og vinnur við að gera brauðtertur án þess að hafa sérstakan áhuga fyrir því. Dag einn ákveður hún að nóg sé komið og sækir um vinnu við samfélagsmiðla fyrir Jólagarðinn í Eyjafirði. Vinnunni fylgir íbúð og því slær hún tvær flugur í einu höggi, flytur loks að heiman og fær nýtt tækifæri!

Frá borgardjammi í sveitatjútt 

Vegferð Valeríu er ekki ósvipuð og annarra kvenna í rómans bókum, til dæmis er algengt stef í bókum Jenny Colgan að ungar konur sem búi í borg flytji á lítinn, afskekktan stað og finni sig þar. Hafnarfjarðarmærinn Valería segir skilið við vinkonur sínar og borgardjammið í Reykjavík að hausti til að taka við tímabundinni stöðu á Jólagarðinnum fram að áramótum. Henni finnst vinkonurnar hafa lítinn tíma fyrir sig og upplifir að hún sé að dragast aftur úr, þær hafa lokið námi, sumar komnar í alvarleg sambönd og eru að eltast við drauma sína. Valería hefur ekki verið í langtímasambandi síðan þau Atli hættu saman nokkrum árum áður og það bætir gráu ofan á svart að hann skuli eiga von á barni með Svönu, stelpunni sem hann hætti með Valeríu fyrir. Sjálfstraust Valeríu er lítið í upphafi bókar en hún sýnir um leið og hún mætir norður og er boðið í réttir að það er töggur í henni. 

Valería blómstrar í starfi sínu fyrir Jólagarðinn, bæði í að búa til efni en einnig við viðburðaskipulagningu. Ekki líður á löngu fyrr en hún stofnar hliðarverkefnið Einstök og fer að skipuleggja viðburði fyrir fólk í makaleit og í gegnum það ferli bankar ástinn upp á hjá henni sjálfri.

Rennur vel 

Um er að ræða strangheiðarlegan rómans sem rennur vel og líkt og fyrri jólabók Ásu Marinar er dásamlegt að njóta hennar með heitu súkkulaði og smákökum. Bókin er skemmtileg og grípandi og þó að hún fylgi formúlu ástarsagna hefur lesandinn gaman af því að fylgja eftir Valeríu á vegferð hennar fyrir norðan. Sögusviðið er sérstaklega skemmtilegt og koma margir áfangastaðir Norðurlands fyrir í bókinni. Það er auðvelt að vera með Valeríu í liði, hún er trúverðug ung kona sem þarf bara að finna sína fjöl í lífinu. Það einkennir persónurnar í bókinni að þær eru upp til hópa mjög viðkunnanlegar. Valería vinnur fyrir Snjólaugu (söguhetjuna úr Hittu mig í Hellisgerði) og hvetur hún hana til að taka tækifærinu fyrir norðan. Þar fer Valería að vinna fyrir Ölfu og Örn sem eru mjög sveigjanlegir og hvetjandi yfirmenn og leigir hún hjá Evu sem gengur henni í móðurstað nánast frá degi eitt. Lísa besta vinkona Valeríu reynist henni einnig vel en er óhrædd við að skiptast á skoðunum við hana og vera ekki alltaf sammála henni og er samband þeirra að því leyti afar trúverðugt. Hafþór ástmaður bókarinnar er líklega of góður til að vera sannur, fjallmyndarlegur, veit hvað hann vill og ofboðslega góður gaur. En ég leyfi því alveg að slæda enda hverfast góðar rómantískar sögur einmitt um það. Hugmyndir Valeríu af viðburðum fyrir stefnumótaþjónustu eru svo skemmtilegar að ég hugsa að einhver á Norðurlandi hljóti að stela þeim og stofna sitt eigið fyrirtæki!

Kósý lestur 

Heilt yfir er Stjörnurnar yfir Eyjafirði ljúf og kósý bók sem aðdáendur Ásu Marinar munu svo sannarlega njóta vel. Eina sem stuðaði mig við bókina voru villur á nokkrum stöðum sem hefði átt að grípa við prófarkalestur, svo sem vitlaust nafn eða vitleysa í tíma sem liðinn var, þær kipptu mér aðeins út úr sögunni við lesturinn. Það breytir því ekki að um er að ræða bók sem man vill helst lesa í einni setu með kyngjandi snjó fyrir utan.

 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...