Beth O’Leary er fyrir löngu búin að stimpla sig inn í heim rómantískra skáldsagna sem sést mögulega best á að fyrsta bókin hennar, Meðleigjandinn (e. The Flatshare) hefur verið gerð að samnefndum sjónvarpsþáttum sem komu út árið 2022. Forlagið gaf Meðleigjandann út árið 2019 og bókina Vistaskipti (e. The Switch) árið 2024 og nú kemur þriðja bók Beth út á íslensku og heitir Ást í óskilum (e. The Wake Up Call). Með útgáfu á Ást í óskilum bætir Forlagið enn einni bókinni við í flokk jólakósýrómansbóka (já þetta er orð sem ég hef ákveðið að eigi að vera til) sem koma út þessi jólin og því ber að fagna! Og ég segi það strax hreint út að þetta er með betri jólarómanskósýbókum sem ég hef lesið.
Jólin nálgast á gamla, fallega heilsuhótelinu Skógarprýði. Izzy og Lucas starfa þar saman í gestamóttökunni og eru í óða önn við að skreyta hótelið fyrir jólin þegar óvæntir hlutir gerast sem gera það að verkum að hótelið rambar á barmi gjaldþrots. Starfsfólk hótelsins ákveður þá að gera allt sem þau geta til að forða hótelinu frá lokun og eitt af þeim verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur er að selja alla muni sem safnast hafa upp í óskilamunum hótelsins og aldrei sóttir. Á meðal þeirra muna eru fimm verðmætir hringar og þegar Izzy finnur eiganda eins þeirra sem greiðir hótelinu vegleg fundarlaun hefst kapphlaup á milli hennar og Lucasar um að finna eigendur hinna hringanna. Keppnin verður æsispennandi því jú, eins og í mörgum rómansbókum þá þola þessar tvær söguhetjur ekki hvort annað og hvað þýðir það annað en að einhver verður skotinn í einhverjum? Það er líklega gefið upp ef lesið er aftan á kápu bókarinnar að ástin muni spila inn í (fyrir utan að þetta er rómansbók) því þar segir að Izzy geti ekki gleymt niðurlægingunni sem hún upplifði eftir að hún tjáði Lucasi ást sína en hann hafnaði henni á illgjarnan hátt og sneri sér að vinkonu hennar. Lucas er svo aftur á móti ekki aðdáandi Izzy og skilur ekki hvernig öðrum geti fundist hún æðisleg.
Ekki sykruð klisja
Beth er ein af uppáhalds rithöfundum undirritaðrar þegar kemur að rómantískum skáldsögum. Það viðurkennist hér með og það er einfaldlega því hún skrifar rómanssögur sem eru hlýjar og skemmtilegar án þess að detta algjörlega í sykraðar klisjur. Hún notast vissulega við góð og gamalreynd þemu eins og “óvinir verða að elskendum” (e. enemies to lovers) en hún gerir það án þess að maður fái kjánahroll við lesturinn. Undir léttu yfirborði þessarar bókar tekst hún á við einmanaleika, sorg og efasemdir, þessar tilfinningar sem við öll könnumst við en segjum ekki alltaf upphátt. Hún blandar þessu svo saman við húmor og smá spennu ásamt dass af “gott í hjartað” sem heldur lesandanum við lesturinn það lengi að bókin er allt í einu búin.
Það er algjörlega ómissandi að eiga inni nokkrar rómansbækur sem gerast um jól til að lesa á aðventunni líkt og það er ómissandi fyrir suma að lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson á aðventunni eða detta í Netflix rómansmyndirnar nú eða að horfa á Die Hard sem sumir vilja meina að sé jólamynd. En leggjum jólamyndirnar til hliðar og Aðventu eftir Gunnar (mæli með henni samt, frábær bók). Ást í óskilum er klárlega bók sem hentar vel til þess að lesa á aðventunni. Hún er kósý, rómantísk og fullkomin fyrir þá sem vilja hressa sálina þegar mykrið leggst fyrr yfir okkur á þessum árstíma. Ég er svo að sjálfsögðu að fara að mæla með lestri undir teppi, með bolla af heitu kakó eða kaffi og með opnum huga fyrir því að jafnvel hinn kaldasti, dimmi vetur getur fær okkur óvæntar vonir og hamingju.






