Þegar ég last síðustu setninguna í Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant hríslaðist um mig hlýja, von og viðkvæmni og það tók nokkrar atrennur í að kyngja kekkinum sem hafði myndast í hálsinum. Það var erfitt að byrja á næstu bók, því ég vildi dvelja lengur hjá Eleanor og Raymond. Eleanor er yndisleg persóna. Stórfurðuleg og indæl með gildi sem fáir samferðamenn hennar leggja nokkurn skilning í. Það er augljóst strax í fyrsta kafla bókarinnar hve hrikalega einmana Eleanor er. Hún er eins og gapandi sár sem vætlar úr. En það er sko allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant. Hún heldur sömu rútínu og hún hefur haldið í mörg ár. Vinna, lítil samskipti við samstarfsfólk, Tesco pizza á föstudögum með heilli hvítvínsflösku, tvær vodkaflöskur yfir helgina og svo byrjar sama hringrás á mánudegi. Það er ekki fyrr en Raymond, subbulegur tölvugaur í fyrirtækinu, kemur inn í líf hennar og umturnar öllu.

Eleanor og Raymond verða vitni að því þegar eldri maður fellur við úti á götu og saman aðstoða þau manninn á sjúkrahús. Þá hefst atburðarás þar sem Eleanor gerir sér grein fyrir því að líklega hafi hún misst af einhverju. Einhverri fyllingu í lífinu.

Vísbendingar og getið í eyðurnar

Geil Honeyman, höfundi bókarinnar, tekst á listilegan hátt að halda lesandanum við efnið allan tímann. Hún náði að tjá svo djúpa einsemd að mig verkjaði í hjartað, en á sama tíma geislaði af síðunum von og húmor. Eleanor kemur manni á óvart þegar hún stekkur á hvert tækifærið á eftir öðru til að breyta lífi sínu, ekki síst vegna þess að hún er loksins búin að finna frambærilegann mann sem hún sér framtíðina fyrir sér með í hyllingum. Hægt og rólega fáum við betri mynd af lífi Eleanor, vísbendingar sem lesanda er svo gert að púsla saman sjálfum og geta í eyðurnar.

Þegar líður að lokum bókarinnar er Eleanor komin á annan stað en hún byrjaði á, eftir mikla rússíbanareið. Allan tímann veltir lesandinn fyrir sér hvort hún sé kannski eitthvað skrýtin, treg eða einhverf. Eða hvort einmanaleikinn og einsemdin hafi einfaldlega bara skilið hana eftir skaddaða á sálinni.

Mér fannst bókin einfaldlega dásamleg. Eleanor er forvitnileg persóna og Honeyman mjatlar upplýsingum um líf hennar hægt og rólega út, þannig að maður vill alltaf vita meira. Inn á milli einsemdarinnar eru svo hrikalega fyndnir kaflar, því húmorinn er aldrei langt undan. Eleanor er virkilega fyndin. En það er ekki síður þörf á því að ræða um einmanaleikann. Einmanaleiki er ekkert grín. Þeir sem áttu erfitt félagslega í skóla eiga kannski ekki gott tenglsanet þegar þeir koma á fullorðinsár. Og það er erfitt að kynnast fólki á fullorðinsárum, þegar asi fjölskyldulífs, ferðalaga og lífsins í heild trufla frá því að kynnast fólki.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...