Metnaðarfull marmelaði-mylla

2. desember 2025

Tekið er á móti áhorfendum með glæsilegu sviði sem er baðað rauðu ljósi. Moulin Rouge uppsetningin í Borgarleikhúsinu er með rentu sannkölluð stórsýning. Öllu er tjaldað til. Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir uppsetningunni sem er fengin að láni frá Broadway og ameríska leikskáldinu John Logan. Þessi uppsetning sem um ræðir byggir á kvikmynd Baz Luhrman frá árinu 2001 sem hefur fengið ákveðinn költ-status innan kvikmyndaheimsins. Sagan hverfist um hinn unga Christian sem flytur til Parísar til að finna ástina. Hann kynnist hinni heillandi dansmær, Satine, sem vinnur í Rauðu myllunni í Montmartre hverfinu og þau fella hugi saman. En ást þeirra er forboðin, í það minnsta ef að Satine ætlar sér að bjarga Rauðu myllunni frá glötun. En til þess þarf hún að þykjast elska hertoga sem hlutgerir konur.

 

Skothelt leikaraval

 Hildur Vala fer með hlutverk Satine en hún var einmitt að kveðja mikið burðarhlutverk í Þjóðleikhúsinu þar sem hún skartaði síðri ljósri fléttu hverja helgi. Hún hefur nú skipt út ljósum lokkunum fyrir glansandi koparrauða. Mikael Kaaber túlkar Christian, Valur Freyr er hertoginn og Halldór Gylfason er eigandi myllunnar, hann Zidler. Leikaravalið er að mínu mati nánast fullkomnun og finnst mér þau öll hafa skapað mjög heilsteyptar og trúverðugar persónur. Það gerðu þau öll með því að taka eitthvað bæði frá upprunalegu kvikmyndinni og persónusköpuninni þar en bættu auk þess ofan á einhverju aukalagi sem fer persónunum afar vel.

Mikael Kaaber er viðkvæmur í hlutverki Christian, mjúkur og einlægur og áhorfendur geta ekki annað en hrifist með og fundið til með honum. Það verður fljótt skýrt að þessi Christian í túlkun Mikaels sé  frekar ungur, líklega eitthvað um tvítugsaldurinn, og að hann sé að upplifa ástina og ferðalög í fyrsta skiptið. Þá er ég ekki að tala endilega um unglegt útlit Mikaels heldur fremur túlkun hans. Hildur Vala sem Satine gefur af sér góðan þokka og útgeislun og raddir þeirra tveggja í fallegum ástardúettum tvinnast afar vel saman. Það er mikið á þau lagt og má helst nefna hvernig Mikael fer hratt úr einu orkustigi yfir í annað, þarf að syngja mikið og dansa með. Með Hildi Völu er það auðvitað til sérstaks hróss að ná að tengjast þremur eða jafnvel fjórum persónum verksins mjög innilega á svona stuttum tíma. Halldór Gylfason í hlutverki Zidler er eins áreynslulaus og getur orðið í leikhúsi og ég get eiginlega ekki hugsað mér neinn annan í hlutverki hertogans heldur en Val Frey en hann nær einhvernveginn þessari lúmsku illsku sem samt er svo óþægileg og banal.

Björn Stefánsson og Haraldur Ari Stefánsson eru þarna í hlutverki Toulouse og Santiago, en þeir eru blóðheitir listamenn og vingast við Christian. Íris Tara Flygenring er Nini, helsti keppinautur Satine en á sama tíma vinkona. Augljóst er að það  hefur verið passað vel að setja algjöra sérfræðinga á öll svið í þessum söngleik en sérstakur sönghópur sem samanstendur af Margréti Eir, Esther Talíu, Pétri Erni og fyrrnefndri Írisi Tönju koma reglulega inn í ákveðin sönglög til að styrkja sönginn enn fremur og auka kraftinn. Ég verð að segja að það hefði jafnvel mátt nota þann sönghóp ennþá meira og sérstaklega hefði ég viljað heyra meira frá Pétri Erni sem kom á óvart með ótrúlega kraftmikilli röddu.

Mikið, litríkt, stórt

Í svona stórri söngleikjasýningu eru auðvitað margir þættir mjög mikilvægir en þar má einnig nefna, fyrir utan sönginn sjálfan, búninga og dansara. Dansarar stóðu sig vel og fannst mér dansrútínan almennt mjög góð og oft og tíðum sérlega áhugaverð. Þá fannst mér sérstaklega notkun á borðum góð og atriði þar sem Satine er klædd í gráan kjól til að innlima hana inn í samfélag heldri borgara var alveg hreint ótrúlega vel lukkað. Ég var að sama skapi hrifin af heildarbrag búningana, sem voru eins og gefur að skilja mjög stórir, miklir og litríkir en viðurkenni að ég saup hveljur við rauð-bleika kjólinn hennar Satine sem birtist eftir hlé og furða mig á hvað kom til eftir fallega búninga framan af.

 

Hópurinn frábær en vankantar á uppsetningu

Í raun áður en ég held áfram með fleira sem mér þótti gagnrýnisvert að þá vil ég segja að öll umgjörð, leikur, söngur og dans er í algjörum háklassa í Moulin Rouge Borgarleikhússins.  Ég held að aðal gagnrýni mín snúi að uppsetningunni sjálfri, sem eins og áður sagði er fenginn frá bandaríska Broadway. Ég til dæmis spyr mig af hverju svona mikið er gert út úr sambandi Satine og Toulouse, en þarna er búin til aukasaga sem gerir það að verkum að upprunalega ástarþríhyrningunum fjölgar um einn og að mínu mati er það heldur ruglingslegt og ónauðsynlegt. Það dregur frá ástinni milli Christian og Satine og rýrir hana ögn sem er ekki gott í þessari tilteknu sögu sem hefur frá upphafi verið fremur fallvölt og ótrúanleg. Ég hefði viljað sjá meiri stoð sett í þeirra samband en í túlkun Mikaels og Hildar hefði það alveg verið mjög mögulegt. Ég til dæmis trúði því meira að Christian elskaði Satine heldur en að Satine elskaði virkilega Christian. En það er ekki á ábyrgð aðalleikarana heldur fremur á handritinu sjálfu. Ég hefði til dæmis frekar viljað sjá eitthvað í þá átt að Toulouse sæi Satine sem systurina sem hann átti aldrei og sem hann vilji vernda.

 

Ný lög falla misvel að

Einnig átti ég örlítið erfitt með sumt í lagavalinu. Uppsetningin hermir auðvitað eftir kvikmynd Luhrmann og tekur klassísk popplög og púslar þeim inn í söguna textalega og tónlistarlega séð. Þar  var samsuða ýmissa laga sem oft erfitt er að henda reiður á hver eru því þau eru svo fínlega samstillt. Ég hinsvegar átti í erfiðleikum með sumar viðbæturnar í þessari uppsetningu og má ég til með að nefna atriðið þar sem lagið Chandelier kemur fyrir eða Ljósakróna/ljóskóróna í íslenskri þýðingu. Að mínu mati var það ekki lag sem passaði vel inn í aðstæður og kom nánast eins og skrattinn út úr sauðaleggnum. Líklega þótti mér samsuðan ekki alltaf heppnast nógu vel, í raun ætti samsuðan og lagavalið að vera þannig að lögin nái að renna inn í leikritið án þess að taka athyglina frá sögunni. Það voru allavega tvö augnablik þar sem mér fannst það ekki heppnast alveg nógu vel og eitt þeirra var svo sannarlega Chandelier. Ég spyr mig í því samhengi hvort að mögulega hafi verið valin popplög sem eru of nálægt okkur í tíma sem viðbót fyrir þessa uppsetningu.  Í mynd Luhrman voru til að mynda mestmegnis lög frá 1960 og 1970, eða lög sem komu um þrjátíu árum áður en myndin kemur út. Hinsvegar í þessari leikgerð koma fyrir lög sem eru meðal annars frá árunum 2010 og 2014, eða einungis um tíu ára gömlum. En svo var reyndar oft munur á, til dæmis fannst mér Raise your Glass sem er frá 2010 falla betur að heldur en Firework sem kom út á sama herrans ári. Svo kannski við nánari umhugsun er það ekki tímabil laganna sem er áhrifavaldur. Mér þótti til dæmis lag Adele Rolling in the Deep passa einnig vel inn en það er samsoðið við lag Barkley, Crazy. Mögulega var gallinn á Chandelier og Firework sá að þar var ekki búið að steypa þeim saman við önnur lög, en ég má hrósa happi við að þurfa allavega ekki að hlusta á söng um 4. júlí í leikriti sem gerist í París í íslensku útgáfunni. Það þakka ég auðvitað Braga Valdimar Skúlasyni sem þýddi textana og það nokkuð lipurlega.

 

Einvalalið, stórskotalið

Þetta er auðvitað samvinnuverkefni og sjaldan hafa jafn margir listrænir stjórnendur verið taldir upp í sýningaskrá. Þetta er auk þess að vera uppsetning Borgarleikhússins einnig framleiðsla Nordiska Production. Það er því mikil lagt til og um leið og gengið er inn sjá áhorfendur það glögglega. Vert er að nefna hér tónlistarstjórn Jóns Ólafssonar. Það er augljóst að einvalalið er hér á ferð.

Ljósahönnun Pálma Jónssonar auk leikmyndar Takis frá Nordiska spila einnnig mjög stórt hlutverk. Ég kann alltaf að meta það þegar lagt er upp úr því að leikhúsið umlyki áhorfendur og það er svo sannarlega raunin hér. Ég þreytist ekki á að nefna einnig þetta tiltekna atriði þegar Satine er sveipuð gráu en ljósahönnunin í því atriði var ein sú fallegasta sem ég hef séð. Í samspili við dansrútínu, búninga og innlifun leikara var það líklega atriðið sem greip mig hvað mest fyrir utan dúettana milli Mikales og Hildar Völu sem voru alltaf unun að hlusta og horfa á.

 

Grátum, svo er partý

Eitt annað sem mig langar að nefna er lokaatriðið. Ég hefði viljað sjá leikritið enda með þessum fingrasmelli. Það var mjög sterkur útgangspunktur. Ég skil samt að áhorfendur þyrstir í algjöra veislu í lokin, einhverja sprengju. En tárin fengu þá í staðinn ekki að spretta. Í raun leggur Moulin Rouge meira upp úr skemmtanagildinu heldur en plottinu sjálfu, en það hefði að mínu mati verið sterkari leikur að ná að slíta þessa hádramatísku lokasenu frá uppklappinu alveg gjörsamlega. Ég er samt alltaf til í partý, og jú þvílíkt partý sem það var.

 

Megindrættirnir eru þessi: farið og sjáið Moulin Rouge. Þetta er ótrúleg veisla og tilþrifamikil skemmtun. Leikararnir fá allir fjaðurskúf í hattinn frá mér og það eru bersýnilega miklir hæfileikar sem blandast þarna saman. Það er enginn einn sem ber af sérstaklega, en ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þá væri það metnaðurinn. Metnaðurinn ber af.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...