Ósmann er söguleg skáldsaga sem fjallar um raunverulegar persónur, ferjumanninn Jón Magnússon Ósmann og líf hans og störf við ósa Héraðsvatna í Skagafirði á síðari hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Engu að síður er upphaf hennar ekki ólíkt spennusögu. Höfundur bókarinnar, Joachim B. Schmidt, er enda þekktur sem höfundur bókanna um Kalmann, sjálfskipaðs lögreglustjóra sem leysir morðgátur á Raufarhöfn (samkvæmt leit á netinu, ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki enn lesið þær). Hver er nakta konan sem skolar upp á ströndina við ferjukofa Ósmanns í upphafi bókar? Og hver er sögumaðurinn sem heimsækir Ósmann með reglulegu millibili á flakki sínu um landið? Úrlausn bókarinnar og frásagnaraðferð er hins vegar ekki sú sama og hún myndi vera í spennusögu. Bókin um Ósmann er í senn aldarfarslýsing, náttúrulýsing og sorgarlýsing í knöppum og fallegum texta þar sem er ákaflega gott að dvelja. Bókin er skrifuð á þýsku og þýdd á íslensku af Bjarna Jónssyni og hefur þýðingin hlotið tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna. Textinn flæðir vel og lipurlega og kemst áreynslulaust frá því að lýsa samfélagi sem er öllum sínum lesendum framandi, sama hvort þeir eru þýskumælandi eða íslenskumælandi, á honum er aldrei neinn útskýringabragur.
Náttúrulýsingar, svipleg dauðsföll og afturgöngur
Bókin er ekki löng og byggist á stuttum köflum sem merktir eru ári í lífi Ósmanns og hefjast þeir allir á tilvitnun í samtímaannál á veðurfari ársins. Þessum köflum er ekki raðað í tímaröð, þó viss söguleg framvinda í lífi Ósmanns og samfélagsins sem hann lifir í sé rekjanleg í bókinni. Sá Ósmann sem Joachim skapar í þessu verki er heillandi maður, hlýr og vandaður, án þess að persóna hans sé hafin upp til skýjanna. Samband hans við náttúruna er stór hluti af því sem ljær bókinni aðdráttarafl sitt en það gera líka allar þær fjölbreyttu aukapersónur sem höfundurinn fléttar inn í frásögnina. Dauðinn er alltaf nálægur persónum bókarinnar, ekki síst dauði af völdum drukknunar, og því kalla ég bókina sorgarlýsingu hér að ofan. Inn í þetta þema fléttast afturgöngur og þjóðsögur og frásögnin heldur góðu jafnvægi milli sorgar, óhugnaðar og kímni.
Þó frásögnin sé ekki í línulegri tímaröð var samt ekki laust við að ég fylltist óþolinmæði og einhverjum pirringi um miðbik hennar. Ég á erfitt með að festa fingur á nákvæmlega hvenær það var, svona eftir á að hyggja, kannski í köflunum um uppbyggingu leikfélags á Sauðárkróki. Þá fór ég að hafa áhyggjur af því hvort ég væri kannski að lesa eitthvert svona framfarablæti eða jafnvel stefnulausa rómantíska aldarfarslýsingu, fyrir þýskumælandi Íslandsfanatíkera eða þjóðrembulegt fólk á Íslandi. (Það verður að hafa í huga að framfara- og sjálfstæðisbaráttusaga íslensks samfélags á seinni hluta 19. aldar er eitthvað sem ég fékk rækilegan ofskammt af í menntaskóla. Í kjölfarið er það nokkurn veginn hið eina svið sagnfræðinnar sem ég hef engan áhuga á. Fyrir utan kannski landnám Íslands eins og því er lýst í Landnámu, sem ég fékk ofskammt af í grunnskóla). En hvort sem þessi skyndilegi pirringur minn á bókinni átti við rök að styðjast eða ekki, þá gufaði hann alveg upp eftir örfáa kafla. Ég er sérstaklega hrifin af síðustu köflum bókarinnar, þar liggja allir þræðir saman og höfundi tekst stórvel að láta bæði sjónarhorn sögumannsins og kaflaskiptinguna þvert á rás tímans ganga upp.
Kynlíf á 19. öld og nördalegar hugleiðingar sagnfræðings
Ég las bókina upphaflega af því að ég var fengin til þess að leiða spjall við höfundinn á bókakvöldi Sagnfræðingafélags Íslands, en datt svo í flensu og missti af því. Það var þó eins gott að ég tók verkefnið að mér því annars hefði ég ólíklega lesið þessa bók. Ég er nefnilega oft hikandi við að taka upp sögulegar skáldsögur af því að ekkert fer eins mikið í taugarnar á mér og þegar slíkar bækur falla í þá gryfju að sviðsetja fortíðina um of, en því er ekki fyrir að fara hér. Höfundurinn gengur áreynslulaust um efnisveruleika aldamótanna 1900 og náttúrunnar í Skagafirði. (Í það minnsta nógu áreynslulaust fyrir mig, sem er auðvitað hvorki fædd á 19. öld né í Skagafirði). Hins vegar sé ég eftir því að hafa misst af spjallinu við Joachim þar sem ég hafði hugsað mér að ræða í þaula við hann kynferðisleg tabú í íslensku samfélagi undir lok 19. aldar, ekki af því að ég sé skrítnari en fólk er flest, heldur af því að þau eru hluti þessarar sögu. Ósmann átti börn með stjúpmæðgum og á mínu tímabili, 18. öldinni, hefði hann annað hvort misst höfuðið eða dáið í ævilangri þrælkunarvinnu í Danmörku fyrir þá sök. Í dag þætti þetta í það minnsta mjög vandræðalegt en engum sögum fer af eftirmálum þessa í bókinni, svo minn innri sagnfræðingur hefði viljað sjá meira um þetta í bókinni, þó skáldsagan standi fyrir sínu eins og hún er. Einnig fannst mér höfundurinn gera áhugaverðar tilraunir með hinseginleika í sögunni, sumt gengur upp á meðan mér fannst annað anakrónískara, en ég get ekki farið nánar út í þá sálma hér án þess að spilla fyrir söguþræðinum. Heilt á litið eiga kynlífslýsingar bókarinnar tvímælalaust sinn þátt í því að frásögnin af lífi Ósmanns heldur sér á jörðinni og verður ekki mærðarleg eða uppskúfuð, þær voru skrifaðar af sömu hlýju og aðrir hlutar bókarinnar. (Ég dáðist sérstaklega að þeirri ljóðrænu lausn að beina athyglinni að fallegri uglu sem svífur hjá þegar Ósmann stundar kynlíf utandyra).
Ég gæti sagt að Ósmann sé ljóðræn bók og falleg og ég gæti sagt að hún sé fróðleg og aðgengileg. Fyrst og fremst myndi ég þó segja að henni takist að gera mikið með fáum orðum, það er auðvelt að lesa hana og hún skilur mikið eftir sig.







