Þvílík tilfinningarússíbanareið! Fyrir þá sem lesa ekki hugsanir né í tilfinningalegar árur þá útskýri ég nánar. Ég fékk sem sagt að sofa út um daginn, sem er guðs gjöf þegar maður á 15 mánaða gamalt barn. Ég gerði hins vegar þau regin mistök að klára að hlusta á Sögu tveggja borga eftir Karl nokkurn Dickens, einnig þekktur sem Charles.
Ég segi það bara hreint út; ég gat ekki sofnað af því að ég bara VARÐ að vita hvað myndi gerast næst. Ég fórnaði sem sagt svefninum (Guð hjálpi mér og geðheilsunni) fyrir Dickens. Ég var svo gjörsamlega heltekin að það komst ekkert annað að en örlög Herra Darnay, Mannette læknis og dóttur hans Lucie Manette og ólukkumannsins Sydney Carton.
Sem sagt: BÓKIN ER STÓRKOSTLEG. ÞVÍLÍKT VERK!
Anda inn, anda út
Ég ætla aðeins að reyna að slaka á hérna og segja lítillega frá söguþræðinum. Þetta er stórt og mikið verk sem segir sögu fólks sem tengjast tveimur borgum á 18. öld; London og París. Eins og margir vita þá var 18. öldin öld ólgu í Evrópu.
Innskot: 18. öldin er klárlega uppáhalds öldin mín en eins og þeir sem þekkja mig vita, þá myndi ég gefa margt til að búa sem hefðarmey í Versölum; þar sem kampavínið og hindberjakökurnar voru aldrei langt undan auk yfirgengilegra hárkolla og ilmvatnsmengunar. Hins vegar yrði ég að hafa meðferðis pensilín. Eðlilega.
Byltingin sem étur börnin sín
Franska byltingin fæddist í huga fátækrar og svangrar alþýðunnar sem endaði með því að fella konungsveldið og höggva mann og annan á henni fallöxi, sem þeir elskuðu svo mjög en fallöxin er í sjálfu sér sjálfstæð persóna í bókinni. Dickens skrifar þessa sögu tæplega hundrað árum eftir byltingu þegar enn eru ólgutímar og lá við að önnur bylting yrði í Evrópu. Þetta verk segir sögu um byltingu sem étur börnin sín og það óréttlæti sem lifir þegar einum vegnar vel á meðan öðrum er fórnað fyrir fleiri hárkollur, fallegri marmara og stærri kjóla.
Sagan byrjar í réttarsal þar sem Hr. Darnay er sakaður um að vera landráðamaður (sem sagt byrjar svakalega). Hann fellur fyrir ungri konu í salnum sem situr þar ásamt öldruðum föður sínum. Sú er Lucie Manette og áttu örlög þeirra eftir að tvinnast saman síðar. Faðir hennar, Hr. Manette er fyrrum fangi Bastillunnar, en hann var fangelsaður fyrir óljósar sakir áður en dóttir hans fæddist. Hún frelsar hann síðar með aðstoð lögfræðingsins Hr. Jarvis (ekki úr Ironman) Lorry. Manette glímir við áfallastreituröskun í kjölfar fangavistarinnar og þykir í raun magnað að fjallað sé af svona mikilli nákvæmni um þann geðsjúkdóm og kvíða sem læknirinn þarf að takast á við alla söguna. Inn í þetta blandast byltingin og flakk um borgirnar tvær.
Annað innskot: Eftir að hafa lesið bókina og kynnst betur þeim hörmungum sem á dundu á þessum tímum þá er ég aðeins að endurhugsa þessa 18. aldar fantasíu mína…. aðeins. Elska samt ennþá krinólín og hárkollur en fallöxin er ekki beint sjarmerandi né heldur sjúkdómar, sviti og hungurmorða samfélag.
Frábær þýðing
Bókin er þýdd af Þórdísi Bachmann sem á hrós skilið; þvílík vinna sem hlýtur að vera að baki þýðingu á verki sem þessu. Dickens er ekki auðmeltanlegur. Hann var nákvæmur og lipur penni sem skrifaði magnaðar persónur og brillíant skúrka. Öllu þessu kemur Þórdís til skila í þýðingu sinni.
Þetta er átakanleg en fallega skrifuð og nákvæm örlagasaga þar sem ástin er aldrei langt undan en segja má að ástin og réttlætiskenndin séu drifkraftur sögunnar. Klisjur eru stundum klisjur af því að þær eru sannar eins er það með tímamótaverkin. Það er ástæða fyrir því að þetta er tímamótaverk; ég hef sjaldan verið jafn ástfangin af verki. Í Guðanna bænum, lesið þessa sögu, þó það sé það síðasta sem þið gerið.
Sem sagt. Tíu stjörnur.