Emma eftir Jane Austen fjallar um hina 21 árs gömlu Emmu Woodhouse sem er vel stæð og almennt áhyggjulaus í lífinu og elskar ekkert meira en að plana ástarsambönd annarra. Hún tekur ástfóstri við hina ungu Harriet Smith og ákveður að aðstoða hana við að verða fágaðri og betur lesin, og hvetur hana áfram í hrifningu hennar á herra Elton. Hljómar söguþráðurinn kunnuglega? Það er líklega þar sem þú, kæri lesandi, hefur séð hina klassísku bíómynd Clueless sem kom út á tíunda áratug síðustu aldar og er líklega vinsælasta kvikmyndaða útfærslan á bókinni. Túlkunin í Clueless á Emmu sýnir að sagan er sígild, eins og flestar bækur sem tilheyra klassískri bókmenntafræðum, og get ég með sanni sagt að Emma er ótrúlega auðlesin fyrir 200 ára gamla bók.
Jane Austen er einn ástælasti rithöfundur Bretlands og þrátt fyrir að hafa látist einungis 41 árs að aldri lét hún eftir sig sex bækur í fullri lengd sem allar hafa náð þeim stalli að flokkast undir klassískar bókmenntir; þær þykja allar tímalausar og eru reglulega endurútgefnar og kvikmyndir, þættir og leikrit unnin upp úr þeim. Emma var síðasta bókin sem Austen lauk við að skrifa á lífsleiðinni og var síðasta bókin sem kom út á æviskeiði hennar. Emma er enn þann dag í dag ein ástsælasta bók Austen og ekki að ástæðulausu. Eins og í mörgum öðrum bókum Austen snýst söguþráðurinn að miklu leyti um ástir, leynileg ástarsambönd og hjónabönd. Margir misskilningar og flækjur eiga sér stað sem hægt er að hafa gaman af og ekki er allt sem sýnist í samskiptum kynjanna.
Ólíkt öðrum söguhetjum í skáldsögum Austen er Emma mjög vel stæð og þarf ekki að finna sér eiginmann til að viðhalda góðum lífsstíl sínum. Í bókinni talar hún mikið um að ætla aldrei að giftast þar sem hún sé svo sátt í núverandi aðstæðum sínum sem húsfrú í Hartfield húsinu, og getur hún þess í stað skemmt sér við að hnýsast í ástarmálum annarra. Emma er stórkostlega skrifuð persóna; maður upplifir alla hennar persónugalla samtímis þess að hrífast af henni og óska þess að allt fari á besta veg fyrir hana.
Clueless til bjargar
Einn helsti galli bókarinnar fyrir nútíma lesanda er að hún er ansi löng og á köflum langdregin. Hún er um 500 blaðsíður í hefðbundinni útgáfu og krefst því dágóðs tíma, auk þess sem mjög margar persónur koma fyrir, líkt og í öðrum Austen bókum. Það að hafa séð Clueless hjálpar hins vegar til við lestur bókarinnar, maður á auðveldara með að skilja framvindu sögunnar og að muna hvaða persónur eru hverjar.
Ég tek undir með Ernu Agnesi að bækurnar hennar Austen eiga það sameiginlegt að vera notaleg en óskaplega hæg lesning þar sem ekkert gerist, nema augngotur og dansleikir. En stundum er það nákvæmlega það sem maður þarf í líf sitt þegar allt er á yfirsnúningi og áreitnin er allsstaðar. Sérstaklega þótti mér gaman að lesa bók frá upphafi nítjándu aldar þar sem ung kona vegna fjárhagsaðstöðu sinnar gat átt opinská og áhugaverð samskipti við vonbiðla sína og oft verið ósammála þeim og staðið með sínum eigin skoðunum. Auk Emmu krydda aðrar persónur upp á söguna og má þar sérstaklega nefna pabba hennar Herra Woodhouse sem er haldinn kómískri hræðslu við allt í heiminum sem getur valdið veikindum eða uppnámi. Eitt fyndnasta atriði í upphafi bókarinnar er þegar hann er að reyna að sannfæra brúðkaupsgesti um að vera nú ekki að borða brúðkaupstertu því það geti bara endað með ósköpum.
Þó að Emma sé ansi hæg í lestri er ansi notalegt að leyfa sér að eyða góðum tíma með þessum persónum og að tileinka sér lífslexíur Austen; til að mynda mikilvægi þess að að blanda sér ekki endalaust í líf annarra, og að vera auðmjúkur.