Hægur og notalegur, rómantískur misskilningur

Hér má sjá söguhetjuna að misskilja hlutina.

Allt í lagi. LOKSINS sest ég niður og skrifa þessa færslu. Enn einu sinni skrifa ég færslu um 19. aldar bókmenntir. Nítjánda öldin er að tæla mig krakkar. Ég sem hélt að ég væri óforbetranlegur 18. aldar konnissör en sei, sei nei. Kom ekki bara Dickens um daginn og töfraði mig svoleiðis hressilega að ég endaði með því að endurnýja kynnin við einn af þeim rithöfundum sem ég hef átt hvað erfiðast með. Tíu árum síðar, settist ég aftur niður og byrjaði að lesa Jane Austen. Að þessu sinni var bókin Northanger Abbey fyrir valinu og Alla malla, ég get svo svarið það ALDREI hefur nokkur rithöfundur komið mér jafn mikið á óvart í lok bókar. Haldið ekki bara að pían hafi fundið ástina og gifst karlinum! ÓTRÚLEGT.

Allt í lagi. Enn og aftur allt í lagi. Ég sé að þið skynjið kaldhæðnina mína hérna. En það er nú bara þannig að það eru fáir rithöfundar sem hafa skrifað jafn mikið um ástina og Jane Austen og ég held hreinlega að aldrei hafi nein bók hennar endað með hjartasári. Maður getur alltaf (held ég, hef ekki lesið allar) treyst því að Austen fýri upp í regnboganum og blómabaðinu, kampavíninu og rjómatertukjólnum.

Böll og Austenískur misskilningur

Northanger Abbey fjallar um Katrínu, Catherine Morland, sem fer ásamt Frú Allen til Bath þar sem hún fer á böll, verður ástfangin (magnað) og kynnist nýjum vinum. Fröken Morland elskar að lesa gotneskar horror sögur ( já þetta er raunverulegt krakkar) og er því með fjörugt ímyndunarafl. Nýr vinskapur leiðir hana síðan alla leið til Northanger Abbey þar sem hún gistir í mánuð (af því að það var lenskan – spurning hvernig þetta færi í fólk í dag sem byrjar að líta á úrið eftir tvo tíma), engist um af ást og er heltekin af ímyndunaraflinu þar sem hún sér annarlegar hvatir, sem engar eru, húsbónda heimilisins speglast hvarvetna. Ætla ekki að spennuspilla meira en við skulum bara segja að bókin endar mjög vel þrátt fyrir smá Austenískan misskilning (var ég að finna upp bókmenntalegt hugtak? – held það) á einum tímapunkti.

Bókin var gefin út eftir dauða Austen en þetta er jafnframt fyrsta bókin sem hún kláraði að skrifa.

Bækurnar hennar Austen eiga það sameiginlegt að vera notaleg en óskaplega hæg lesning þar sem ekkert gerist, nema augngotur og dansleikir. En stundum er það bara nákvæmlega það sem maður þarf í líf sitt þegar allt er á yfirsnúning og áreitnin er allsstaðar; stundum vill maður bara kjaga á ball, fá sér vín og tala um hárskraut og mögulega vonbiðla.

Þetta er klassík og fær því fjórar.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...