Skoski metsöluhöfundurinn Jenny Colgan sló rækilega í gegn með bókunum Litla bakaríið við Strandgötu og Sumar í litla bakaríinu við Strandgötu. Þriðja bókin í bókaflokknum heitir Jól í litla bakaríinu við Strandgötu og hefur hún notið mikilla vinsælda hér á landi og erlendis. Hún kemur út í þýðingu Ingunnar Snædal en Angústúra gaf bókina út árið 2018. Fleiri bækur eftir Jenny Colgan hafa komið út í íslenskri þýðingu og má þar nefna Sumareldhús Flóru en Ströndin endalausa er sjálfstætt framhald hennar.
Líf í friðuðum vita
Aðalsöguhetjan er Polly og hún býr ásamt kærastanum sínum, Huckle, á eyjunni Mount Polbearne. Hún flutti á eyjuna þegar lífið tók óvænta stefnu því fyrirtækið sem hún rak fór á hausinn. Það þarf hugrekki og staðfestu til að láta drauma sína rætast og það hafði Polly svo sannarlega þegar hún hóf nýtt líf á eyjunni. Hún og Huckle búa í friðuðum vita sem hljómar mjög rómantískt en er alveg svakalega óhentugt og strembið. Bókin gerist í Englandi að vetri til og ég hló oft inni í mér þegar aðalpersónurnar bölvuðu kuldanum heima hjá sér á meðan ég vafði teppinu þéttar að mér og hélt áfram að lesa. Ekki má gleyma lundanum Neil, sem leitar skjóls hjá Polly eftir að hafa vængbrotnað, og býr hjá þeim skötuhjúum. Polly er bakari og Huckle selur hunang en það gerir bókina mjög lystaukandi. Sem betur fer var ég að lesa hana í desember þar sem smákökur og konfekt var alltaf skammt undan.
Hugljúf og fyndin saga
Bókin er falleg bæði að innan sem utan og rennur ljúflega áfram. Sögunni vindur hægt fram en bókin er fyndin og uppfull af skrautlegum persónum. Kerensa, vinkona Pollyar, er skemmtilegasta persónan að mínu mati enda leiddist mér aldrei að lesa um hana. Mér finnst það einmitt segja mikið um gæði bókar þegar aukapersónur eru vel úr garði gerðar. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Jenny Colgan og ég skil vel hvers vegna lesendur heillast af bókunum hennar. Sagan er bæði hugljúf og rómantísk en undir niðri er alvarlegur undirtónn þar sem aðalpersónurnar þurfa að takast á við erfiðar áskoranir og ýmis vandamál í lífinu. Ég hafði ekki lesið fyrri bækurnar í seríunni um Strandbakaríið en fannst það ekki koma að sök. Auðvitað mæli ég frekar með því að byrja á byrjuninni en ekki á þriðju og síðustu bókinni. Í þessu tilviki er um sjálfstætt framhald að ræða en ég ætla að sjálfsögðu að lesa fyrri bækurnar. Jól í litla bakaríinu við Strandgötu er tilvalin lesning um jólin og kemur manni í hátíðarskap.