Bækurnar sem ég las ekki

Það er góð og gild regla að dæma ekki bók af kápunni og ég er því tiltölulega sammála. Kápa bókar hefur ekki úrslitavald yfir því hvort bókin er lesin af mér eða ekki, en það hjálpar ef bókin er falleg og lítur út fyrir að höfða til mín. Það skal enginn efast um mátt góðrar hönnunnar. Hins vegar hef ég enga þolinmæði fyrir slæmum prentunum og útgáfum.

Við skulum byrja á því að undirstrika það að ég skil af hverju sumar bækur eru prentaðar á eins ódýran hátt og mögulegt er. Fjölmargar bækur eru prentaðar fyrir stúdenta sem hafa bara einfaldlega ekki efni á því að kaupa safnaraútgáfuna af Gamli maðurinn og hafið. Það er allt í góðu. Ég hef samt ekki þolinmæði fyrir því að glíma við þessar ódýru útgáfur. Ég trúi því að ef sumar skólabókaútgáfur væru örlítið vandaðari og með betra letri þá myndu þær kannski ná að fanga fleiri stúdenta.

Myndavélin er ekki svona óskýr, letrið er óskýrt í Flowers for Algernon.

Ég gerði hávísindalega rannsókn (samt ekki, hún var mjög óvísindaleg) á bókahillunum mínum. Nokkrar bækur hef ég einfaldlega gefist upp á að lesa og ég þjáðst af samviskubiti yfir því í nokkra mánuði. Það passar mér ekki að byrja á einhverju og gefast svo upp. Ég kíkti á þessar bækur. Ein þeirra er Flowers for Algernon; stórkostleg vísindaskáldsaga sem hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga og flokkast sem ein allra besta sinnar tegundar í heiminum.

Þegar ég skoðaði útgáfuna sem ég á tók ég eftir því hvað letrið var hrikalega óskýrt og í raun erfitt lesningar. Þessi misbrestur á bókinni er ekki eitthvað sem ég hefði sett fyrir mig hér áður fyrr, en með fleiri börnum og minni tíma hefur maður ekki þann munað að vera lengi að lesa eina bók í slæmri útgáfu. Ég hætti því að lesa bókina, hafði alltaf sofnað yfir henni í rúminu og hafði enga eirð eða löngun til að lesa hana um miðjan dag. Flowers for Algernon situr því enn ólesin í bókahillunni, þrátt fyrir að vera bók sem mig langar enn að lesa og ég er sannfræð um að hún sé virkilega góð.

Letrið í minni útgáfu af Game of Thrones er smátt og línubil er þétt.

Fyrir um sex árum síðan, þegar Game of Thrones var nýkomið í sjónvarp dreif ég í því að lesa allar bækurnar í lesbretti. Mér finnst gaman að geta verið besserwisser í sófanum með eiginmanninum þegar hann skilur ekki söguþráðinn og ég get slegið um mig með óþrjótandi vitneskju um öll smáatriðin sem þættirnir klipptu út. Honum finnst það sem betur fer skemmtilegt líka. Þegar mig langaði svo að endurglæða minningar mínar fyrir einhverja seríuna var ég komin með allar bækurnar á prenti. Strax á fyrsta kafla fyrstu bókar gafst ég upp og ég skyldi ekki hvers vegna. Ég dái þessar bækur og þessa sögu. Af hverju gat ég ekki lesið þessa bók? Ég var reyndar fljót að finna mér afsökun fyrir þessu andvaraleysi. Letrið var einfaldlega ómögulegt. Það var smátt og línubil var þétt og blaðsíðurnar eins þunnar og í sálmabók.

Síðan ég varð svona dyntótt í vali mínu á bókum hafa nokkrar bækur endað í höndum mínum en verið snarlega skilað aftur í bókahilluna. Má þar nefna The Great Book of Amber sem er safn tíu bóka, settar í eina. Bókin er manndrápsþung og væri vís til að kæfa mig ef ég sofnaði með hana í rúminu. Ég velti fyrir mér hvort að bækur Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvítiHarmur englanna og Hjarta mannsins  hafi selst vel í samansettri útgáfu sem kom út nýlega. Doðranturinn er að vísu nokkuð léttur miðað við þykkt, en samt sem áður mjög óþjáll í meðhöndlun.

Sumar bækur eru með fínu letri og í dásamlegum útgáfum en samt er eitthvað sem truflar mann við lesturinn. Einu sinni var í austri er dæmi um þannig bók. Sagan er frábær, útgáfan er frábær og það tók mig smá tíma að sjá hvað það væri sem truflaði mig við hana. Reyndar er þetta svo smávægilegt að það tekur því varla að nefna það, en spássíurnar eru ójafnar og það truflaði lesturinn stundum.

Þótt ég telji aðeins upp þrjár bækur hér að ofan sem ég hef gefist upp á, þá eru þær mikið fleiri. Mín vísindalega rannsókn nær þó aðeins yfir þessar þrjár. Það skal enginn efast um gildi góðs leturs, vandaðrar prentunar og hönnunnar. Þetta skiptir allt máli þegar bók er valin. Sérstaklega þegar lesandi er búinn að venja sig af slæmum skólabókaútgáfum og farinn að njóta þeirra lystisemda lífsins sem frjáls lestur fagurra bóka er.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...