Mál og menning/Forlagið hefur ráðist í að gefa út stórmerka og undursamlega ritröð, sem hefur vonandi ekki farið framhjá neinum. Þetta eru að sjálfsögðu upprunalegu skáldsögurnar um hina heimsþekktu múmínálfa eftir Tove Janson. Listamaðurinn og rithöfundurinn Tove Janson gerði allskonar útfærslur á hugarheimi sínum um múmínálfana, fyrir utan fyrrnefndar skáldsögur eru líka til teiknimyndasögur og ljóð. Svo bætast við endalausar aðlaganir fyrir börn í formi bóka og teiknimynda, svo það getur reynst erfitt að henda reiður á því hvað er hvað í múmínálfaflórunni. Ofan á allt annað hefur það flækst fyrir fólki hvort ritröðin, sem hér er til umfjöllunar, sé endurútgáfa eða frumþýðing. En í rauninni er þessi útgáfa hvort tveggja. Nú eru komin út tvö bindi og það þriðja er held ég væntanlegt á næsta ári. Í þessari fínu ritröð er hægt að lesa sögurnar í þeirri röð sem Tove Janson skrifaði þær upphaflega. Í hvoru bindi eru þrjár aðskildar skáldsögur, þar af ein sem aldrei hefur birst á íslensku áður. Þetta er mikið þjóðþrifaverk sem kveikir rækilega í mínum innri safnara, og þessi tvö útkomnu bindi sóma sér vel hlið við hlið uppi í hillu hjá mér. Hér má sjá umfjöllun Lestrarklefans um fyrri bókina.

Eini ljóðurinn á þessum fallegu kápum er sá að seinni bindið er illa bundið inn, kápan er of þröng. Ef maður leggur bókina á borð, þá opnast hún örlítið af sjálfu sér. Þetta þykir mér mjög miður, og viljiði bara gjöra svo vel að prenta þriðju bókina almennilega! Þetta var ekki eina bókin frá Forlaginu í ár með þennan útlitsgalla, og miðað við verð á íslenskum bókum þá finnst mér að við lesendur eigum skilið almennilega prentaðar og innbundnar bækur.

Ef til vill rak einhver lesandi augun í það að ég talaði hér að ofan um aðlaganir á múmínálfasögum fyrir börn. Hver er nú þörfin á því, kann einhver að spyrja sig. Eru múmínálfarnir ekki barnabókmenntir? Þetta er eitthvað sem ég sjálf velti töluvert fyrir mér við lesturinn, bæði í ár og í fyrra. Bókin er flokkuð sem barnabók í Bókatíðindum, en ég er alls ekki viss um að þar eigi Múmínálfarnir best heima. Sú staðreynd að flest börn kynnast múmínálfunum í einhvers konar aðlögunum, og hversu margvíslegar þessar aðlaganir eru, er líklega ein sterkasta röksemdin fyrir því að Múmínálfarnir séu ekki barnabækur. Ef einhver kannast við barn innan við 12 ára sem elskar þessar skáldsögur sem hér eru til umfjöllunar, þá endilega leiðréttið mig. Ég sjálf las bækurnar fyrst þegar ég var í menntaskóla og hafði stórgaman af þeim þá, en það þýðir ekki að þetta séu barnabækur. Fyrra bindið

Söguþráðurinn, umhverfið og persónurnar eru bæði litrík og ævintýraleg. Þetta eru bernskar sögur. Einmitt þess vegna henta þær stórkostlega í aðlaganir fyrir börn. En frásagnarmátinn er ekki frásagnarmáti barnabóka, og þess vegna þarf til aðlaganir. Að vísu get ég aldrei endanlega ákveðið mig hvort þetta séu bækur fyrir börn eða fullorðna. Það er eins og bækurnar breytist fyrir augum manns, rétt eins og það er aldrei alveg víst hvort múmínsnáðinn, snorkstelpan og Snúður séu stálpaðir og sjálfstæðir krakkar eða undarlega barnaleg ungmenni. Frásagnarmátinn er hægur og einkennist af lúmskri kímni, sem ég held að höfði töluvert meira til fullorðinna en barna. Tökum sem dæmi eitt atriði úr Minningum múmínpabba sem fékk mig til að hlæja mjög mikið: (Sagan hefst sumsé á því að múmínpabbi fær ógurlega karla-flensu.)

„Þegar múminpabba leið sem verst í hálsinum lét hann múmínmömmu sækja múmínsnáðann, Snúð og Snabba og þeir röðuðu sér í kringum rúmið. Svo hvatti hann þá til að gleyma því aldrei að þeir hefðu átt þess kost í lífinu að kynnast alvöru ævintrýrahetju og bað Snabba að sækja sporvagninn úr sæfrauðinu sem stóð á kommóðunni í dagstofunni. En múmínpabbi var svo rámur að enginn skildi það sem hann sagði.

Þegar þeir höfðu hlúð að honum, huggað hann og vottað honum samúð og gefið honum brjóstsykur og verkjalyf og skemmtiegar bækur fóru þeir aftur út í sólskinið. Múmínpabbi lá eftir og var geðvondur alveg þar til hann sofnaði.“

Fjölskyldulífið í múmíndal er ákaflega hefðbundið, sérstaklega hvað varðar hlutverk kynjanna, en alltaf tekst þessum lúmska frásagnarmáta að snúa einhvern veginn upp á það allt saman. Frásagnaraðferð Tove Janson er sannkallað listaverk, henni tekst að láta umhverfið og tilfinninguna sem fylgir því lifna við í huga lesandans. Fyrir svo utan allar teikningarnar sem prýða sögurnar, sem eru algerlega frábærar (og ekki skrítið að þær seljist í þúsunda tali á hinum víðfrægu múmínbollum. Ef þið viljið kynnast sögunum á bak við bollana, þá er svaranna að leita í þessum bókum). Bækurnar eru hreinn yndislestur sem fær mann í senn til að velta því fyrir sér hvernig eldhúsið manns liti út ef maður sæi það stútfullt af vatni í gegnum holu í loftinu, og allskyns heimspekilegum spurningum um efni eins og einmanaleika og vináttu.

Í þessari bók birtast þrjár sögur: Minningar múmínpabba, Örlaganóttin og Vetrarundur í Múmíndal. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra, en þó má kannski sjá af hverju fyrsta sagan var ekki þýdd á íslensku strax á áttunda áratugnum eins og hinar tvær. Þó ævisagnaformið sé notað þar á stórskemmtilegan hátt dregur það aðeins úr slagkrafti ævintýrisins sem sagt er frá. Sagan er eiginlega áberandi óbarnabókaleg. (Svo getur líka skeð að Ísland áttunda áratugarins hafi ekki verið tilbúið fyrir svona miskunnarlaust grín að ábúðarfullum karlmanni sem skrifar æviminningar sínar með dálítið bjagaða sýn á það hvar miðja alheimsins liggur.) Í einum kafla sögunnar, þar sem múmínpabbi fer í senn í flugferð og kafbát, er síðan eins og ímyndunarafl höfundar fari aðeins of geyst og það verður erfitt að fylgja atburðarásinni eftir.

En bókin/bindið byrjar bæði vel og skemmtilega með Minningum múmínpabba og öðlast svo æðri frásagnarlega fullkomnun með Örlaganóttinni og Vetrarundur í Múmíndal. Allt frá því að ég las Örlaganóttina þegar ég var 17 ára hef ég öðru hvoru fyllst löngun til að standa á sviði, banka í gólfið með staf og æpa: Örlaganóttin! Örlaganóttin! Ævintýri múmínálfanna þegar þeir leiðast út í það að setja á svið grískan harmleik, af lítilli þekkingu og engum skilningi á forminu, eru óborganleg. En aftur, ég veit ekki hversu fyndið þetta væri fyrir níu ára gamlan lesanda. Vetrarundur í Múmíndal er töluvert frábrugðin hinum sögunum tveimur en sagan af því hvernig múmínsnáðinn þarf upp á eigin spýtur að kynnast nýrri árstíð og ókunnugum heimi er ekkert annað en yndisleg.

Sem má svo sem segja um allar sögurnar. Lengi lifi múmínálfarnir!

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...