Í upphafi var orðið og orðið var vageode.
Þetta þarfnast líklega frekari skýringa.
Fyrir nokkrum vikum var ég að vafra á netinu og datt niður á stórkostlegan þráð um vageode kökuna. Í stuttu máli sagt á kakan uppruna sinn að rekja til bakarís sem sérhæfir sig í kökuskreytingum. Kakan umrædda átti að vera skreytt jarðfræðitengdu mynstri, svokölluðu geode mynstri, sem Stjörnufræðivefurinn segir mér að heiti holufylling á íslensku. Ég ætla ekki einu sinni að snerta þann brandara.
Kakan hefði getað verið í hvaða litasamsetningu sem er, en listamaðurinn á bak við kökuskreytinguna var greinilega hrifinn af bleikum. Eitthvað röðuðust litirnir óheppilega saman og niðurstaðan varð… tja… þið getið dregið ykkar eigin ályktanir —>
„Af hverju er ég að lesa semí-sóðalegan pistil um kökuskreytingar á vef sem er tileinkaður bókum?“ gætu einhver ykkar verið að spyrja sig.
Ástæðan er Abby Jimenez, eigandi bakarísins sem færði okkur vageode kökuna. Eftir að bakaríið var búið að hlaða upp forláta mynd af kökunni og internetið var búið að fá tækifæri til að vera internetið, hóf Abby þessi að svara fyrir kökuna af stakri snilld í athugasemdakerfinu. Ég er búin að lesa athugasemdirnar hennar örugglega fjórum sinnum í gegn í heild sinni og ég tárast af hlátri í hvert skipti. Ég fór samstundis inn á Twitter og leitaði eftir henni þar og komst þá að því að Abby þessi er rithöfundur. Það hlaut að vera. Ég var ekki lengi að panta báðar bækurnar hennar og tæta þær í mig, og núna langar mig til að mæla með þeim og henni fyrir áhugasama ástarsögulesendur og almenna húmorista.
The Friend Zone
Fyrri bók Abbyar, The Friend Zone, var í raun skrifuð á meðan hún var að leita að útgefanda fyrir seinni bók sína, The Happy Ever After Playlist. Í stuttu máli sagt þá tengjast bækurnar tvær þannig að aðalsöguhetjur bókanna eru bestu vinkonur, og leika hálfgert gestahlutverk í bókum hvor annarar. The Friend Zone var skrifuð með það fyrir augum að setja upp forsöguna fyrir síðari bókina. Þar sem hún gerist fyrr á tímaásnum var hún gefin út fyrr.
The Friend Zone fjallar um hina grjóthörðu Kristen, sem rekur sitt eigið fyrirtæki í bílskúrnum heima hjá sér og nennir engu kjaftæði. Hún er í fjarbúð með hermanni og er búin að ákveða að gangast undir legnám til að reyna að minnka sársauka vegna endómetríósu sem hún glímir við. Þess vegna er hún ekki að gera sér neinar hugmyndir um Josh, sem byrjar að vinna hjá henni sem verktaki og langar til að eignast bílfylli af börnum.
Í eftirmála bókarinnar talar Abby um það hvernig glíma Kristenar við endómetríósu er byggð á raunverulegri upplifun einnar af vinkonum Abbyar. Það kom mér ekki á óvart, því Abby nálgast viðfangsefnið af nærgætni og virðingu. Það bætir að mínu mati miklu við söguna og gerir hana svo raunverulega að mér þótti raunverulega vænt um sögupersónur bókarinnar. Ég hélt með Kristen og Josh alla leið og felldi nokkur tár á lokametrunum.
The Happy Ever After Playlist
Fyrir þá sem vilja fá sem öflugasta upplifun af The Friend Zone þá mæli ég með því að lesa ekki neitt fyrirfram um söguþráð The Happy Ever After Playlist. Í rauninni þyrfti káputextinn á bókinni að vera Höskuldarviðvörun. Sú Höskuldarviðvörun er jafnframt í gildi fyrir seinni hluta þessarar umfjöllunar.
Eftir að hafa gleypt í mig ástarsögu Kristenar og Josh, þá var ég undir það búin að verða jafn ástfangin af síðari bók Abbyar, en verð að viðurkenna að hún olli mér smávægilegum vonbrigðum. Ég hef áður skrifað um óbeit mína á kona-í-klípu klisjunni, en mér þykir Abby hafa fallið í þá gryfju með þessari bók. Ég kunni einfaldlega ekki jafn vel við Sloan og ég kunni við Kristen og náði ekki að tengjast henni eins vel.
Í upphafi bókarinnar er Sloan að glíma við missi og djúpstæða sorg. Aftur þykir mér Abby hafa tekist vel til með nálgun sína á viðkvæmt viðfangsefni. Sloan má líka eiga það að hún bíður í upphafi alls ekki eftir því að henni verði bjargað, heldur nær hún að takast á við sína sorg. Hún má líka eiga það að þegar hún er farin að líkjast sjálfri sér, eins og hún lýsir því sjálf, þá gerir hún sér fulla grein fyrir því hversu mikilvægt það er að festast ekki aftur í aðstæðum þar sem hún hefur ekki nægilegt rými til að vera hún sjálf.
Þrátt fyrir það komu kaflar þar sem mér gramdist það hvað Jason var gerður ábyrgur fyrir hennar velferð. Kannski gremst mér ekki svo mikið hvað allar konurnar í kringum hann eru í mikilli klípu, heldur miklu frekar hvað hann virðist upplifa mikla þörf fyrir að pakka þeim inn í bómull og segja þeim hvað er þeim fyrir bestu. Hann er hetja-án-klípu-svo-hann-býr-til-sína-eigin-klípu. Það er ekki alveg jafn grípandi hugtak, en lýsir ástandinu ágætlega.
Drögum saman:
- Sagan af Vageode kökunni er frábær. Ég mæli með því að þið flettið í gegnum myndirnar á hlekknum hér að ofan. Þakkið mér síðar. Helst með því að baka handa mér köku. Vagínuskreytingar eru valfrjálsar.
- Það er einnig vel þess virði að fylgja Abby Jimenez á samfélagsmiðlum. Þessi saga af því þegar maðurinn hennar tók tólffaldan skammt af hægðalosunarlyfi er bráðfyndin og sýnir manni af hverju maður ætti aldrei að giftast rithöfundi. Allavega ekki fyndnum rithöfundi. Það er örugglega allt í lagi að giftast drepleiðinlegum og alvarlegum rithöfundi.
- Ég var reglulega hrifin af The Friend Zone og mæli eindregið með henni. Ég hló, ég grét, ég varð frekar ástfangin af Josh og mig langar til að Kristen sé vinkona mín.
- Ég var ekki eins hrifin af The Happy Ever After Playlist og mæli með því að hún sé lesin með opnum huga fyrir þá sem eru sammála mér með kona-í-klípu klisjuna.