Bandaríkin loga vegna morðs lögreglunnar á hinum óvopnaða svarta Bandaríkjamanni George Floyd. George Floyd er ekki fyrsti svarti maðurinn, og verður líklegast ekki sá síðasti, sem fellur fyrir hendi lögreglunnar, en kerfisbundinn rasismi hefur dregið ótal svarta Bandaríkjamenn til dauða á síðustu sextíu árum eða svo, og í raun allt frá upphafi stofnunar ríkjanna.
Árið 2014 var Eric Garner kraminn til dauða af lögreglunni. Síðustu orð hans voru líka „ég get ekki andað“. Reiði blossaði upp þegar óvopnaði svarti unglingurinn Trayvon Martin var myrtur fyrir það eitt að vera á gangi. Árið 1992 blossuðu óeirðir upp í Los Angeles eftir að lögreglan barði hinn svarta Rodney King hrottalega. Sama lögregla og bar ábyrgð á ótal dauðum og rannsakaði ekki morð á svörtu fólki. Það er hægt að nefna ótal dæmi um hrottaleg morð án dóms og laga, bara á síðustu árum. Auk þessa morða og þöggunnar er ótrúlegt magn af óréttlæti til staðar í samfélagsgerð Bandaríkjanna.
Einnig verðum við, hinir íslensku lesendur, að passa okkur á því að halda ekki að þetta sé eingöngu bandarískt vandamál. Rasismi fyrirfinnst alls staðar, líka hérna á Íslandi, og það í miklum mæli. Við sem samfélag erum undir miklum bandarískum áhrifum, og lítum á okkur sem einsleita þjóð, en það erum við ekki. Við erum mörg hver blönduð, brún, svört, ættuð frá Austur-Evrópu og þar fram eftir götum. Við verðum að standa saman og takast á við rasisma með því að lesa okkur til og fræðast, með því að fræða hvert annað, með því að neita að láta óréttlæti viðgangast.
Ein leið til að komast inn í hugarheim annarra er með lestri. Lestrarklefinn tók saman nokkrar skáldsögur og bækur sem geta frætt lesandann sem og veitt honum ánægju og stuðlað að víðsýni. (SH)
[hr gap=“30″]
The Underground Railroad eftir Colson Whitehead
The Underground Railroad er söguleg skáldsaga sem fjallar um þrælana Coru og Caesar sem búa í suðaustur hluta Bandaríkjanna á 19. öld, þar sem þau þræla á plantekru í Georgíu. Þau sækja í frelsið og freista þess með því að stíga um borð í neðanjarðarlestina. Whitehead dregur upp mynd af bókstaflegri lest neðanjarðar sem flytur flóttafanga á meðan The Underground Railroad var eingöngu net öruggra húsa og fólks sem var flóttaþrælum vinveitt í raunveruleikanum.
Bókin vann Pulitzer verðlaunin 2017 og komst á langa lista Man Booker verðlaunanna sama ár. Bókin vekur upp gífurlega samlíðan með þrælunum. Meðferð þrælahaldaranna á Coru og Ceasar og fjölskyldu þeirra er hræðileg. Bókin var á leslista Barack Obama en honum fannst bókin áminning um hvernig sársauki þrælahaldsins hefur gengið í arf í gegnum kynslóðirnar. Ég þurfti oft að hvíla mig við lesturinn á þessari bók þar sem mér leið einfaldlega illa að lesa lýsingarnar og hvernig orðræðan var varðandi þrælana, það var ekki litið á þá sem manneskju heldur ómerkileg vinnudýr. (RSS)
[hr gap=“30″]
Americanah eftir Chimamanda Ngozi Adichie
Americanah fjallar um Ifemelu, unga nígeríska konu sem er búsett í Bandaríkjunum, en er að íhuga að flytja aftur til Nígeríu. Stór hluti sögunnar á sér stað meðan hún veltir fyrir sér viðburðum í lífi sínu í langri heimsókn á hárgreiðslustofu. Bókin flakkar þannig fram og til baka í tímanum og segir frá lífi Ifemelu bæði í Nígeríu og Bandaríkjunum en gegnumgangandi er ástarsaga hennar og skólafélaga hennar í Nígeríu, Obinze. Smám saman púslar maður saman hvernig Ifemelu endaði í Bandaríkjunum, hvað gerðist milli hennar og Obinze og hvernig hún varð kennari í einum virtasta háskóla Bandaríkjanna. Í seinni hluta bókarinnar ljáir svo sögumaðurinn Obinze röddina og fær maður þá betri innsýn í hans líf og sjónarhorn hans á samband þeirra, sem og upplifun hans á því að vera ólöglegur innflytjandi í Bretlandi. (SG)
[hr gap=“30″]
Heimför (Homegoing) eftir Yaa Gyasi
Ghanaísk-Ameríski rithöfundurinn Yaa Gyasi skrifar margslungna ættarsögu fjölskyldu sem er slitin í sundur. Sagan byrjar í Ghana þar sem hálfsystur, sem þekkjast ekki, lenda í mismunandi örlögum sökum innrásar hvíta mannsinns. Önnur þeirra er hneppt í þrældóm og flutt til Bandaríkjanna. Afkomendur hennar eru bandarískir ríkisborgarar án tengingar við Ghana, sem lifa og hrærast í rasisma Norður Ameríku frá átjándu öld til okkar daga. Hin systirin giftist hvítum Englendingi og býr í kastalanum þar sem systir hennar er þræll. Hún eignast son með manni sínum og afkomendur hennar verða Ghanaískt fólk og í gegnum það kynnumst við sögu Ghana og sjálfstæðisbaráttu. Ótrúlega sterk, falleg og vel skrifuð bók sem allir ættu að lesa. (SH)
[hr gap=“30″]
Glæpur við fæðingu (Born A Crime) eftir Trevor Noah
Glæpur við fæðingu varpar ljósi á aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, stéttaskiptingu, kynþáttahatur og hvernig er að alast upp við þessar aðstæður. Bókin er uppvaxtar saga Trevors Noah sem er nú vinsæll þáttastjórnandi og uppistandari. Noah er sonur svisslendings og svartrar konu af Xhosa ættbálknum en þegar hann fæðist var bannað með lögum að hvítur maður og svört kona ættu samræði. Bókin er stórfyndin og skrifuð á skemmtilegan og lifandi máta. Hún er einnig alvarleg og fræðandi. Hún dregur lesandann svo sannarlega inn. Hún er einstök blanda af hnyttni, lífsgleði og innilegri sorg og sársauka. (RSS)
[hr gap=“30″]
Why I’m No Longer Talking to White People About Race eftir Reni Eddo-Lodge
Breaks bloggarinn Reni Eddo-Lodge tók sig til einn daginn og skrifaði færslu um af hverju hún nennti ekki lengur að tala við hvítt fólk um kynþátt. Síðan þá hefur hún lengt færsluna yfir í heila bók um kynþáttafordóma í Bretlandi. Hún skoðar sögu Bretlands og þátt þess í nýlendustefnu og þrælahaldi og skoðar lifaða reynslu svartra í Bretlandi nú til dags og þær sögulegu rætur sem byggja breskt samfélag nútímanns. (SH)
[hr gap=“30″]
Friday Black eftir Nana Kwame Adjei-Brenyah
Friday Black er smásagnasafn eftir Ghanaískan-Amerískan höfund en það er einnig hans fyrsta útgefna verk. Sögurnar í bókinni eru drungalegar og fjalla um erfiðar siðferðislegar spurningar og eru mikil samfélagsádeila á Bandaríkin. Fyrsta saga bókarinnar sat svakalega í mér, ég komst ekki í gengum hana í einni atrennu. Þar er eftirköstum hrottalegra morða lýst; hvítur maður sér nokkra svarta unglinga, og eitt barn, þegar hann gengur út úr bókasafni með börnin sín. Hann telur unglingana líta út fyrir að vera ógnandi svo hann fer út í bíl, nær í riffilinn sinn og myrðir þau öll. Smásagan fjallar svo um hvernig hvíti maðurinn sem er miðaldra er sýknaður af öllum sökum og gengur frjáls, dómarinn telur að hann hafi verið að verja sig og börnin. Sögumaðurinn er ungur svartur maður að nafni Emmannuel sem tekur þátt í að mótmæla þessu hroðalega misrétti og fer sagan með lesandann í gífurlega sársaukafullt ferðalag. Ég mæli með að lesa þessa umfjöllun Guardian um bókina. (RSS)
[hr gap=“30″]
Silver Sparrow eftir Tayari Jones
Bókin fjallar um systur sem hafa aldrei hist. Önnur er venjuleg ung stúlka, dóttir foreldra sinna, sem býr í fallegu húsi og gengur í góðan skóla. Hin er dóttir föður systur sinnar og annarar konu. Konu sem faðirinn heldur leyndri fyrir „alvöru“ fjölskyldunni sinni. Hann kemur í heimsóknir af og til. Hann borgar fyrir húsið þeirra. Hann viðurkennir laundóttur sína sem dóttur, aðeins þegar enginn sér til. En hvað gerist þegar laundóttirin hættir að fylgja reglunum og fer að leita að systur sinni? Merkileg saga um styrk og ættarbönd og stöðu svartra í Atlanta í Georgíufylki. (SH)
[hr gap=“30″]
White Fragility eftir Robin DiAngelo
Hvíta fræðikonan Robin DiAngelo hefur gert sér feril úr því að kenna hvítu fólki að hætta að vera rasistar. Og það er svo sannarlega hægara sagt en gert. DiAngelo er ekki að kenna í hringjum nýnasista eða hvíts ofstækisfólk. Hún fer, ásamt svartri samstarfskonu sinni, inn á venjulegar skrifstofur venjulegs bandarísks fólk þar sem rasisminn lifir ótrúlega góðu lífi. DiAngelo útskýrir fyrir lesandanum hvítt valdakerfi og fer yfir þá þætti í sögu bandaríkjanna sem fáir þekkja þar sem þeir hafa markvisst verið þurrkaðir út. Hún býður lesandann velkominn í ferðalag um sjálfan sig og sína fordóma, fordóma sem við höfum öll í mismiklum mæli og þurfum að sigrast á. (SH)
[hr gap=“30″]
Such a Fun Age eftir Kiley Reid
Höfundur lýsir sjálf þessari frumraun sinni sem „gamanleik um góðar fyrirætlanir“. Meginsögupersónur bókarinnar eru Alix Chamberlain og Emira Tucker. Emira lifir í eins konar millibilsástandi á milli háskóla og lífsins eftir háskóla, og starfar sem barnfóstra Chamberlain hjónanna á meðan hún er að finna út úr því hvað hana langar til að gera. Bókin hefst á því að Emira er ranglega sökuð um að hafa rænt barninu sem hún er að gæta, vegna þess að barnið er hvítt en hún er svört. Í kjölfar atviksins verður Alix gagntekin af því að bæta framkomu sína við Emiru undir formerkjum umhyggju, en í raun fyrst og fremst til að Emira hætti ekki að vinna fyrir hana. Hegðun hennar verður sífellt ýktari, samhliða því að hún veltir fyrir sér hvernig Emira upplifi mismunandi birtingamyndir fordómaleysis hennar. Lesandi upplifir einnig stigmagnandi vandræðalega tilburði Alix frá sjónarhorni Emiru, og hvernig þeir eru í raun einmitt birtingarmynd forréttinda. Höfundi tekst listilega vel að fjalla um fordóma, stéttaskiptingu og forréttindi á aðgengilegan máta, en bókin fjallar einnig um heilindi og hvernig við speglum okkur í viðhorfi annarra í okkar garð. (AMB)
[hr gap=“30″]
An American Marriage Tayari Jones
Ungu hjónin Celestial og Roy eru holdgervingar ameríska draumsins. Þau eru í spennandi vinnum, eru vel stæð og eiga framtíðina fyrir sér. Þar til Roy er dæmdur í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Glæp sem Celestial veit að hann framdi ekki. Við tekur erfitt tímabil í hjónabandi þeirra. Roy er dæmdur í 12 ára fangelsi og Celestial einsetur sér að bíða eftir honum. En það er hægara sagt en gert.
Bókin er raunsæ lýsing á lífinu sem tekur við eftir að einhver er dæmdur saklaus í fangelsi, eitthvað sem gerist merkilega oft í Bandaríkjunum, og kemur sértaklega fyrir svarta bandaríkjamenn. (SH)
[hr gap=“30″]
The Waterdancer eftir Ta-Nehisi Coates
Hiram Walker fæddist í þrældóm. Móðir hans var seld og Hiram sá hana aldrei aftur. En hann hefur dularfulla krafta sem enginn veit af. Þegar þessir duldu kraftar bjarga lífi Hirams ákveður hann að nota tækifærið og flýja líf sitt í þrældómi og freista gæfunnar.
Sagan er ótrúleg ferðasaga Hirams í gegn um Virginíufylki á þrælatímum. Hiram ferðast um suðurríkin í leit að frelsi og að fjölskyldunni sem var rifin frá honum á barnsaldri. (SH)
[hr gap=“30″]
Girl, Woman, Other eftir Bernadine Evaristo
Bók sem er lýst sem „Bretland eins og þú hefur aldrei upplifað það“ sem þýðir greinilega að Bretland svartra Breta er eitthvað glænýtt og sláandi. Vissulega hafa svartir Bretar verið til staðar lengi vel en óvíst er að hvítir lesendur hafi lagst svo lágt að lesa um lifaða reynslu þeirra. Nígerísk-Breski höfundurinn Bernadine Evaristo fléttar fallega og sára sögu tólf mismunandi söguhetja sem takast á við mismunandi, en þó merkilega líka erfiðleika. Sagan flakkar um fortíðina, framtíðina og nútímann, um heimsálfur og innri heima ólíks fólks. (SH)
[hr gap=“30″]
Purpuraliturinn (The Color Purple) eftir Alice Walker
Purpuraliturinn gerist snemma á 20. öld og segir frá Celie, sem er fátæk og ómenntuð ung stúlka sem elst upp í suðurríkjum Bandaríkjanna. Bókin er fyrir löngu orðin klassík og hefur réttilega hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, þar á meðal hin virtu Pulitzer verðlaun árið 1983. Sagan var einnig kvikmynduð árið 1985. Hin unga Celie skrifar bréf til Guðs og segir honum frá misnotkun föður síns, en alla hennar ævi er hún undirokuð og notuð. Sagan spannar fjörutíu ár af ævi hennar en hún fjallar um það hvernig Celie lifir af hörmungar, staðföst í draumi sínum um að hitta systur sína á ný. (DSJ)
[hr gap=“30″]
Noughts and Crosses serían eftir Malorie Blackman
Noughts and Crosses serían segir frá ástarsambandi á milli tveggja unglinga, Sephy og Callum. Sagan gerist í heimi með ríkjandi aðskilnaðarstefnu og stéttaskiptingu, þar sem efri stéttir eru skipaðar svörtu fólki og neðri stéttir eru skipaðar hvítu fólki. Sephy er svört og tilheyrir efri stéttum þjóðfrélagsins, en Callum er hvítur og hefur nýlega fengið inngöngu í sama skóla og Sephy, þar sem hann er í miklum minnihluta og mætir fordómum. Með því að undirstrika það mótlæti sem samband þeirra mætir gagngert vegna húðlitar þeirra, fjallar höfundur um fordóma frá mörgum sjónarhornum, hverju öðru mikilvægara. Bókin er svokölluð ungmennabók, YA, og hentar því unglingum jafnt sem fullorðnum. (AMB)
[hr gap=“30″]
Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi og við gætum mælt með svo miklu fleiri stórkostlegum bókum sem hjálpa okkur að fá mikilvæga innsýn inn í söguna og ástandið í Bandaríkjunum, þó að við munum aldrei geta skilið að fullu hversu skelfilegt þetta í raun og veru er. En þetta er ágætis byrjun, njótið lestursins og styðjum baráttuna!