Hreinskilin, hrífandi og mikilvæg bók

Chimamanda Ngozi Adichie er einn dáðasti og áhugaverðasti afríski rithöfundur starfandi í dag. Áður en hún varð þrítug var hún búin að gefa út tvær bækur, Half of a Yellow Sun og Purple Hibiscus sem hlutu mikið lof gagnrýnanda. Rétt eftir þrítugsafmælið hlaut hún svo MacArthur Fellowship, einnig þekkt sem snillingaverðlaunin, sem afhent eru árlega til þeirra sem þykja einkar frumlegir í skapandi störfum sínum. Það var hins vegar þriðja bók hennar Americanah sem virkilega kom henni á kortið; sú fór sigurför um heiminn við útgáfu árið 2013 og vann meðal annars National Book Critics Circle Fiction verðlaunin. Í dag er Adichie þó ekki einungis þekkt fyrir skáldsögur heldur einnig fyrir TEDx fyrirlesturinn “We Should All Be Feminists,” fyrir að sitja fyrir í auglýsingum, og að vera dáð af konum á borð við Beyoncé og Opruh Winfrey.

Ég var því vægast sagt með miklar væntingar þegar ég loksins settist niður til að lesa verk eftir þennan dáða höfund, en þá varð Americanah fyrir valinu. Bókin veldur svo sannarlega ekki vonbriðgum en um er að ræða epíska og mikilfenglega sögu sem lýsir á hreinskilinn hátt upplifun innflytjenda og sérstaklega því að vera svartur en ekki innfæddur í Bandaríkjunum.

Í upphafi bókarinnar kynnist lesandinn Ifemelu, ungri nígerískri konu búsettri í Bandaríkjunum, sem er að íhuga að flytja aftur til Nígeríu. Stór hluti sögunnar á sér stað meðan hún veltir fyrir sér viðburðum í lífi sínu í langri heimsókn á hárgreiðslustofu. Bókin flakkar þannig fram og til baka í tímanum og segir frá lífi Ifemelu bæði í Nígeríu og Bandaríkjunum en gegnumgangandi er ástarsaga hennar og skólafélaga hennar í Nígeríu, Obinze. Smám saman púslar maður saman hvernig Ifemulu endaði í Bandaríkjunum, hvað gerðist milli hennar og Obinze og hvernig hún varð kennari í einum virtasta háskóla Bandaríkjanna. Í seinni hluta bókarinnar ljáir svo sögumaðurinn Obinze röddina og fær maður þá betri innsýn í hans líf og sjónarhorn hans á samband þeirra, sem og upplifun hans á því að vera ólöglegur innflytjandi í Bretlandi.

Titill bókarinnar vísar í fordæmda hegðun Nígeríubúa sem koma til baka eftir langa eða stutta dvöl í Bandaríkjunum og temja sér bandaríska lífshætti og kvarta yfir að allt sé ekki eins gott og í Ameríku. Ifemelu er að mörgum talin Americanah en hún upplifir sig í raun hvorki sem ameríkani né Nígeríubúi. Bókin gefur þannig áhugaverða innsýn í hvernig er að vera svört manneskja í Bandaríkjunum án þess að vera innfæddur (e. African American) og þeim fordómum sem fólk í slíkri stöðu stendur frammi fyrir. En jafnframt varpar hún ljósi á upplifun þeirra sem snúa aftur heim til móðurlandsins eftir dvöl í fyrirheitna landinu.

Americanah er þriðja bók Adichie og sú fyrsta sem gerist utan Nígeríu, en hún byggir hana óneitanlega á persónulegri reynslu; hún flutti sjálf til Bandaríkjanna til að stunda háskólanám þegar hún var 19 ára í Philadelphiu, rétt eins og Ifemelu. Adichie lýsir því hvernig Ifemelu fer í fyrsta sinn að upplifa sig sem skilgreinda af húðlit sínum af mikilli kúnst, en sjálf upplifði hún það sem ung kona í Bandaríkjunum. Ifemelu heldur úti vinsælu bloggi og notar rithöfundurinn færslur úr blogginu milli kafla sem tól til að varpa ljósi á upplifun afrískra innflytjenda af því að búa í Bandaríkjunum. Adichie lýsir því einnig á hreinskilinn, en jafnframt harmþrunginn hátt, hvernig er að vera innflytjandi. Bæði alast Ifemelu og Obinze upp við að lesa bókmenntir frá Bandaríkjunum og Bretlandi og dreymir um að búa í vestrænum löndum. Dvalarlönd þeirra taka þeim þó ekki með opnum örmum og þó að einhverjir draumar rætast fara hlutirnar alls ekki alltaf á besta veg fyrir þau.

Americanah er á flestan hátt mjög vel heppnuð. Sem fyrr segir lýsir hún á einstakan hátt upplifunum sem tengjast því að vera svartur innflytjandi. Aðdáunarvert er að Adichie hræðist það ekki að fara með söguna á erfiðar slóðir til að lýsa á sláandi hátt þeirri örvæntingu sem innflytjendur geta staðið frammi fyrir. Einnig er persónusköpunin mjög góð, bæði í tilfelli Ifemelu og Obinze. Þrátt fyrir það náði ástarsaga þeirra, sem á að vera rauði þráðurinn í bókinni, mér ekki á jafn djúpstæðan hátt og ég hefði viljað. Bókin er um 400 síður og spannar langt tímabil í þremur mismunandi löndum og fannst mér ástarsagan á tímabili verða langdregin; mér þótti lýsingar af æskuástinni hrífandi en var minna heltekin af sambandi þeirra Obinze og Ifemelu þegar á leið í sögunni. Heilt yfir hefði bókin mátt vera aðeins styttri, það hefði til dæmis mátt sleppa nokkrum bloggfærslum. Engu að síður er þetta einstök og mikilvæg bók um kynþáttafordóma, upplifun innflytjenda og ást á örlagaríkum tímum. Fyrir fólk sem langar að byrja að lesa bækur eftir nígeríska rithöfunda þá hika ég ekki með að mæla með þessari!

 

 

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...