Kristín Marja Baldursdóttir er tvímælalaust meðal okkar fremstu rithöfunda og því er alltaf spennandi þegar hún gefur út nýtt skáldverk. Í ár tekur Kristín Marja þátt í jólabókaflóðinu með bókinni Gata mæðranna. Sagan gerist á sjöunda áratug síðustu aldar í Reykjavík, Marín er á leið út í lífið eftir stúdentspróf, óviss um framtíð sína en í leit að leiguherbergi. Leit hennar að því er rauði þráðurinn í sögunni og í gegnum það kemst hún í kynni við fjölda kvenna sem eru eins mismunandi og þær eru margar. Úr þessu verður skáldsaga sem ánægjulegt er að lesa.

Á leið út í lífið

Við upphaf sögu er Marín tvítug námskona að ljúka stúdentsprófi í Reykjavík. Hún er fædd og uppalin norður í landi en þegar foreldrar hennar falla frá með stuttu millibili þegar hún á einungis ár eftir í stúdentinn fær hún inni hjá systur sinni Elísabetu og Svenna manni hennar í götu í Reykjavík sem er skreytt fjölda litríkra íbúa. Eins og margir jafnaldrar sínir veit Marín ekki hvað bíður sín né hvers hún væntir fyrir framtíðina. Á kvöldin vinnur hún í miðasölunni í bíóhúsi og teiknar bæði fólk og föt sér til skemmtunar. Hún hefur náð að eignast fáa en góða vini þennan vetur í bænum, þeirra á meðal hárgreiðslukonuna Ingu og námshestinn Kristófer.

Bókin er lágstemmd framan af, við fylgjumst með Marín sumarið eftir að hún lýkur stúdentsprófi og er að gera það upp við sig hvað hún eigi að gera næst. Sem fyrr segir gerist sagan á sjöunda áratugnum en þá voru hlutskipti kvenna í samfélaginu töluvert öðruvísi en í dag og margir í bókinni sjá ekki einu sinni virði þess fyrir konu að vera með stúdentspróf. Þrátt fyrir að vera meðal minnihluta kvenna sem ljúka slíku prófi á þessum tíma er Marín mjög óviss um framhaldið. Það ýtir atburðarrásinni af stað að Elísabet eldri systir Marínar sem er ansi hvöss við hana tilkynnir henni einn daginn að hún þurfi að finna sér annað heimili um haustið. Marín er hænd að götunni sem þær og Kristófer og Inga búa í og fer þannig hús úr húsi að leita sér að herbergi í götunni. Þannig kynnist maður hinum ýmsu persónum og lífshlaupi fólks á þessum tíma í gegnum þessar heimsóknir. Við seinni hluta sögunnar kemur þó í ljós að margt hefur verið undirliggjandi og sagan fer á aðrar slóðir en maður átti von á.

Bókin er auðlesin og er tilvalin til þess að lesa undir hlýju teppi á meðan lægðir ganga yfir. Það er áhugavert að fylgja aðalpersónunni Marín eftir en hin aðalpersónan er í rauninni gatan sem titillinn vísar til. Gata mæðranna er sem fyrr segir lágstemmd framan af en kemst á flug við síðari hluta hennar þegar ýmsir atburðir eiga sér stað og leyndarmál eru afhjúpuð. Þetta er faglega gert hjá Kristínu Marju sem hefur í fyrri part sögu skilið eftir ýmsar vísbendingar um það sem koma skal. Mér hefði þó fundist sumt mega koma fram fyrr í sögunni. Á vissan hátt minnti þessi uppbygging mig á bók höfundarins Hús úr húsi sem kemur kostulega á óvart við seinni hluta bókarinnar. Einnig eru ýmis þemu sem má bera saman milli bókanna, ung kona í leit að sjálfri sér og tilgangi, og ýmsar ráðríkar persónur sem vilja hafa áhrif á val hennar.

Jafnréttisumræðan vegur þungt

Rétt eins og í öðrum verkum Kristínar Mörju vegur jafnréttisumræðan þungt og tekst henni í þessari bók líkt og fyrri sögum að grípa tíðarandann og varpa ljósi á erfiða stöðu kvenna á þessum umbrotatímum. Margar kvennanna eru til að mynda ekki þekktar undir nafni heldur sem kona ákveðins manns eða vegna þjóðernis þeirra. Örlög margra kvenpersóna virðast ráðast af tímunum sem þeir lifa á, en jafnframt eru margar þeirra að reyna að brjótast undan fyrirframákveðnum hlutverkum sínum.

Ég hef alltaf notið þess að dvelja í skáldsagnarheimi Kristínar Mörju og er Gata mæðranna engin undantekning þar. Ég tel þó að bókin muni sérstaklega höfða til þeirra sem muna þá tíma þegar götur borgarinnar voru ljóslifandi og allir þekktu til nágranna sinna.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...