Þessi jól gefur ein af okkar fjölhæfustu höfundum út barnabókina Iðunn og afi pönk. Gerði Kristnýju þarf vart að kynna en hún er þekkt fyrir mögnuð ljóð, grípandi skáldsögur og fjörugar barnabækur.
Iðunn er nýorðin ellefu ára og fékk glæsilegt gult reiðhjól í afmælisgjöf frá foreldrum sínum sem hún þeysist um á í hverfinu og nýtur lífsins. Stuttu seinna fara foreldrar hennar í gönguferðlag og kemur þá afi hennar, sem kenndur er við pönk, að passa hana í nokkra daga.
Því miður hverfur hjólið skyndilega og grunar Iðunni að Jóa og Dídi, ógnvænlegustu stelpurnar í hverfinu, hafi stolið því.
Sumarævintýri Iðunnar
Í bókinni má finna frásagnir af hversdagsævintýrum Iðunnar. Besta vinkona hennar, María Sara, er henni oft til aðstoðar en Afi pönk litar einnig frásögnina með óvenjulegri hegðun sinni og afslöppuðu hugarfari. Hann gefur Iðunni hestanámskeið í afmælisgjöf og fáum við að fylgjast með henni brokka um á hestinum Fjöður sem Iðunn meira að segja tekur í óleyfi einn daginn.
Systurnar tvær, Jóa og Dídí, eru ekki allar sem þær eru séðar og orðspor þeirra sem vandræðaunglingar er stórlega ýkt. Þær lofa að hjálpa Iðunni að finna hjólið eftir að þær koma að Iðunni og Maríu Söru í garðskýlinu þeirra. Í staðinn fyrir að finna hjól Iðunnar fá þær Iðunni til að halda að gamalt hjól þeirra systra sem þær komu auga á úti í skurði sé hennar. Iðunn lætur sig hafa það að endurheimta hjólið og labba með það á herðunum alla leið heim til systranna sem er nú aldeilis pönkað. En allt sem er kúl er pönkað í augum Afans.
Í lok bókar kemur í ljós að hjólinu hafði aldrei verið stolið, það voru nágrannarnir sem áttu í erjum við Afa pönk, vegna mikilvægs rósarunna, sem höfðu geymt það inn í bílskúr fyrir misskilning allan þennan tíma. Það fannst mér svolítil vonbrigði eftir allt púðrið sem hafði verið lagt í leitina að hjólinu.
Brigsl, hanakambar og harðlífi
Iðunn er lífsglöð og fjörug stelpa sem margir krakkar geta tengt við. Sjálf laðaðist ég aldrei að svona raunsæisbarnabókum þegar ég var barn og hefði því viljað að Iðunn lenti í stærri ævintýrum. Afi pönk er hins vegar mjög skemmtileg persóna sem hefði jafnvel átt að blanda sér meira inn í líf Iðunnar. Skemmtilegast fannst mér þegar þau rökuðu bæði á sig hanakamb og héldu grillpartý fyrir nágrannanna og vini á Jónsmessu þar sem gleðilegir endurfundir Afa pönk og hinna meðlima hljómsveitarinnar Harðlífi áttu sér stað. Sama kvöld ákváðu Iðunn og vinkonur hennar að stofna pönkhljómsveitina Brigsl sem mér finnst mjög viðeigandi hljómsveitarnafn.
Gerður Kristný er virkilega fær penni og textinn hennar er mjög vel unninn. Stundum var orðaforðinn jafnvel of góður fyrir ellefu ára nútímastúlku. Halldór Baldursson myndlýsir bókinni en myndirnar koma með passlegu millibili og haldast í hönd við textann. Kápa bókarinnar hefði mögulega mátt vera í öðrum lit en æpandi gulum, en það hefði kannski ekki verið neitt pönk í því?
Iðunn og afi pönk er virkilega vel skrifuð barnabók fyrir börn á aldrinum 7-11 ára, sem njóta þess að lesa um hversdagsævintýri barna.