Þriðja bókin úr brókaseríu Arndísar Þórarinsdóttur heitir Nærbuxnavélmennið og er eins og áður bráðfyndin bók um atburði í Brókarenda, þar sem Nærbuxnaverksmiðjan (núna Rumpurinn) gnæfir yfir öllu og heldur samfélaginu saman, þar sem Gutti og Ólína eru allt í öllu í Rumpinum og vei þeim sem reynir að velta þeim úr sessi. Nýjasta bókin er fyndin en hún er ekki síður hugvekja um vináttu. Í þriðju bókinni lenda Gutti og Ólína í nýjum ævintýrum.

Hve marga vini má eiga?

Það hriktir í stoðunum vinskaparins hjá Gutta og Ólínu. Ólína er farin að æfa frjálsar íþróttir og Gutti situr einn eftir. Án vinkonu sinnar. Gutti átti nefnilega ekki vini áður en hann kynntist Ólínu og hann á óskaplega erfitt með að horfa upp á vinskap Ólínu og hinna krakkana af frjálsíþróttaæfingunum. Þegar Gutti kemst svo að því að amma hans heldur mikilvægum fundum í Rumpinum leyndum fyrir honum er honum öllum lokið. Hann er einmana (án þess að fatta það sjálfur). Ofan á allt þetta bætist að Rasmus, nærbuxnavélmennið í Rumpinum sem gætir að því að allt gangi rétt upp, fer að hegða sér undarlega. Gutti kann ekki að biðja um hjálp. Hann er súr yfir meintum svikum Ólínu, hann vill ekki eignast aðra vini, hann vill gera hlutina sjálfur. Hann þarf enga hjálp! Það getur hver heilvita manneskja séð að þannig fer allt illa, sem það gerir auðvitað. Og það endar meira að segja með gíslatöku á heimsfrægum bleyjubossa prinsi.

Aðalfókusinn í bókinni er þó ekki bilað vélmenni heldur vináttan í öllu sínu veldi. Er hægt að eiga marga vini? Er ekki bara best að bjarga sér sjálfur? Er erfitt að kynnast nýjum vinum? Að vissu leiti tel ég að margir hefðu gott af því að lesa þessa bók og láta minna sig á að enginn getur sigrað heiminn einsamall. Og maður þarf ekki að gera allt sjálfur. Og það er bara fínt að fá stundum frí og þurfa ekki að vera allt í öllu.

Ferskir orðaleikir og hreinar nærbuxur

Stíll Arndísar er eins og áður frábær, fyndinn og uppfullur af góðum og skemmtilegum orðaleikjum sem kæta bæði börn og fullorðna. Eflaust væri hægt að gagnrýna bókina fyrir að vera endurtekning á svipuðu efni og er í fyrri bókunum. Því er ég þó ekki sammála. Bókin sækir í brókaheiminn og heldur honum á lífi, það er greinileg framvinda bæði í persónusköpun og umhverfi. Ég held meira að segja að allir orðaleikirnir séu ferskir og nýir. Ég get fullyrt að fullorðnir eigi eftir að hafa jafn gaman og gott af því að lesa bókina og börnin. Bækur úr brókaseríunni er ævinlega frekar stuttar, svo yngri lesendur eiga vel að ráða við að lesa þær sjálf. Sigmundur Breiðfjörð myndlýsir bækurnar og hann bregst ekki í þessari bók fremur en þeim síðustu. Myndirnar eru lifandi og skemmtilegar og bæta miklu við bókina.

Nærbuxnavélmennið er bráðfyndin bók um alvarlega atburði, tölvuhakkara og að sjálfsögðu nærbuxur og hentar lesendum á öllum aldri – 5 ára og upp úr.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...