Barnabækur! Þær eru skrýtnar, skemmtilegar, ómögulegar, fyndnar, sorglegar og allt þar á milli. Þær eru ómissandi. Þess vegna hef ég svo gaman að því að lesa þær, hvort sem ég les þær fyrir sjálfa mig eða börnin mín. Hvaða annað bókaform býður upp á að skrifa heila skáldsögu sem heitir Nærbuxnaverksmiðjan?

Arndís Þórarinsdóttir sendi frá sér bókina Nærbuxnaverksmiðjan  fyrir stuttu. Um leið og hún kom í okkar hendur þá vorum við mæðginin viss um að þarna væri á ferðinni lífleg og fyndin bók. Myndskreytingin framan á bókinni lofaði góðu; litrík og spennandi. Inni í bókinni eru líka myndskreytingar og ég vissi hreinlega ekki að það væri hægt að láta sér detta í hug svona margar mismunandi tegundir af nærbuxum. Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson myndskreytti. Nærbuxnaverksmiðjan er stutt bók, sem hentar ef til vill fyrir þá sem ekki endilega hafa getu eða nennu til að hella sér út í einhverja doðranta. Sjálf hefði ég alveg viljað hafa fleiri blaðsíður til að lesa því stíll Arndísar er bráðskemmtilegur og lifandi.

Í Nærbuxnaverksmiðjunni fylgjumst við með hinum ofurhlýðna og allt of samviskusama Gutta og hinni óstýrlátu og óþekku Ólínu. Þau komast að því að leggja eigi niður og rífa nærbuxnaverksmiðjuna sem trónir yfir bænum og er hryggjarstykki samfélagsins. Lena, amma Gutta, vinnur í verksmiðjunni en hefur ekki skilað sér heim. Ólína dregur Gutta í hættuför inn á bannsvæði verksmiðjunnar til þess að freista þess að bjarga ömmu Lenu úr hættu. Á leiðinni kynnumst við stórhættulegu vélmenni, bólstruðum kanínum, unglingum sem þrá ekkert heitar en að fá að vera í friði (hvaða unglingur vill það ekki?) og danssjúkum eldri borgurum (glimmergallarnir eru frábærir). Ólína og Gutti uppgötva eitthvað um sjálf sig á leiðinni.

Aftan á bókinni er lesandanum (sem ætti auðvitað að vera barn en ekki kona með of mikinn áhuga á barnabókmenntum) lofað ógrynni af hlátri. Svo miklum hlátri reyndar að fullorðnafólkið verði það forvitið að það lesi bókina sjálft. Við mæðginin lásum bókina saman og það var hlegið og það var tuðað um að “lesa einn kafla í viðbót” eftir næstum hvern einasta lestur. Hefði ég haft rödd til þá hefði ég örugglega lesið bókina í einum rykk, en mér er annt um að geta talað daginn eftir líka.

Þegar bókin var búin sögðu sérlegir álitsgjafar mínir að bókin hefði verið skemmtileg og áhugaverð. Ekki síst þótti þeim BlúnduRASS 3000 skemmtileg persóna. Rassa og nærbuxnahúmor á alltaf við!

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...