Gutti, Ólína og loftslagið

Nærbuxnanjósnararnir er önnur bókin um Gutta og Ólínu, sem björguðu tilveru Nærbuxnaverksmiðjunnar í Brókarenda. Bækurnar eru skrifaðar af Arndísi Þórarinsdóttur, sem hefur áður gefið út þrjár bækur í samvinnu við Menntamálastofnun og Námsgagnastofnun. Árið 2011 sendi hún frá sér unglingabókina Játningar mjólkurfernuskálds, sem hlaut mjög góðar viðtökur. Hún er líka þýðandi bókanna um Hulduheima.

Í Nærbuxnanjósnurunum komast vinirnir Gutti og Ólína í kast við mjög ósanngjarnan húsvörð. Sigurborg húsvörður virðist lítið vita um stöðu mála og hver Gutti og Ólína eru – hún sýnir því að minnsta kosti litla virðingu. Hún hendir Gutta og Ólínu út úr Rumpinum, félagsmiðstöðinni sem var stofnuð í gömlu Nærbuxnaverksmiðjunni. Ólína er nú ekki vön að láta húsverði segja sér fyrir verkum. Inn skulu þau! Það kemur svo í ljós að mjög dýrmætar konunglegar nærbuxur hafa gufað upp og kanínuunginn Svala Björgvins er horfinn! Gutta og Ólínu grunar Sigurborgu um græsku og hefja ítarlega rannsókn.

Grín og kanínur í nærbuxum

Arndís beitir húmor og orðaleikjum af mikilli leikni í sögunni, sem skapar leikandi léttann og bráðfyndinn texta. Að sjálfsögðu komast Gutti og Ólína til botns í ráðgátunni, þótt sannleikurinn sé eitthvað allt annað en þau hafði grunað.

Það er gaman að fylgjast með vinskap Gutta og Ólínu þroskast. Gutti lætur Ólínu stundum vaða yfir sig, sem er ekki gott fyrir neinn. Hann þarf að læra að standa á sínu og Ólína þarf að læra að taka tillit til annarra. Boðskapurinn með vinskap þeirra er skýr og ég efast ekki um að þau haldi áfram að vera vinir fram í rauðan dauðann.

Sigmundur Breiðfjörð er myndhöfundur bókanna um Nærbuxnaverksmiðjuna. Myndirnar hans eru fullar af húmor sem bæta enn við glettnina í bókinni. Aldrei hefði mig grunað að hægt væri að hanna eins margar tegundir af nærbuxum og koma fram í þessum bókum! Og ekki datt mér í hug að kanínur notuðu nærbuxur!

Prumpað fyrir loftslagið

Líkt og í fjölmörgum öðrum ritverkum í ár eru loftslagsmálin til umræðu í Nærbuxnanjósnurunum. Ég ætla þó alls ekki að segja hvernig en vil þó segja að það er alls ekki á kvíðavaldandi hátt, eins og það stundum vill verða. Þetta er þó efni sem vert er að ræða við börn og mér finnst eðlilegt að loftslagsmál rati inn í barnabækur. Þetta er stærsta verkefni sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Arndís tekst á við það eins og henni einni er lagið, með bráðfyndnum nærbuxnahúmor, prumpi og kanínum. Það gerist ekki betra!

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...