Orlandó, eða síðasta bókin fyrir fæðingu

Orlandó jeÞað eru komnir tveir mánuðir síðan ég las skáldsöguna Orlandó eftir Virginíu Woolf. Það er ekki ákjósanlegur tími til þess að láta líða á milli þess sem maður les bók og skrifar um hana, en svona endaði þetta nú hjá mér þrátt fyrir göfugan ásetning. Ég las bókina undir sérstökum kringumstæðum, ég var í senn að drepa tímann og í kapphlaupi við að klára hana áður en það yrði of seint. Ég var sumsé komin meira en 41 viku á leið og leiddist herfilega en var engu að síður aldrei viss um að ná að klára bókina í tæka tíð áður en ballið byrjaði. Ofan á þetta bættist að Orlandó er bók sem maður les í áhlaupum. Í henni eru sex kaflar og í minningunni eru hvergi nein greinarskil. Ég opnaði bókina aftur til að vera viss og mér til undrunar reyndust þau vera til staðar þó þau væru ekkert sérlega mörg. En það er eitthvað við ritstílinn í bókinni sem gerði það að verkum að í hvert skipti sem ég byrjaði á nýjum kafla leið mér eins og ég væri að stinga mér til sunds eða renna mér niður vatnsrennibraut, það var enginn leið að hætta að lesa fyrr en ég náði landi við lok kaflans og þá varð ég líka að stoppa og hvíla mig. Það var beinlínis erfitt að halda í við textann þó hann væri ótrúlega skemmtilegur. Í eftirmála við bókina kemur fram að höfundinum hafi þótt léttara að skrifa þessa bók en nokkra aðra á ferlinum og hafi gert það á methraða en þýðandinn barðist hins vegar við textann árum saman. Einhvern veginn ná þessar andstæður fullkomlega utan um Orlandó, hún er í senn létt og skemmtileg og þung eins og snjóflóð. 

Orlandó2

Kápan á frumútgáfunni

 

Þetta er því sérstök bók sem ég las á sérstökum tíma í lífi mínu og ég er í þeirri óvenjulegu aðstöðu að geta fullyrt að þegar maður vaknar af sterkum svenflyfjum, einum og hálfum tíma eftir að hafa fætt sitt fyrsta barn og tveimur dögum eftir að hafa lokið við Orlandó, þá er það bókin en ekki barnið sem kemur fyrst upp í hugann. Ég vona að frumburðurinn fyrirgefi mér þessi orð ef hann rekst einhvern tíma á þau, en þegar ég vaknaði upp hálfblind og vissi ekki hver ég var eða hvar ég var stödd, þá sannfærðist ég um að ég væri að lesa óvenju strembinn kafla í Orlandó um eðli sjálfsins og gang tímans. (Allt þetta fann ég mig einnig knúna til að reyna að útskýra fyrir starfsfólki spítalans.) Miðað við þessa lýsingu kynni fólk að álykta að bókin sé snúin, leiðinleg og blátt áfram martraðarkennd. En það er bara alls ekki þannig. Þegar ég hugsa um Orlandó fer ég ósjálfrátt að líkja henni við hina hefðbundnu barnaafmælisköku tíunda áratugarins. Þakta súkkulaðikremi og skreytta á alla kanta með hlaupköllum og sleikipinnum, litrík og bara eitthvað svo ótrúlega skemmtileg (ekki síst núna, á tímum smekklegra og stílíseraðra barnaafmæla sem eru hönnuð fyrir instagram og auglýsingastyrki).

Orlandó er yndislegur karakter, bæði sem dreyminn unglingspiltur á 16. öld og 19. aldar dama sem þráir hjónaband, að ógleymdum öllum hinum öldunum, til dæmis árunum sem sendiherra í Istanbúl. Hvernig er eiginlega hægt að láta sögupersónu flakka milli tveggja kynja og yfir meira en þrjú hundruð ár á svona eðlilegan hátt án þess að missa nokkru sinni þráðinn? Þroski Orlandós er fullkomlega sambærilegur við þrjár aldir en engu að síður algjörlega trúverðugur sem ævihlaup venjulegrar manneskju. Bókin er uppfull af prakkaraskap á sama tíma og höfundurinn veltir upp flóknum pælingum um kynhlutverk, eðli skáldskapar og gang tímans. Sem sagnfræðingur elskaði ég tíðarandalýsingarnar á hinum ólíku öldum og tímabilum enskrar sögu, hvað gæfi ég ekki fyrir að geta tekið þátt í hinu stórkostlega skautapartíi ensku hirðarinnar við upphaf 17. aldar? Kannski eru það allar veislulýsingarnar sem gera það að verkum að bókin minnti mig á nammihlaðna afmælisköku en kannski var það líka vegna bleika kertisins sem rússneska prinsessan, fyrsta ást Orlandós, nartar í á einum stað. Allt er skondið, skemmtilegt og furðulegt, maður hefur það á tilfinningunni að höfundurinn sé stöðugt að gefa manni langt nef og þó maður skilji brandarann ekki alveg til fulls þá flissar maður samt.

Orlandó

Ó, Orlandó!

Ég get í rauninni ekki sagt mikið meira um bókina, þetta var ekki bók sem mér fannst ég skilja til fulls þegar ég var nýbúin að lesa hana og enn síður næ ég almennilega utan um hana núna tveimur mánuðum af brjóstagjöf og trufluðum svefni síðar. Orlandó hefur verið kölluð „lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“ þar sem fyrirmyndin að persónu Orlandós var vinkona og elskhugi Woolf, Vita Sackville-West. En bókin er líka hálfgert ástarbréf til enskra bókmennta, náttúru og sögu og skáldskaparins yfirleitt. Ég varð í það minnsta óskaplega skotin við lestur bókarinnar, þó ég viti ekki alveg í hverju eða hverjum. Líklega var það hugmyndin um vinkonurnar og elskendurna Virginíu og Vitu sem ég varð mest skotin í, hvað þær hljóta að hafa verið ótrúlega skemmtilegar og andríkar saman. Einhvern veginn vona ég og vil trúa því að flökkusagan sem ég heyrði um þær um daginn sé sönn: Þeim var boðið í grímubúningapartí hjá vini sínum í menningar- og bóhemskreðsunni og þegar hann opnaði dyrnar stóðu þær báðar kviknaktar á dyraþrepinu og tilkynntu glaðhlakkalega: We’re savages!

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...