Inga einhyrningur – Sátt í eigin líkama

Inga einhyrningur er fallega bleik og glimmerglitrandi saga af hesti sem óskar einskis heitar en að vera einhyrningur. Inga ræðir í bundnu máli við kumpána sinn, asnann Kormák, sem finnst hugmyndin fjarstæðukennd. Inga sé fín eins og hún er. Bílslys verður þó til þess að ósk Ingu rætist og hún er orðin fallega glimmerskreyttur, bleikur einhyrningur. Eins falleg og hugsast getur! Með gulrót fyrir horn. Hún verður víðfræg! En frægð hennar minnti mig á örlög Freddie Mercury (ég er sko nýbúin að horfa á Bohemian Rhapsody). Inga verður átakanlega einmana, sorgmædd og þráir hinn raunverulega vin sinn, Kormák í haga.

Inga einhyrningur er barnabók í bundnu máli, samin af Aaron Blabey og hér í íslenskri þýðingu Braga Valdimars Skúlasonar, sem mér finnst ætíð hitta naglann á höfuðið. Alltaf þegar ég dett niður á barnabækur í bundnu máli, þá velti ég því fyrir mér hvar þessar bækur voru þegar ég var yngri. Barnabækur í bundnu máli eru listaverk fyrir eyrað, gullkista nýrra orða fyrir svampheila og svo fyndnar (oftast). Ég vona innilega að sem flestir foreldrar daðri við ljóðaformið með börnum sínum, því það er vissulega skemmtilegt.

Hesturinn Inga kemst fljótt að því að frægðin og framinn og hið ómótstæðilega útlit einhyrningsins er innantómt  líf og leiðinlegt. Frægðin er ekki eftirsóknarverð eftir allt saman, svo hún gerir það sama og Lady Gaga gerði, tekur af sér farðann og gervið og mætir sem hún sjálf til hans Kormáks síns, því þar er hamingjan mest. Ég held samt að Lady Gaga hafi ekki endað hjá einhverjum Kormáki. Boðskapurinn i bókinni er fallegur, því allir eiga að vera sáttir í sínum eigin líkama.

Ég og yngri sonurinn lásum bókina saman, honum fannst bókin fínasti kvöldlestur en hann er mögulega ekki markhópur bókarinnar. Boðskapurinn í bókinni fer fyrir ofan garð og neðan hjá honum, því hann er bara blessunarlega ánægður með sinn kropp. Þess vegna spunnust engar umræður um boðskapinn, en við þurftum að ræða nokkur orð sem ekki komust til skila. Bókin er stórfín lesning fyrir alla krakka og hið bundna mál er brjálæðislega töff.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...