Bókakápa skáldsögunnar er hönnuð af Ólafi Unnari Kristjánssyni og er vísun í bókakápu Gísla B. Björnssonar, Dagleið á fjöllum eftir Halldór Laxness.

 

Henni býðst að vera fegurðardrottning en hún kýs heldur að helga sig ritlistinni.

Ég hef sjaldan eða aldrei upplifað aðra eins bókaást. Ég lagði bókina ekki frá mér. Hún heltók mig viljuga og varð strax hluti af mér; hluti af mínum minningum og hluti af minni bókasál.

Ein besta bók sem ég hef lesið. Þannig mun ég ávallt lýsa henni. Ef ekki sú allra besta.

Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttir er meistaraverk og rennir stoðum undir það að Auður er einn helsti orðlistamaður þjóðarinnar og samtímans. Næmni hennar fyrir tungumálinu og umhverfinu er mögnuð. Hún lýsir einstaka atburðum á nákvæman hátt og heldur áhuga lesanda í gegnum alla söguna. Það loftar vel um textann og stuttir kaflarnir gera það að verkum að sagan heldur góðum takti.

Textinn er flæðandi. Maður rennur í gegnum textann og áður en maður veit af hefur allt innihald bókarinnar, sem er mjög svo full af táknum og hugleiðingum, smogið inn í hugarheim lesanda; allt í einu er bókin búin og kláði í sálinni situr eftir. Örvandi tilfinning sem lætur mann langa til að setjast niður og skrifa; vera eins og Hekla. Finna fyrir þörfinni sem hún finnur fyrir á hverri stundu. Óbilandi þörfinni fyrir að skrifa.

Persónan Hekla er hinn mikli listamaður; hið mikla skáld. Hún er báturinn sem siglir upp í storminn, með skæra ljóstýru í káetunni og aldrei er henni haggað. Ljóstýran breytist í bjartan loga sem lýsir upp allt og sýnir hinum hvað það er að gefa sig ekki og halda í drauminn, sama þótt á konu halli. Hekla er skáldamóðirin. Hún er fyrirmyndin sem listasagan á að líta upp til og nefna á nafn.

„Ég get ekki misst þessa taug, Ísey. Að skrifa. Það er líflínan mín. Ég á ekkert annað. Ímyndunaraflið er aleigan mín.“ (Auður Ava Ólafsdóttir, 2018, bls.186)

Hits: 552