Orri óstöðvandi er ein af bókunum sem seldust upp fyrir síðustu jól (en það er öruggt að það er alltaf hægt að nálgast hana á næsta bókasafni). Krakkar hreinlega urðu að fá bókina! Jafnt stelpur sem strákar. Bjarni Fritzson höfundur bókarinnar var duglegur að fara á milli skóla til að kynna bókina sem er full af sögum af Orra og vinkonu hans Möggu Messi.

Bjarni stendur á bak við sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stráka og stelpur ásamt Kristínu Tómasdóttur í gegnum fyrirtæki þeirra Út fyrir kassann. Saman hafa þau gefið út nokkrar bækur til að efla krakka. Fyrri bækur hafa ef til vill verið örlítið stífari en Orri óstöðvandi, meira í prédikunartón. Í viðtali við mbl.is segir Bjarni að með bókinni um Orra vilji hann koma svipuðum boðskap til skila, nema bara á skemmtilegri hátt.

Orri er ellefu ára strákur sem segir frá „besta ári lífs síns“ í fyrstu persónu frásögn. Hann stundar íþróttir af krafti og er vinsæll. Besta vinkona hans er Magga Messi, sem er fáránlega góð í fótbolta. Þegar mikið liggur við setur Orri sig í stellingar og virkjar þá hliðarsjálf sitt sem er Orri óstöðvandi. Þess má þó geta að þótt Orri verði óstöðvandi breytist hann ekkert útlitslega, breytingin er öll að innan og á hugarfari hans.

Orri óstöðvandi getur tekist á við erfiðar aðstæður, flóknar áskoranir og leyst úr erfiðum álitamálum. Hér nýtir Bjarni sér þekkingu sína og reynslu til að efla stráka til dáða, kenna þeim að takast á við alls konar áskoranir. Þótt að fyrir fullorðna manneskju sem les bókina sé boðskapur hennar mjög sýnilegur sjá krakkar hann síður eins berlega. Boðskapurinn er falinn í skemmtilegum og fyndum frásögnum af þessu besta ári.

Myndskreyting var í höndum Þorvalds Sævars Gunnarssonar. Myndirnar eru skoplegar svarthvítar myndir sem fá að njóta sín í bókinni. Þær flétta sig inn í textann og styðja við hann á réttum stöðum og eru sýnnilegri en í mörgum öðrum íslenskum barnabókum.

Sögurnar í bókinni eru bráðfyndnar! Það hafa flest börn í kringum mig tjáð mér skælbrosandi. Uppátækin sem Magga Messi fær Orra til að taka þátt í eru ótrúleg. Hugmyndirnar sem Orri fær koma á óvart. Aðstæðurnar sem vinirnir lenda í eru spennandi og til þess fallnar að lesandi óskar alltaf eftir meiru.

Þegar við mæðginin lásum Orra óstöðvandi saman þá lásum við hana ekki hratt. Hver saga eða kafli getur svo til staðið alveg stakur. Mér fannst ég stundum vera að lesa stuttsögur fyrir háttinn, þar sem það var erfitt að finna samhangandi söguþráð í gegnum bókina. Stundum var ég ekki viss hvort verið væri að segja frá í tímaröð. Allt er svolítið laust í sér og þótt fyrsti kafli og síðasti kafli fjalli að mestu leiti um það sama, þá var svo langt síðan við lásum fyrsta kafla (af því bókin er þó nokkuð margar blaðsíður) að við þurftum að fletta því upp. Ég tel að það hefði verið skemmtilegt að reyna að binda bókina og sögurnar betur saman með því að vísa oftar í óþokkana sem Orri hittir í fyrsta kafla. Það hefði jafnvel skapað spennu í gegnum bókina og vakið forvitni.

Aftur á móti verður að segjast eins og er að ég hef sjaldan hlegið eins mikið og af sögunni um kakómalt-vöðva Sigga, bróður Orra. Eða sögunni af skítadreifaranum!

Ég tel að boðskapur bókarinnar nái vel í gegn til þeirra sem þurfa að heyra hann. Bókin er vel til þess fallin að ræða saman um alls kyns áskoranir og álitamál í lífi barnanna. Spyrja þau hvort Orri hafi breytt rétt? Hvað hefðu þau gert í þessum aðstæðum? Og svo framvegis. Svo er hægt að hlæja duglega inn á milli.

Lestu þetta næst

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...