Fyrir jólin kom út unglingabókin Ég gef þér sólina eftir Jandy Nelson. Ég hef alltaf verið mjög skeptísk á unglingabækur. Ekki að mér finnist þær leiðinlegar heldur hefur mér fundist erfitt að finna góða bók fyrir unglinga, bók sem er ætluð þeim aldri og skrifuð á þeirra tungumáli. Sem unglingur fékk ég ávallt kjánahroll þegar ég las þær bækur sem þá voru gefnar út fyrir þennan markað. Þær unglingabækur sem til dæmis hafa verið skrifaðar af íslenskum höfundum hafa ansi oft fallið í þá gryfju að fjalla um málefni unglinga en verið samt skrifaðar á þann hátt að yngri lesendur gætu einnig lesið.  Sem er óttalega kjánalegt. Það nennir enginn unglingur að lesa bók sem tíu ára gamalt systkini hefur líka gaman af að lesa.

Unglingar þurfa sínar bókmenntir í friði fyrir börnum og fullorðnum. Þar sem ég er bókavörður á skólabókasafni átti ég í samræðum við hóp af unglingum síðasta haust um ákveðna íslenska bók sem var skrifuð sem unglingabók. Þau höfðu öll lesið hana og voru öll ósátt við bókina, fannst hún leiðinleg, langdregin og söguþráðurinn ekki um eitt um neitt. Ekkert að gerast og söguþráðurinn ósannfærandi og málfarið kjánalegt.

Við ákváðum að skoða hvaða umfjallanir bókin hafði fengið og einn gagnrýnandinn, sem við hlustuðum á viðtal við, óskaði unglingum til hamingju með að loks ættu unglingar höfund sem skaffaði þeim vandaða og vel skrifaða unglingabók. Þau nánast froðfelldu af pirringi. „Af hverju er eitthvað gamalt fólk að segja okkur unglingum hvað séu góðar unglingabækur?“ Var spurningin sem ég fékk og ég eiginlega gat ekki svarað henni, nema vera sammála þeim.

Bókin sem þessi umfjöllun er um, það er að segja þegar ég kem mér að efninu, dettur í þessa gryfju. Sagan er sögð af tvíburunum, Jude og Noah og þau skiptast á að segja söguna í fyrstu persónu. Sagan spannar rúmlega þrjú ár, frá því að þau eru rúmlega þrettán ára og til sextán ára aldurs. Eins og oft er með tvíbura eru þau ótrúlega náin og tengd, bæði listræn enda mamman listamaður sem þó er með sína hæfileika í felum, hún vinnur hinsvegar sem listagagnrýnandi og bókahöfundur.  Harmleikur og allskyns misskilningur verður til þess að fjarlægð myndast milli tvíburanna, bæði reka þau sjálf fleig á milli sín og dauði móðurinnar verður til þess að sorgin stíar þeim í sundur Noah er þar að auki að glíma við kynhneigð sína. Hann er samkynhneigður og uppfullur af eigin fordómum. Hann er hrifinn af Brian sem dvelur tímabundið í næsta húsi en afskiptasemi Jude gerir það að verkum að þeir ná ekki saman fyrr en seinna.

Það er tekið á mjög mörgum hlutum sem örugglega margur unglingurinn getur samsamað sig með. Foreldramissi, framhjáhald móðurinnar og svik hennar, byrðin sem Noah tekur á sig þegar hann ákveður að þegja yfir hegðun mömmunar, samkynhneigð fjórtán ára stráks, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir hans, kynferðisofbeldi sem Jude lendir í fjórtán ára og sjálfseyðileggingarhvöt hennar í kjölfarið. Jude talar við látna ömmu sína og stendur föst í þeirri trú að látin móðir hennar fremi gjörninga til að hefna sín á henni fær mann til að efast um geðheilbrigði persónunnar.

Svona mætti lengi telja. Og þegar upp er staðið er alltof mikið sett inn í þessa sögu og því ekki hægt að kafa nema grunnt í hvert efni.  Ég hefði viljað sjá meiri úrvinnslu varðandi samkynhneigð Noah, ofbeldið sem Jude verður fyrir og afleiðingar sem það veldur. Því atburðurinn þar sem Jude lætur til leiðast að stunda kynlíf með strák sem er töluvert eldri, er afar trúverðugur og  eftirköstin skelfilega raunveruleg.

Og þá kem ég að vandamálinu með þessa sögu. Eins og það er glatað að vera unglingur og lesa barnalegar bókmenntir þá er líka glatað að svona góð saga sé svo flækt og ofhlaðin af umfjöllunarefnum  að ungmenni missi áhugann á henni. Það er margt gott í þessari bók en það er vaðið úr einu í annað og engin mál almennilega afgreidd. Og bókin er mjög lengi af stað. Það er í raun ekki fyrr en eftir 140 bls sem áhuginn kviknar, ef hann þá kviknar. Fyrir fullorðna er þessi bók ágæt sem slík. En mér finnst hún ekkert skilja eftir og sú staðreynd að bókin hafi unnið til verðlauna erlendis finnst mér ekki alveg verðskuldað.  Ég komst yfir eintak á frummálinu og hef ekkert út á þýðinguna að setja en tek þó fram að ég er ekki vel að mér að dæma um slíkt. Ég hef reynt að ota bókinni að unglingum, margir hafa reynt en ekki nennt að klára, þrátt fyrir að vera miklir lestrarhestar.  Ég gef þessari bók þrjár stjörnur, þar sem höfundur er greinilega meðvitaður um þau málefni sem snerta unglinga. Hinsvegar hefði hann mátt fækka umfjöllunarefnunum í bókinni og klára úrvinnsluna um þau efni sem tekin eru fyrir.  Svo er einn kapítuli varðandi bækur almennt og það eru bókakápur. Kápan á Ég gef þér sólina er afskaplega óspennandi og gerir ekkert til að selja manni það að grípa hana og skoða nánar.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...