Helsjúkt ástarsamband

Ég verð að viðurkenna að mér leið hreinlega andlega illa eftir lesturinn á Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þvílík var samkenndin sem ég fann til Lilju, aðalsögupersónunnar, eftir þennan snögga lestur. Kvika er aðeins 134 síður að lengd og ég myndi kalla hana nóvellu. Hver kafli er stuttur, oftast ein til tvær blaðsíður en stundum aðeins nokkrar setningar. Þessi uppsetning hentar sögunni vel og veitir henni ljóðrænan blæ þar sem hver kafli er eins og örsaga eða prósaljóð. Áður hafa ljóð Þóru birst í ljóðabókunum Ég er ekki að rétta upp hönd (2017) og Ég er fagnaðarsöngur (2018) sem hún gaf út með Svikaskáldum.

 

Helsjúkt ástarsamband

Kvika fjallar um Lilju, unga konu sem er í sambandi með manni sem beitir hana andlegu ofbeldi. Hún gengst undir hlutverkið sem hann ætlar henni og hann er við stjórnvölinn. Lesandinn kynnist Lilju og hennar aðstæðum í gegnum stuttar sýnir inn í líf hennar sem eru áhrifamiklar og sýna hversu mikið vanlíðan hennar eykst í gegnum sambandið.

Lilja er ástfangin upp fyrir haus og sannfærir sjálfa sig að samband þeirra sé eðlilegt, að hún sé ekki í helsjúku ástarsambandi við ofbeldismann, „Þegar mér líður eins og ég hafi húðflett sjálfa mig með ostaskera þá minni ég mig á þetta: Ást er litróf. Hún er jafn sár og hún er góð.“ (90) Þrátt fyrir að hann neitar að umgangast vini hennar og fjölskyldu og stjórni lífi hennar. Hann notar það sem afsökun að fjölskylda hennar sé „svo venjuleg að hann segist ekki vita hvernig hann eigi að vera.“ (93) En sjálfur ólst hann upp hjá föður sem vanrækti hann og hélt framhjá kærustunum sínum. Þar hefur hann ekki átt góða fyrirmynd, en það er engin afsökun fyrir framkomu hans gagnvart Lilju, sem hann heldur einnig framhjá.

 

Daufur skuggi af sjálfri sér 

Sjálfsmynd Lilju er mölbrotin þegar hún kemst að framhjáhaldinu, „Hversu misheppnuð getur ein manneskja verið? Ég hélt ég gæti bara beðið þangað til ég væri nógu góð. Að hann hlyti að sjá það. En hann horfir bara í gegnum mig. Ég er ekki til.“ (102) Hún byggir allt sitt sjálfsmat á því hvernig hann sér hana og án hans er hún ekki neitt. Lilja nær botninum og reynir að fyrirfara sér í kjölfarið. Hún lokar sig af og segir fjölskyldu sinni ekki frá því sem gerðist, hún hefur meiri áhyggjur á því að hún sé nú orðin of klikkuð fyrir hann. Hún fer til geðlæknis og er sett á lyf sem „fletja [hana] út.“ (120) Lilja er orðin aðeins daufur skuggi af sjálfri sér í lok bókarinnar en fer þó aldrei frá manninum, það fer þó reyndar eftir því hvernig endirinn er túlkaður.

 

Þögnin rofin

Kvika er áhrifamikil saga af sjúku sambandi þar sem karlmaðurinn hefur allt valdið og beitir því til að tryggja að konan verði háð sér og gangist undir allar hans þarfir, því annars mun hann fara frá henni. Það sem gerir þessa bók svo merkilega að hún talar beint inn í samtímann þar sem konur hafa rofið þögnina með sögum sínum af svipuðum samböndum og kynferðisofbeldi. Lilja er lituð af samtíma sínum, menningu sem kennir stúlkum að hlutverk þeirra sé að geðjast að öllum þörfum karlmannsins sem á þá að lokum að verða þessi draumaprins sem þær sjá í kvikmyndum. Lilja þráir ekkert heitar en að vera elskuð en það sem hún þarf í rauninni mest er að elska sjálfa sig. Virkilega vel skrifuð bók sem á brýnt erindi í dag.

 

 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...