Sögur – verðlaunahátíð barnanna, fór fram annað sinn í kvöld í beinni útsendingu á RÚV.  Á hátíðinni eru það sögur fyrir og eftir krakka verðlaunaðar af krökkum sem kusu um það sem þeim fannst bera af á seinasta ári.

Bókaverðlaun barnanna í ár hlutu þeir Gunnar Helgason fyrir bestu íslensku skáldsöguna, Siggi sítróna, og Helgi Jónsson fyrir bestu þýðinguna, Dagbók Kidda klaufa

Verðlaun fyrir bestu smásögurnar í smásagnasamkeppni KrakkaRÚV hlutu Róbert Gylfi Stefánsson í yngri flokki fyrir söguna Hringurinn og Daníel Björn Baldursson í eldri flokki fyrir söguna Endurfundir. Verðlaunasögurnar auk 32 annarra smásagna sem tóku þátt í smásagnasamkeppninni má nálgast í rafbókinni Risastórar smásögur sem gefin hefur verið út af Menntamálastofnun, KrakkaRÚV og Sögur- samtökum um barnamenningu. 

Heiðursverðlaunin í ár hlaut Ólafur Haukur Símonarson fyrir framlag sitt til barnamenningar. Ólafur Haukur hefur samið fjölda ljóða og smásagna en einnig margar skáldsögur. Þar á meðal bækurnar Gauragangur og Meiri gauragangur, sem fjalla um 16 ára töffarann Orm Óðinsson, en bækurnar nutu mikillar hylli hjá íslenskum unglingum á sínum tíma. Þá hefur Ólafur Haukur samið fjölda leikrita fyrir svið, útvarp og sjónvarp sem og fjölda laga og lagatexta.

 

 

Hits: 129