Dópmútta með flugeldablæti

Hafið þið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvað varð um hina bráðsnjöllu Matthildi úr samnefndri sögu eftir Roald Dahl eftir að hún sigraði fröken Frenju og varð fullorðin? Ég hef svo sem ekkert verið að velta fyrir því fyrir mér heldur. Kannski gerði ég bara ráð fyrir því að hennar byði líf alsett rósum og tvöföldum regnbogum – kannski jafnvel bara embætti forseta Bandaríkjanna eftir að hafa sigrað eitthvað appelsínugult himpigimpi í jakkafötum. Í það allra minnsta myndi hún lifa hinu klassíska „og lifði hamingjusöm alla ævi“ lífi.

Skáldsagan Múttan eftir Hannelore Cayre svarar að vissu leyti þessari spurningu sem enginn spurði og ég get lofað ykkur því að það var ekki svarið sem þið bjuggust við. Ekki misskilja mig, bókin tengist bókinni hans Dahls ekki neitt, en strax eftir fyrsta kafla fannst mér sem ég væri að lesa einhvers konar raunsæja fullorðins útgáfu af Matthildi.

Múttan fjallar um Patience Portefeux, franska konu af túnísku og austurísku bergi brotin, sem líkt og Matthildur, elst upp hjá foreldrum sem hafa lifibrauð af vafasamri – ja, reyndar bara ólöglegri starfsemi og eeeeelska peninga. Foreldrarnir eru mjög uppteknir af sjálfum sér og skipta sér lítið af Patience, sem gerði þau mistök að fæðast ekki sem strákur og virðist aðallega fara í taugarnar á þeim og er alin upp af heimilishjálpinni. Þau lifa glæsilegu líf, fullu af flugeldum og fínum svissneskum hótelum.

Þegar Patience verður svo fullorðin giftist hún föður sínum – nei, ekki þannig, heldur manni sem er í sama geira og faðir hennar, eignast með honum tvær dætur og lífið virðist ætla að verða jafn fjárhagslega glæsilegt og í æsku hennar. En maðurinn hennar verður bráðkvaddur einn daginn langt fyrir aldur fram. Við tekur strit Patience sem einstæðrar móður við að koma dætrum sínum á legg með því að starfa sem túlkur og þýðandi hjá dómsmálaráðuneytinu. Þegar Patience er komin á sextugsaldur og dæturnar eru flognar úr hreiðrinu bætist svo við himinhár kostnaður dvalarheimilis aldraðrar móður hennar. Hún grípur því tækifæri sem kemur óvænt upp í hendurnar á henni, að selja hass í kílóavís, og sér þá á ný fram á fjárhagslega áhyggjulausa ævidaga líkt og hún þekkti úr æsku sinni. 

Mér fannst bókin skemmtileg og sögusviðið frumlegt. Þetta er ekki ástarsaga, glæpasaga eða spennusaga heldur persónusaga. Hún er skrifuð í fyrstu persónu þar sem Patience sjálf segir frá ævi sinni og lífsákvörðunum sínum og hvaða augum hún sér fólkið í kringum sig – sem er oftar en ekki frekar skrautlegir karakterar, en á raunsæjan hátt. Patience sjálf er áhugaverður karakter sem birtist í hugleiðingum hennar.  Ástvinir hennar eru henni allt en hún er jafnframt mjög köld með báða fætur niðri á jörðinni og kallar ekki allt ömmu sína. Hún finnur bragð þegar hún sér liti og fær nokkurs konar fullnægingu af því að horfa á flugeldasýningar. Sú ætti að upplifa Ísland á áramótunum – myndi sennilega duga í raðfullnægingu í hálfa öld.

 

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....