Cressida Cowell sló í gegn með bókaseríunni sinni um Hiksta Hryllifant Hlýra III í Að temja drekann sinn. Æskan þýddi fyrstu bókina af tólf árið 2003, en mér sýnist að fleiri bækur úr þeim bókaflokki hafi ekki verið þýddar. Krakkar sem elska fyrstu bókina þurfa því að sækja í ensku bækurnar, eða bara horfa á bíómyndirnar þegar þær koma út hver á eftir annarri. Hvorugt er vænlegt til að efla íslenskan lestur.

En fyrir tveimur árum hóf Cowell skriftir á nýrri seríu sem hefur fengið nafnið Seiðmenn hins forna á íslensku eða The Wizards of Once á ensku. Mér þykir líklegt að bókunum verði snarað á kvikmyndaform innan skamms (það er svo efni í annan pistil að bækur skuli strax settar á hvíta tjaldið). Seiðmenn hins forna er fyrsta bókin í því sem á að verða tríólógía. Bók númer tvö í seríunni er væntanleg.

Xar er sonur hins valdamikla seiðkonungs Seiðvalds og Ósk er dóttir Síkóraxar, drottningar stríðsmannanna. Xar og Ósk eiga að vera óvinir, en þau eru bæði ögn undarleg. Leiðir þeirra liggja saman í myrkum skógi; Xar í leit að forboðnum galdri og Ósk að leita að járnskeiðinni sinni sem gædd er lífi (og er algjörlega bönnuð hjá stríðsfólkinu). Stríðsfólk leggur fæð á seiðmennina og öfugt. Forðum voru til nornir, svo illar að það er óhugsandi. Stríðsmennirnir útrýmdu nornunum, en hafa æ síðan reynt að útrýma öllum galdri. Xar og Ósk bindast vinaböndum og þurfa að takast á við óhugsandi hættur og jafnvel sigra norn.

Bókin er mikið myndskreytt af Cowell sjálfri, með myndum sem eru hennar einkennismerki. Það er mikil hreyfing í þeim, kaos og myrkur en að sama skapi ótrúlega miklar tilfinningar.

Blaðsíður bókarinnar eru einnig sumar hverjar útkrotaðar af auka upplýsingum. Cowell titlar sjálfa sig sem dularfullan sögumann strax í byrjun bókarinnar. Að temja drekann sinn samdi Cowell undir höfundarnafni Hiksta Hryllifants Hlýra III. Þetta er allt saman einkennismerki Cowell og mér virðist hún nota svipaða uppbyggingu á bókunum og hún notaði í Að temja drekann sinn. Oftast er ég hrifin af miklum myndskreytingum í bókum, en í þessari finnst mér aðeins of mikið af því góða. Heilsíðu myndirnar standa vel fyrir sínu, en litlu myndirnar inn á milli og krotið á síðunum truflaði mig frá lestrinum.

Stíll Cowell er ekki einfaldur aflestrar. Hún veður úr einu í annað, lýsingar eru langar og dramatískar og setningauppbygging hjá henni er flókin. Mér fannst framan af sem þýðandinn, Jón St. Kristjánsson, hefði orðið á í messunni. En eftir að hafa skoðað enska texta af bókinni og stúderað aðeins stíl Cowell þá er ég ekki svo viss. Vissulega hefði Jón mátt vera sparsamari á löng og flókin orð (þau eru góð í hófi, sérstaklega ef markhópurinn er börn eða unglingar) og gæta að setningauppbyggingu í nokkrum tilvikum. Hins vegar tel ég að hann hafi náð að koma stíl Cowell nokkuð vel til skila.

Seiðmenn hins forna höfðar til lesenda sem eru fluglæsir og tilbúnir að fara á flug með Cowell inn í heim þar sem tröll, álfar og aðrar furðuverur ganga um. Vegna flókinna orða inn á milli hentar bókin einnig þeim sem vilja bæta rækilega í orðaforðann eða vantar góða áskorun.

Lestu þetta næst

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...