Gunnar Helgason er einn af okkar kærustu barnabókahöfundum. Sögurnar um Stellu slógu í gegn og eru þegar orðnar fjórar. Það virtist því sem Fótboltasagan mikla myndi enda sem fjórleikur og því kom það mörgum á óvart þegar fimmta bókin í seríunni, Barist í Barcelonakom út rétt fyrir sumarið.

Fótboltabók fyrir alla

Lengi vel hafði ég grófa fordóma gagnvart fótbolta. Var manneskjan sem fussaði eitthvað um bolta og net og leikaraskap. Þess vegna hef ég ekki haft mikinn áhuga á því að lesa Fótboltasöguna miklu hingað til. En börnin geta vakið ný áhugamál hjá foreldrunum og síðustu tvö ár hef ég þurft að taka rækilega til skoðunar álit mitt á fótbolta, enda áhuginn orðinn það mikill hjá þeim sjö ára að það kemst ekkert annað að. Þegar hann hoppaði af kæti yfir  nýrri bók saga með Jóni og Rósu (hann horfir á Víti í Vestmannaeyjum-þættina aftur og aftur og kann allar línurnar utan að) þá er erfitt annað en að hrífast með. Það er gott að vita af því að þegar lestrarkunnátta hans er orðin nægilega góð þá geti hann lesið Fótboltasöguna miklu allt til unglingsára.

Já, unglingsára! Því Gunni Helga fylgir eftir lesendunum sínum í bókinni og skrifar nú fyrir eldri börn og unglinga. Í Barist í Barcelona eru Jón og Rósa orðin fimmtán ára unglingar. Því fylgir að sjálfsögðu mikið drama en líka rosaleg eftirvænting og skemmtun.

Jón er í La Masia, æfingabúðum fótboltaliðsins Barcelona, eða himnaríki. Og Rósa er á sama tíma að keppa með U16 landsliðinu í Barcelona. Félagarnir Jón, Ívar og Skúli eru undir mikilli pressu í La Masia, það er erfitt að sanna sig fyrir öllum njósnurunum og útsendurunum án þess að svíkja eða bregðast liðsfélögum sínum og bestu vinum. Rósa þarf að takast á við ástand innan landsliðshópsins, sem jafnvel færustu fótboltamenn eiga erfitt með glíma við. Það er snert á fjölmörgum umræðuefnum í bókinni; samfélagsmiðlum, tryggð, virðingu, ástinni og fyrstu kynnum af fullorðinsárum.

Sagan er öll skrifuð í fyrstu persónu, líkt og aðrar bækur Gunna. Jón segir stundum frá, svo Rósa og stundum liðsfélagar þeirra. Gunni hefur einstakt lag á að skrifa texta á miklu talmáli án þess að textinn verði sóðalegur. Talmálið er fallegt og hárnákvæmt. Textinn er í öllum hugsanlegum litbrigðum þannig að maður heyrir vel hvernig hann á að hljóma (ég les allar bækur Gunna með hans rödd). Ég hef aldrei áður hrópað á bók “ÁFRAM ÍSLAND” eða tilkynnt makanum um stöðuna í ímynduðum fótboltaleik á meðan ég les (honum fannst það mjög spes). Það var erfitt að hætta lestrinum í miðjum leik, rétt eins og þú stendur ekki upp frá fótbotlaleik í hálfleik. Maður bara varð að lesa þar til dómarinn flautaði leikinn af. Bókin fyllti mig reyndar af svo mikilli fótboltabakteríu að ég var fastagestur við sjónvarpsskjáinn á meðan síðustu leikir HM kvenna í fótbolta 2019 voru spilaðir.

Fyrir eldri krakka

Bókin er frábærlega grípandi! Stór hluti af bókinni eru leiklýsingar af fótbotlaleikjum krakkanna, en þær eru svo hrikalega spennandi og litríkar að lesandinn getur auðveldlega hrifist með og fundist hann vera annað hvort hluti af liðinu eða í fremstu röð á áhorfendabekknum. Líf unglingsins er einnig tekið fyrir í bókinni. Að vera skotinn eða ástfanginn? Á að segja þetta eða hitt? Hreyfa hendina svona eða hinsegin? Vandræðagangurinn, efinn og erfiðleikarnir. Erfiðleikar unglingsins flækjast svo inn í enn flóknari heim hinna fullorðnu. Það er ekkert djók að vera fimmtán ára afburða-íþróttamaður í La Masia sem þráir samning við fótboltalið. En á maður að taka hverju sem er?

Barist í Barcelona er rosalega spennandi bók fyrir krakka frá 12 ára aldri – að sjálfsögðu geta yngri lestrarhestar dýft sér á bólakaf í hana.  Efni bókarinnar fannst mér fremur henta eldri börnum og unglingum þar sem sögupersónurnar eru eldri. Gunni fylgir eftir lesendahóp sínum inn í unglingsárin, sem er mikil þörf á, enda allt of fáar góðar unglingabækur gefnar út. Ég vona að tryggur lesendahópur Fótboltasögunnar miklu láti þessa bók ekki fram hjá sér fara. Og ég vona að Fótboltasagan mikla haldi áfram, því ég þrái að lesa um það hvernig Jón og Rósa verða að hæfileikaríkum landsliðsleikmönnum fyrir Ísland.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...