Manstu eftir bókunum sem heltóku þig á sínum tíma sem unglingur? Bækur sem fengu þig til að fá eitthvað tímabil á heilann, persónur eða mótuðu jafnvel áhugasvið þitt.

Ef þú læsir sömu bækur í dag, hvort yrðu það ánægjulegir endurfundir eða gríðarleg vonbrigði? Er kannski ekki ráðlegt að fara aftur til bókafortíðar? 

Þú hefur þroskast síðan þá, sápukúlur sakleysisins sprungnar.  Þú hefur mjög líklega lifað kynlífi, kannski eignast barn/börn, gengið í gegnum missi og áföll og ert almennt töluvert upplýstari um samfélag þitt og sögu. Þannig, hvernig ætli fullorðna útgáfan af þér endurspegli sig í bókum unglingsáranna? 

Mun þér finnast þær uppfullar af barnalegri rómantík þar sem ástin er klippt og skorin, kynlífssenur hamslausar af þrá þar sem allt gengur smurt (smá orðaleikur) fyrir sig? Verða tilfinningaleg viðbrögð persónanna við áföllum og mótlæti einsleit og fyrirsjáanleg? Eru vondu karlarnir illir inn að kjarna og góðu karlarnir hvítskrúbbaðir englar? 

Örlagasaga ambáttar á landnámsöld

Nýlega tók ég þá áhættu að endurnýja kynni mín við söguna um Korku Þórólfsdóttur. Fyrir þau ykkar sem ekki vita er Korka aðalpersóna bókanna Við urðarbrunn og Nornadómur eftir Vilborgu Davíðsdóttur en sögusvið þeirra er Ísland á landnámsöld. Eftir að bær ambáttarinnar Korku fer undir snjóflóð með öllu heimilisfólki, þar með talið móður hennar, hina írsku ambátt Mýrúnu, fær Korka inni á næsta bæ, Reykjavöllum, hjá stórhöfðingjanum Þórólfi. Móðir húsbóndans, gömul völva, tekur Korku undir sinn væng sem lærling og kennir henni jurtalækningar og rúnalestur. Eftir að Korka flækist inn í hneykslismál heimasætunnar að Reykjavöllum og í kjölfarið myrðir fósturson Þórólfs, þarf hún að yfirgefa Ísland til að bjarga lífi sínu. Örlögin leiða hana til Heiðarbæjar í Danmörku – þar sem hún kemst í kynni við Orkneyinginn Atla og er fengin til að spá fyrir konunginum – og síðar Orkneyja þar sem hún blandast inn í átök Norðmanna og innfæddra Petta annars vegar og Orkneyjarjarls og Haralds hárfagra hins vegar. 

Unglingur fær rúnir á heilann

Ég var bæði spennt og kvíðin fyrir þessum endurnýjuðum kynnum. Ég gleypti þessar bækur í mig sem slánalegur táningur á tíunda áratug síðustu aldar. Sá sterka kvenkyns fyrirmynd í Korku og ekki skemmdu fyrir lýsingarnar af háttum völvunnar og rúnalestri. Lengi eftir dundaði ég mér við að skrifa á rúnaletri hvar sem því var við komið: á skólabækur, í lófann (mjög töff leið til að leyna nafni stráksins sem ég var skotin í ) og meira að segja verkefnin í smíðum fengu að kenna á því. 

Ég var kvíðin því í huga mínum vissi ég að bækurnar voru fyrst og fremst flokkaðar sem unglingabókmenntir á sínum tíma.  En viti menn óttinn var ástæðulaus enda er Vilborg frábær rithöfundur. Bækurnar eldast vel með manni, það var ekkert rómantíserað í bókunum sem snerta á mörgum flötum mannlegs samfélags, góðum sem slæmum: kynlífi, hjónaböndum, fæðingum, uppeldi, kynferðis- og heimilisofbeldi og stríði. Persónur hafa dýpt, sumar þeirra gera eða hafa gert mjög slæma hluti en eru ekki málaðar sem holdgervingar hins illa. Þar að auki er endirinn ekki fyrirsjáanlegur nema að óverulegu leyti. Þannig að ef þú átt ungling sem hefur gaman af því að lesa væri ekkert vitlaust að gauka þessum tveimur bókum að honum

 

.

 

 

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...