Þetta er ekki bílastæði er önnur ljóðabókin eftir ungskáld sem kemur út hjá Unu útgáfu húsi í haust. Eitt af markmiðum útgáfunnar er einmitt að efla útgáfu verka frá nýjum skáldum, en meira má lesa um það hér. Í viðtali sögðu þau meðal annars: „Við vonum að þannig fái nýliðar á ritvellinum vettvang til að vinna verk sín í skapandi samstarfi.“ Þetta er einkar göfugt markmið og því ber að fagna.
Brynjólfur Þorsteinsson er höfundur ljóðabókarinnar en hann vann Ljóðstaf Jóns úr Vör 2019 fyrir ljóðið sitt „Gormánuður“. Vinningsljóðið birtist í ljóðabókinni en dómnefndin fór fögrum orðum um ljóðið og sögðu Brynjólf „[flétta] listilega saman andstæðum þar sem ljós og sorti, fortíð og nútíð mynda meistaralega smíðaða heild sveipaða myndríkri dulúð.“ Hér má bæði lesa ljóðið um umsögn dómnefndar í heild sinni.
„Vetrarkvíði“
Ljóðabókinni er skipt í þrjá kafla sem heita „Gormánuður“, „Ýlir“ og „Mörsugur“, en þetta eru nöfn vetrarmánaða úr gamla norræna tímatalinu. Ljóðin innan kaflanna virðast þó að mestu leiti ótengd og eru þá mögulega upplifanir sem henda ljóðmælanda á þessum mánuðum. Leiðarstefið í bókinni er þó bílastæðið sem kemur fyrst fyrir í fjórða ljóði bókarinnar. Hvað er hversdagslegra og kapítalískra en bílastæði? Malbik sem hefur engan tilgang nema að hýsa vélar sem eru að drekkja okkur í kolefni. Ljóðmælandi virðist ferðast töluvert á bíl á milli landshluta, bíllinn og bílastæðin skerast þá inn í náttúru- og umhverfislýsingar eins og í ljóðunum „Vegasorg“ og „Hvalfjarðargöng“. Veturinn er einnig stef sem fléttar sig í ljóðin, veturinn sem vekur kvíða ljóðmælanda, „kvíðinn fyrir myrkrinu / ofinn úr silkiþráðum // sem ég klæðist / eins og eigin sinni // skipti um nafn / sef fram á vor“ (bls. 16).
Bleksvört nóttin
Það sem er svo merkilega fallegt við þessa bók er hvernig höfundi tekst að framandgera fyrirbæri, snúa upp á hversdagslega hluti eins og sjálfa nóttina. Það gerir hann í ljóðinu „Þessi nótt (aðfaraorð)“: „þessi nótt er ekki / eins og blek // blaut / vissulega og // það er hægt / að skrifa ljóð með henni en“ (bls. 20) Fólk hefur ófáum sinnum heyrt frasa á borð við „bleksvört nóttin“ en hér snýr höfundur gjörsamlega upp á myndina, tekur hana bókstaflega en gerir lesanda grein fyrir því að „þessi nótt er ný // ólíkt öðrum nóttum / hefur hún aldrei komið áður“ (bls. 20) Þessar nýju myndir eru fallegar og nostalgískar, minnir mann á tíma þegar skáldin notuðu fjaðurstaf og blek þegar þau ortu inn í nóttina. Ljóðið endar þó á óhugnalegan hátt, nóttin er eitthvað sem ber að varast: „þessi nótt er eins og eitthvað / sem maður stígur ofan í // […] // afvegaleiðir / opnar höfuð / hylur hræ // gæti maður ekki fóta sinna / þessa nótt“.
Húmor til að takast á við tilveruna
Það er mikill húmor í bókinni, sum ljóðin eru töluvert léttvægari og hressandi en önnur, stundum hló ég jafnvel upphátt. Í ljóðinu „Skrúfurnar sem ég fann“ veltir ljóðmælandi fyrir sér hvaðan allar þessar skrúfur koma og lýsir öllum stöðunum þar sem skrúfurnar hafa fundist, meðal annars „í bílastæði opinberar stofnunnar“ (bls. 35) Ljóðmælandi veit ekki hvaðan þessar skrúfur koma en gerir sér grein fyrir því að „eitthvað / er að detta / í sundur“ (bls. 35). Þá er spurningin, hvað er að detta í sundur? Sjálfur ljóðmælandinn?
Þetta er ekki bílastæði er nútímaleg ljóðabók sem á virkilega góða spretti. Myndmálið er sterkt og lýsir samtímanum á óvæntan og súrrealískan hátt. Það er kuldi og vetur í hjarta og huga ljóðmælanda, byggingaframkvæmdir og bílastæði. Ljóðabókin tekur á íslenskum raunveruleika, vetrarkvíða, skammdegisþunglyndi og slæmri þróun samfélagsins, á myndríkan, napurlegan og stundum kaldhæðinn máta.