Grafíska sjálfsævisagan Kynsegin, eða Gender Queer á frummálinu, kom út árið 2019 en hefur nýlega verið þýdd á íslensku af Mars Proppé og Elíasi Rúna. Í henni segir myndasagnahöfundurinn Maia Kobabe frá því hvernig hín áttaði sig á að hín var kynsegin eikynhneigð og því langa ferli sem fylgdi því að finna sjálft sig og að koma út úr skápnum.

Verandi mjög grimmur aðdáandi myndasagna (samt bara graphic novels come on) og sérfræðingur Lestrarklefans í kynsegin málefnum hlaut ég að lesa þessa bók og skrifa hvað mér finnst.

 

Kynsegin uppvöxtur 

Hín er fætt 1989, aðeins tveim árum á undan mér, og er því áhugavert að sjá uppvöxt manneskju sem er með svipað aðgengi að sýnileika og elst upp í svipuðu menningarumhverfi. Ég tengdi mikið við bókina, og þá sérstaklega skrif höfundar um að finnast erfitt að þurfa að valda fólki óþægindum með eigin fornöfnum og kynvitund. Væri ekki bara svo miklu auðveldara að þykjast bara vera kona og skapa engin vandamál? Spyr Kobabe, og ég kannast ósköp vel við það. Eitt af því sem mér finnst sérlega flott við söguna er að höfundur bíður ekki eftir að hafa klárað ferðalag sitt um kynvitund sína, heldur er hín enn óöruggt á tímum, á erfitt með að koma út og leiðrétta fólk, og efast um sjálft sig, en það er eitthvað sem ég held að margt kynsegin fólk tengi við.

Ég tengi sjálf mest við nákvæmar lýsingar höfundar á smáreiti frá vinum, sem skjóta á kynhneigð eða hegðun manns þegar maður sýnir hvernig maður er í raun en er ekki að leika til að passa í hópinn, sem Kobabe lýsir á næman og djúpan hátt með örfáum orðum. Þá er hinsegin menningu einnig gerð góð skil, og hvaða djúpstæða gleði fylgir því að sjá sjálft sig og eigin tilfinningar speglast í list annarra.

Kynsegin lestur

Þá minnir bókin óneitanlega að vissu leiti á Fun Home, grafíska sjálfsævisögulega Alison Bechdel, þar sem hún talar um að finna kynhneigð sína og koma út sem butch lesbía á 8. áratugnum. Bæði er teiknistíllinn keimlíkur, myndirnar eru einfaldar en þó vel teiknaðar og fallegar, og svo er leikandi húmor í verkinu í bland við alvarleika og erfið málefni. Ég kann sérstaklega að meta að höfundur opni sig jafn mikið og raun er í verkinu og tali um eigin kink, kynhegðun og langanir, í bland við önnur hinsegin málefni.

Nú veit ég ekki hvernig fólki sem er ekki kynsegin finnst að lesa þessa bók, en ég get ímyndað mér að það fyndi hugsanlega aukin skilning á ýmsum öngum þess að vera kynsegin, til að mynda þess að finnast maður ekki af neinu kyni. En til þess að fá nákvæm svör við því þarf ég að ráða sískynja lesara. (Reyndar las barnið mitt hluta bókarinnar með mér, en það hefur ekki skilgreint sig út frá kyni enn sem komið er, og svo er það tveggja ára, svo allt sem það hafði til málana að leggja var að segja mér að mynd af regnbogalitum bangsa í bdsm galla væri mynd af Bangsímon.)

 

Kynsegin líf

Ég mæli með að öll lesi bókina, þá sérlega þau sem eru trans og eða kynsegin. Hún er falleg, fljótlesin, mjög fyndin og vel skrifuð. Myndlýsingarnar eru fallegar, persónur eru með mjög skýr karaktereinkenni, brotið er þægilegt, litirnir eru fallegir og skilaboðin, að við séum öll bara að gera okkar besta með að finna okkur sjálf, eru æðisleg.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...