Tilfinningar eru eins og skýin

„Tilfinningar eru svolítið eins og skýin, sem koma og fara,“ segir í lýsingu á nýju sólódans- og söngvaverki Ólafar Ingólfsdóttur, og er það sennilega kjarni verksins í heild. Ólöf, sem er bæði afkastamikill dansari og danshöfundur, hefur um árabil tekið sér pásu frá að starfa við dans og einbeitt sér að öðrum störfum, þar á meðal klassísku söngnámi.  

 

 

 

Dans Festival

Nú geri ég ráð fyrir að flestir lesendur hafi einhvern tíman farið á listviðburð og hugsað með sér „ég gæti nú alveg hafa gert þetta,“ meðan þeir horfa á list sem þeim finnst ekki sérlega virðingarverð. Það sem kom upp í huga minn frá upphafi sýningarinnar Eitthvað um skýin og hélst út verkið, er akkúrat andstæða þessarar hugsunar, en ég gat ekki annað en setið agndofa og hugsað ég gæti aldrei gert þetta, þegar ég horfði á Ólöfu Ingólfsdóttur heilla salinn á frumsýningu Eitthvað um skýin í Tjarnarbíó.

Verkið sem var frumsýnt á Festival Quartier Danses í Montreal 11. september, og svo flutt í fyrsta sinn á Íslandi á Reykjavík Dance Festival á dögunum, er fallegt og einlægt verk þar sem höfundur og flytjandi tvinnar saman nútímalist og eldri listformum í fallegri blöndu. Hún beitir samtímadansi og sviðsvinnu með barokk aríum, og leik- og tilfinningadýpt verksins skín í gegn allan tímann.

Vald á listinni

Ólöf er ein á sviðinu, í upphafi verksins liggur hún í fósturstellingu undir skýjum, sem fljóta á naívan en um leið heillandi hátt fyrir ofan hana, eins og teikningar barns af skýjum hafi öðlast líf. Strax hrífur Ólöf áhorfendur með sér, en hún beitir rödd og öllum líkamanum í útpældum hreyfingum til að fá alla til að halla sér fram í sætinu og fylgjast með. Eftir sem líður á eykst hraðinn, tilfinningar verksins líða á milli skala frá sorg, til angistar, til gleði og leiks.

Tónlist verksins er mjög falleg og angurvær, en hljóðfæraleikararnir sem færa okkur hana eru Júlíana Elín Kjartansdóttir, Rósa Hrund Guðmundsdóttir, Sesselja Halldórsdóttir, og Ólöf Sesselja Óskarsdóttir, sem spila á strengjahljóðfæri. 

Marglaga einfaldleiki

Búningar og leikmynd eru mjög einföld, eins og áður segir en þó virkilega útpæld og eru nákvæmlega nóg til að draga ekki athygli frá Ólöfu heldur auka á sjónarspilið í fallegri harmoníu, en Bryndís Ósk Þ Ingvarsdóttir sér um hvort tveggja. Þá er lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar mjög vel heppnuð og stemningin á sviðinu er heillandi og hrá, eins og tilfinningarnar í verkinu.

Rödd Ólafar er virkilega falleg, og heillaði mig mest í lokaatriðinu, þegar tilfinningarnar eru hvað sárastar og heitastar. Um miðbik verksins er mesti farsinn, og þar sem ég er annálaður fýlupúki var ég ekki jafn heilluð af því, en salurinn hló mikið svo þetta féll greinilega í kramið hjá hressari leikhúsgestum.

Ég mæli hiklaust með þessu fallega og djúpa verki um tilfinningar, mennsku og ský.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...