Sif Sigmarsdóttir er sjálfstætt starfandi blaðamaður og rithöfundur sem býr í Lundúnum og þaðan sendir hún Íslendingum hressandi og beinskeytta pistla sem birtast á vefmiðlum landsmanna. Fyrsta bók Sifjar var unglingabókin, Ég er ekki dramadrottning og kom út árið 2006 en síðan þá hefur hún skrifað ótal bækur og greinar. Sif var tilnefnd til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 2013 fyrir skáldsöguna Freyju saga – Múrinn.  Bókin Ég er svikari kom fyrst út í Bretlandi fyrir tveimur árum og er því skrifuð upphaflega á ensku. Þetta er vísindaskáldsaga, framtíðartryllir og segir frá því þegar geimverur herja í jörðina og nema á brott ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára. Aðalpersónan Amy ákveður að gera það sem í hennar valdi stendur til að bjarga mannkyninu frá glötun og í æsispennandi atburðarás er ekki allt sem sýnist.

Eru til fyrirmyndir að sögupersónum bókarinnar?

“Sögupersónurnar eru uppspuni. En sögusviðið er byggt á „sönnum atburðum“.  Árið 2007 heimsótti ég Sarajevó. Borgin er ótrúlega falleg og fólkið vinalegt. Við maðurinn minn skráðum okkur í hóp-skoðunarferð um borgina með leiðsögumanni. Þegar við mættum á svæðið vorum við eina fólkið í túrnum. Það var greinilega ekki mikið um túrista í borginni. Þetta var tíu árum eftir að umsátrinu um Sarajevó lauk. Sárin voru langt frá því að vera gróin um heilt. Borgin hafði þurft að þola lengstu herkví í sögu nútímahernaðar og hún var þakin örum. Í veggjum húsanna voru holur eftir sprengikúlur. Enn voru svæði innan borgarinnar lokuð af vegna hættu á jarðsprengjum. Eftir skoðunarferðina settumst við niður á kaffihúsi með leiðsögumanninum sem var jafnaldri okkar og hann fór að segja okkur frá lífinu sem unglingur í Sarajevó á tímum umsátursins. Ég hafði alltaf ímyndað mér að í stríðshrjáðum löndum lokaði fólk sig af í húsum sínum, hætti að lifa lífinu og biði eftir að hryllingurinn gengi yfir. En þvert á móti. Af ótrúlegu æðruleysi kepptist fólk við að viðhalda daglegu lífi. Það fór til vinnu þótt ferðalagið gæti kostað það lífið, reynt var að halda uppi skólastarfi í rústum bygginga – og það sem mér fannst merkilegast: unglingar lögðu sig í lífshættu til að fara í partí á kvöldin. Mér fannst þessi staðfesta mannsins til að ríghalda í hversdagsleikann við slíkar aðstæður ótrúlega heillandi.

Þessi heimsókn til Sarajevó varð kveikjan að Ég er svikari. Það má segja að bókin fjalli um styrk mannsandans. Þetta er vísindaskáldsaga fyrir unglinga – og bara alla sem hafa áhuga á vísindaskáldskap. Aðalsöguhetja bókarinnar er unglingsstelpa sem heitir Amy og býr í London. Hún er ósköp venjuleg stelpa, hangir á Facebook, glápir á YouTube og fer í partí með vinum sínum. Þegar geimverur mæta til jarðar og taka að nema á brott unga fólkið sogast hún inn í óvænta atburðarás. Til að bjarga mannkyninu þarf hún að svíkja þá sem treysta henni og treysta þeim sem eru að reyna að drepa hana.”

Er öðruvísi að skrifa fyrir unglinga en t.d börn eða fullorðna?

“Ég finn engan mun. Hins vegar finnst mér miklu mikilvægara að skrifa fyrir börn og unglinga en fyrir fullorðna.  Lestur sem dægradvöl á í vök að verjast gegn skemmtun á borð við sjónvarp og tölvuleiki. Af mörgum er lestur ekki einu sinni talinn til dægradvalar. Hann er álitinn verkfæri. Tól sem maður notar til að útskrifast úr skóla og sinna vinnu, rétt eins og kústur er áhald til að sópa gólf. En þar koma barna- og unglingabækur inn í spilið.  Ég hef reynt með bókunum mínum að gera íslenskum unglingum kleift að komast í lesefni sem sprottið er úr þeirra eigin reynsluheimi en samræmist jafnframt smekk samtímans og uppfyllir kröfur hans um afþreyingu. Ég vil sýna þeim að lestur er skemmtun sem jafnast á við bestu bíómyndir og æsilegustu tölvuleiki.  Það útskrifast enginn úr tölvuleiknum „Grand Theft Auto“ yfir í Halldór Laxness. Þess vegna eru barna- og unglingabókmenntir mikilvægasta bókmenntagreinin af þeim öllum. Þær eru grunnur hverrar bókmenntaþjóðar.”

Það er mjög sterk ádeila í sögunni. Finnst þér vera samhljómur í baráttu unga fólksins í bókinni og þeirri baráttu sem ungt fólk í dag stendur frammi fyrir að þurfa að herja?

“Ungt fólk verður fyrir mikilli gagnrýni. Þeim sem eldri eru finnst unglingarnir ekki geta gert neitt rétt. Orðið „snjókorn“ er gjarnan notað í niðrandi merkingu um ungt fólk sem sumum þykir ekki nógu hart af sér, of viðkvæmt og móðgunargjarnt. En rétt eins og í Ég er svikari held ég að það verði unga fólkið sem kemur okkur til bjargar og forðar okkur frá glötun.”

 

Við grípum niður í upphafi bókarinnar, þar sem blákaldur veruleikinn blasir við fjölskyldu Amyar, bróðir hennar er horfinn og veröldin verður aldrei söm.

Mánudagur, 22. ágúst

Ég heyri fótatak pabba sem gengur um gólf uppi í stofu. Mamma grætur. Þegar ég heyri hana gráta fer maginn á mér allur í hnút. Mér tókst að loka á það dálitla stund með því að hlusta á tónlist en nú er síminn minn orðinn hleðslulaus. Í aðra röndina langar mig að öskra. Eða kasta upp. Eða leggjast niður og sofna og vakna aftur í fortíðinni. En ég get ekki leyft mér að hugsa þannig. Ég verð að vera sterk. Ég má ekki vera byrði á öðrum. Ég má ekki verða enn ein ástæðan til að gráta.

Emma hímir á óumbúnum svefnsófanum mínum og japlar áhyggjulaus á pennaveskinu mínu svo slefið úr henni lekur yfir sængurfötin mín. Ég öfunda hana. Hún hefur ekki hugmynd um hvað tveggja ára barnsaugun hennar voru að horfa upp á. Ég vildi að ég væri bara smábarn og hefði ekki glóru um hvað er í gangi – vissi ekkert um að heimurinn okkar er að liðast í sundur á skelfilegan og ólýsanlega ömurlegan hátt.

Yfir Canary Wharf er himinninn þungbúinn og kyrr. Það er eins og himinhvolfið finni á sér að það sé við hæfi að vera drungalegur. Eins og augu himinsins séu að fylgjast með jarðarför. Þykk ský umvefja gljáandi skýjakljúfana í fjármálahverfinu í London. Glerið, steypan, stálið – hvassbrýndar og skarpar útlínur bygginganna – virðast mýkri í þokunni. Frá svefnherberginu mínu sé ég bygginguna þar sem mamma vinnur – eða vann. Oftast ljómar skært ljós úr hverjum glugga svo svæðið allt verður eins og þéttur skógur uppljómaðra jólatrjáa. Núna líkjast skýjakljúfarnir mest beinagrindum, vofum löngu liðinna jóla.

Grátur mömmu hefur rénað, þung ekkasogin verða smám saman að kjökri og þagna loks alveg. Skyndilega óska ég þess að hún hefði ekki hætt að gráta. Af því sem hefur gerst síðustu vikurnar hefur mér lærst að það er eitt sem er enn verra en hljóðið í manneskju sem grætur sáran, og það er þögnin. Veinin, gráturinn, tilgangslaus áköllin um miskunn – allt er þetta óbærilega sárt, en það sem lætur mér líða eins og ég sé að ganga af vitinu er þó skerandi, þrúgandi þögnin.

Þegar allt verður hljótt verða raddirnar í höfðinu á manni nefnilega háværari. Þær spyrja ærandi spurninga: Hvers vegna eru þessar verur komnar hingað? Hvað vilja þær? Erum við öll dauðadæmd – er ég dauðadæmd?

Þangað til í kvöld átti ég enn einhverja von. Ég trúði því að það væru enn einhver úrræði. Að svona yrði þetta ekki alltaf. En nú … nú er ég ekki viss … Ég er farin að gleyma því hvernig lífið var áður fyrr. Ég er farin að gleyma því að þetta hafi verið öðruvísi.

Rafmagnið fór fyrir mörgum klukkutímum. Dökkir skuggar eru á iði í bjarma kertaloganna og líkjast dauðum sálum sem reyna af veikum mætti að endurheimta lífsneistann.

Ekkert okkar á nein svör við spurningunum sem kvikna í þögninni. Ekkert okkar veit hvers vegna þetta gerðist. Ekkert okkar veit hvað er í vændum. Það eina sem ég veit með vissu er þetta: Ég get ekkert gert nema beðið þess að röðin komi að mér.

Verurnar tóku bróður minn. Bróðir minn er horfinn. Matilda líka. Ég held að ég sé næst.

 

Hits: 264