Lausnin oftast sú einfaldasta

The Mirror Crack‘d from Side to Side er níunda bók Agöthu Christie um gömlu áhuga rannsóknarlögreglukonuna Miss Marple en hún kom fyrst út árið 1962. Bókin er ein af þeim síðari á ferli glæpasögudrottningarinnar Agöthu Christie og er talin meðal betri bóka frá þeim tíma. Þetta er auðlesin, en jafnframt spennandi bók, sem notalegt er að liggja yfir á aðventunni.

Bókin, eins og margar um Miss Marple, gerist í heimabæ hennar St. Mary Mead, rólegum enskum bæ þar sem allir þekkja alla og lítið fréttnæmst gerist dagsdaglega. Í bókinni er Jane Marple orðin heldur öldruð og illa á sig komin þar sem hún er að ná sér eftir veikindi. Sagan hefst á því að Miss Marple bregður sér út í göngutúr og dettur. Henni til bjargar kemur Heather Badcock sem býður henni inn til sín til aðhlynningar. Þær fara að tala um amerísku Hollywood leikkonuna Marinu Gregg sem nýverið keypti hefðasetur í bænum af gamalli vinkonu Miss Marple og segir Heather Badcock Marple frá því að hún hafi einu sinni hitt hana. Stuttu síðar heldur Marina Gregg ásamt Jason Rudd, nýjasta eiginmanni sínum, veislu til heiðurs góðgerðarfélagsins St John Ambulance sem mörgum úr bænum er boðið til, þeirra á meðal Heather Badcock. Veislan endar með ósköpum þar sem Heather Badcock deyr af völdum eitrunar í drykknum sínum. Lögreglan, undir stjórn Detective-Inspector Dermot Craddock, hefur rannsókn á morðinu og leitar til Miss Marple af gömlum vana. Fljótt bendir allt til þess að Marina Gregg hefði átt að vera fórnarlamb eitrunarinnar en Marina Gregg gaf Heather Badcock sinn drykk eftir að Badcock hafði sullað úr sínum.

Titill bókarinnar vísar í ljóð Tennyson The Lady of Shalott, en eitt undarlegasta sem átti sér stað daginn sem morðið var framið var að andlit Gregg fraus þegar hún var að taka á móti gestum í veislunni og einn gestana lýsir því eins og í ljóðinu:

Out flew the web and floated wide-

The mirror crack‘d from side to side;

“The curse is come upon me“, cried

The Lady of Shalott

Marina hefur flókna fortíð að geyma, hefur margoft verið gift, þráði barn og ættleiddi börn sem hún síðar gaf frá sér eftir að hún eignaðist sinn eiginn son sem var fatlaður og lést. Því koma margir til greina sem mögulega hefðu viljað ráðið hana af dögum.

Atburðarrásin í bókinni er mjög hröð. Á meðan á rannsókninni stendur, láta tveir í viðbót lífið innan sólarhrings. Marple reynir að rannsaka málið eftir bestu getu að heiman þar sem hún hefur ekki heilsu til að fara út um allar trissur og þarf einnig á kómískan hátt að stinga aðstoðarkonu sína af til að hnýsast í málinu. Á endanum nær hún eins og svo oft áður að leysa málið, en líkt og í öðrum Christie bókum er lausnin ekki sú sem maður átti von á, en þó eins og Marple segir sjálf er hún oftast sú einfaldasta.

Bókin er heilt yfir þægileg í lestri og heldur manni spenntum að komast að því hver morðinginn er. Maður verður hálf óþreyjufullur í miðri bókinni því mjög fáar vísbendingar eru um morðið, en það undirstrikar einmitt tilfinningu Marple þar sem hún er föst heima að reyna að leysa úr fléttunni. Ég mæli því með að Christie aðdáendur sem og þeir sem kunna að meta góða breska glæpasögu lesi bókina. Einnig mæli ég með kvikmynd byggðri á bókinni The Mirror Crack‘d með Angelu Lansbury í hlutverki Miss Marple og Elizabeth Taylor í hlutverki Marinu. Elizabeth Taylor er fullkomin í hlutverki dramatísku Hollywood leikkonunnar með flókna fortíð. Fyrir þá sem hafa nú þegar lesið þessa klassísku bók Christie mæli ég þá með The Murder of Roger Ackroyd eða Myrkraverk á Styles-setri sem við fjölluðum um fyrr á árinu.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...