Doðranturinn sem börnin keppast um að lesa

Ævar Þór Benediktsson sendir frá sér sína sjöttu bók í Þín eigin-bókaseríunni fyrir jólin. Þinn eigin tölvuleikur hefur nú þegar trónað á toppi metsölulista í margar vikur og flest börn sem eru farin að lesa af einhverjum krafti (og jafnvel þau sem eru enn að læra að lesa!) setja bókina á jólagjafalistann og þrá að fá að lesa hana. Það vilja allir fá nýjustu bókina hans Ævars! Bókin er tæplega 600 blaðsíður og það verður að teljast nokkuð þrekvirki að fá krakka til að óska þess að berjast við að lesa doðrant af þeirri stærð. En Ævar er lestrarhvetjari og það verður seint tekið frá honum.

Fleiri flækjur!

Sjálf var ég nokkuð efins um að Ævar gæti unnið lengra með Þín eigin-seríuna án þess að fara að endurtaka sig. Sex bækur byggðar á sömu hugmynd? Hve langt er hægt að teygja lopann? Ævar sá þó við þessum efasemdum mínum! Bókin er uppbyggð á annann hátt en hinar bækurnar. Leiðirnar í gegnum bókina eru allar tengdar. Til að geta sagst hafa klárað bókina þarf lesandinn að klára fimm tölvuleikjaborð: Bendiborð, fótboltaborð, hoppi skopp borð, prinsessuborð og allir-á-móti-öllum borð. Að auki bætist við áskorunin við að finna lokalykilinn í öllum þessum borðum. Þegar öll borðin hafa verið kláruð og lokalykillinn fundinn í þeim öllum þá er loksins hægt að fara í lokaborðið, sigra endakallinn og klára bókina.

Það er hægara sagt en gert að klára bókina! Lesandinn þarf að finna út “hver stal kökunni úr krúsinni í gær”, koma óstýrlátum dreng til skila í kastala, skora mark á móti erfiðasta fótboltaliði allra tíma, hoppa fram hjá “Namm-namm blómum” og komast fram hjá aparössum. Áskoranirnar eru endalausar! Í bendiborðinu leið mér eins og í skáldsögu eftir Agöthu Christie. Í raun er spæjarinn hans Ævars innblásinn af Sherlock Holmes, en mitt ímyndunarafl gaf mér yfirvaraskegg Poirot og franskan hreim. Það þarf að þekkja nokkuð hugsunargang Ævars til að velja réttu leiðina í gegnum borðið, en allar leiðirnar eru bráðfyndnar og skemmtilegar.

Ef lesandinn finnur svo ekki lokalykilinn þarf hann að byrja aftur á borðinu og velja aðra leið í gegnum það! Sjálf þurfti ég að endurtaka fótboltaborðið þrisvar sinnum áður en ég náði að gera allt rétt! Allir-á-móti-öllum borðið olli mér líka nokkrum vandræðum. Það er því nokkuð ljóst að börn sem byrja að lesa þessa bók komast ekki svo hæglega undan því að lesa allar 592 blaðsíðurnar!

Eins og í fyrri bókum í Þín eigin-seríunni sér Evana Kisa um myndskreytingarnar og gerir hún það listilega vel! Eini gallinn er þó að það eru engan veginn nægilega margar myndir í þessari bók líkt og fyrri bókum. Best af öllu væri ef það væri mynd á hverri síðu, en þá væri bókin líklega allt of löng. Það er þó bót á máli að Evana Kisa fær að njóta sín betur í léttlestrarbókum Ævars.

Hóplestur á skólabókasöfnum

Það er með ólíkindum að Ævari hafi tekist að skapa þessa bók – eftir að hafa líka sent frá sér tvær léttlestrarbækur, eina bók um berskubrek Ævars vísindamanns, starfrófskver fyrir yngri lesendur, slegið botninn í stærsta lestrarátakið og sett á svið leikrit byggt á Þinni eigin goðsögu, allt á sama árinu. Þinn eigin tölvuleikur er með töluvert fleiri flækjustig en hinar bækurnar, fleiri blaðsíður, auknu af ímyndunarafli, bráðskemmtilegum húmor og aukaborði sem lesendur geta dundað sér við að leita að (ég ætla að vinna það líka!).

Bækur eins og Þinn eigin tölvuleikur eru gríðarlega vinsælar á skólabókasöfnum og oftar en ekki lesnar í tætlur. Mér finnst því liggja í augum uppi að bókaforlagið sem gefur út bókina þurfi að gæta að því að prenta og binda bókina nægilega vel, svo hún endi ekki sem gallavara fljótlega eftir að hún kemur út.

Eins og í alvöru tölvuleik er hægt að lesa (spila?) bókina saman í hóp, deila reynslu og gefa góð ráð sín á milli. Þannig geta lesendur (spilarar?) komist í gegnum bókina saman með kunnáttu og kænsku. Á sama tíma verður lesturinn að hópíþrótt sem allir geta skemmt sér við. Þess vegna ættu starfsmenn skólabókasafna að gæta að því að eiga nægilega mörg eintök af bókinni og hvetja lesendur til að lesa bókina saman. Það er ekkert skemmtilegra en að deila lestrarupplifun saman.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...