V – Vörtuþakinn vísindamaður og valhoppandi vampíra

Í lok ágúst, rétt fyrir skólabyrjun, kom glæný og glóðvolg stafrófsbók á markaðinn. Stórhættulega stafrófið er skrifuð af Ævari Þór Benediktssyni og myndskreytt snilldarlega af Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Ævar Þór er einn af vinsælustu barnabókahöfundum landsins og hefur hingað til skrifað fyrir krakka frá aldrinum níu ára og eldri. Hér skrifar hann fyrir yngri lesendur.

gervigubb úr gúmmíi

Bókin er nokkuð í anda hans – það er skammt í húmorinn en allt er fremur drungalegt, en krúttlegt. Fjóla er dauðhrædd við stafrófið – stórhættulega stafrófið – og forðast því að lesa. Dag einn ákveður Fjóla að halda tombólu og heldur út í nágrannagötuna til að safna hlutum til að selja. Hún gengur inn í Stafrófsstræti þar sem eru heldur en ekki undarlegir íbúar. Aðalsmaður með afskrúfað höfuð, áhugasöm álfkona, fáránlegur farandsölumaður, jóðlandi jólaköttur, unglingar umkringdir úrgangi og svo framvegis. Það er með ólíkindum hve hugmyndaríkur Ævar er þegar hann trillar fram hverjum textanum á eftir öðrum, bundinn því að hafa eins mörg orð og hægt er sem byrja á tilteknum staf í textanum. Hlutirnir sem Fjóla fær til að selja á tombólunni eru líka hinir undarlegustu. Hún fær til dæmis grænt og gult gervigubb úr gúmmíi frá grænni geimveru. Þið getið giskað á hvaða stafur var til umræðu þar… Gubbið vakti mikla lukku hjá meðlesara mínum.

Drungalegar myndir prýða stórhættulegt stafróf

Slái bókin í gegn er frábært að geta skreytt barnaherbergið með Stafrófsstræti svo stafirnir, í formi einbýlishúsa, séu alltaf fyrir augum barnsins.

En Bergrún Íris stóð ekki síður frammi fyrir áskorun þegar hún myndskreytti bókina. Á hverri síðu er hægt að þaulskoða myndirnar og finna ótal hluti sem byrja á hverjum staf fyrir sig. Hjá F má til dæmis finna fljótandi flatskjá, foss, fanga með flugreka, fíl í fallhlíf og svo mætti lengi telja. Í byrjun bókarinnar má svo finna mynd af stafrófsstræti. Fjóla tók kannski ekki eftir því þegar hún rölti um göturnar – en húsin eru öll í laginu eins og stafirnir. Myndirnar eru nokkuð drungalegar, enda er stafrófið stórhættulegt. Þær eru grátóna og grænar og Stafrófsstræti er yfirfullt af alls kyns kynjaverum. En á síðustu síðunni glaðnar þó yfir, enda er Fjóla ekki eins hrædd við stafina lengur. Ég sakna þess þó að stafirnir sem eru til umræðu séu teiknaðir efst á hverri síðu, til að auðvelda börnunum að sjá auðveldlega hvernig hver og einn stafur lítur út.

Bók full af möguleikum

Texti Ævars tönnlast þó á hljóðum stafanna og foreldrar þurfa bara að gefa sér tíma til að benda á stafina í textanum. Svo getur það verið stórskemmtilegt sport að reyna að finna alla hlutina á teikningunum. Það er hægt að styðja sig við orðalistann aftast í bókinni svo  það fari örugglega ekkert fram hjá lesandanum. Það er líka áskorun að stauta sig í gegnum orðalistann til að komast að því hvað á að finna næst.

Bókin hentar vel til lesturs fyrir börn frá þriggja ára aldri, því það er aldrei of snemmt að byrja að ræða stafina. Það er svo ekki verra að mega kynnast þeim í gegnum hrottalegar hryllingsverur (sem eru samt bestu skinn). Ég skora svo á foreldra og börn að finna alla hlutina á myndunum án þess að nota orðalistann. Það er meira en að segja það! Svo leynist líka leynigestur á hverri mynd, litli bróðir Fjólu flæktist með og er að finna á hverri mynd, beran að ofan og á bleyjunni.

 

Lestu þetta næst

Lending á Ísafirði

Lending á Ísafirði

Kareem er á leiðinni á Ísafjörð eftir að hafa verið á flótta mjög lengi. Hann og fjölskyldan hans...

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....